Eins og skýrt hefur verið frá í fréttum kom ný flugvél Landhelgisgæslu Íslands, TF-SIF, til landsins fyrir skömmu. Koma vélarinnar boðar byltingu í möguleikum til að hafa eftirlit með mengun á hafsvæðinu umhverfis Ísland. Hefur komu vélarinnar því verið beðið með þó nokkurri eftirvæntingu, ekki síður á Umhverfisstofnun en hjá Gæslunni.

Tækjakostur vélarinnar var ekki lengi að sýna gagnsemi sína því þegar í 2. æfingar- og könnunarflugi sl. þriðjudag greindu þau olíuflekk á Faxaflóa sem ósennilegt er að hefði verið uppgötvaður ella.

Samkvæmt mælingum hjá Landhelgisgæslu var flekkurinn á 64°35,89N og 23°3,69V og lá hann í stefnu 45° (sjá mynd 1). Í gær, 9. júlí, flaug Sif aftur yfir svæðið og er flekkurinn enn á sínum stað. Eftir skoðun á fyrirliggjandi gögnum er talið fullvíst að hér sé ekki um að ræða losun frá skipi. Fyrir það fyrsta er ósennilegt að skip eða bátur sé þarna á þessari stefnu auk þess sem útlit flekks og einkenni líkjast frekar streymi á föstum stað. Olían rekur síðan í straumstefnu (NA en beygir síðan til vesturs) og vestlægur vindur (þegar myndin er tekin) dreifir olíunni til austurs, því meir eftir því sem lengra dregur frá losunarstað. Með seinna yfirflugi Sifjar berast böndin mun fastar að skipsflaki á hafsbotni. Samkvæmt frummælingum Gæslunnar er magn olíu á svæðinu milli 0,3 og 3 m3 og þekur flekkurinn um 0,7 km2 en er þunnur (0,2-5µm). Enga olíu er lengur að sjá 10 sjómílur frá landi og því ekki talin mikil hætta. Að mati Umhverfisstofnunar er ekki ástæða til bráðaaðgerða en ákvörðun um aðgerðir verður tekin eftir að málið hefur verið kannað betur.

Með komu TF-Sifjar hefur orðið slík bylting á möguleikum til eftirlits, viðbúnaðar og viðbragða við mengun á hafsvæðinu umhverfis Ísland að erfitt er að finna jafngildi. Í einu vetfangi breytast aðstæður hér á landi frá því að vera áratugum frá því sem eðlilegt þykir yfir í að hafa flugvél sem fyllilega stenst það sem best þekkist. Með SLAR (Side-Looking Airborn Radar) – tæki vélarinnar er hægt að greina olíumengun jafnt að nóttu sem degi og skyggni skiptir engu máli. Staðsetning, stærð og mat á magni er einföld, auk þess sem innrauð myndavél og myndbandsupptökuvél nýtast vel til gagnaöflunar. Ennfremur er um borð í flugvélinni sýnatökubúnaður sem hægt er að henda út á flugi og eykur það möguleika á að sanna uppruna olíumengunar á sjó. Hægt er að samhæfa flug og eftirlit með notkun gervitunglamynda sem Umhverfisstofnun hefur aðgang að og að lokum má nefna að með lögbundinni notkun AIS staðsetningarkerfis er hægt að rekja siglingaferla aftur í tímann.

Birt:
13. júlí 2009
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Mengunarflekkur á Faxaflóa“, Náttúran.is: 13. júlí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/07/13/mengunarflekkur-faxafloa/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: