HÁPLÖNTUR
Helstu einkenni háplantna eru að þær hafa rætur, stöngul og blöð. Einnig hafa þær æðastrengjakerfi sem flytur vatn frá rótum upp til annarra plöntuhluta og næringarefni frá blöðunum niður í stofn og rótakerfi.
Flestar tegundirnar fjölga sér með fræjum og mynda blóm og kallast því blómplöntur. Aðrar mynda gró og kallast gróplöntur, t.d. elftingar og burknar.
Á Íslandi vaxa 438 tegundir villtra háplantna.
AÐALBLÁBERJALYNG
(Vaccinium myrtillus)
Lýsing
Sumargrænn smárunni með ljósgrænum hvassstrendum greinum. Blöðin smásagtennt, ljósgræn, þunn og egglaga. Finnst aðallega á á skjólgóðum stöðum í skóglendi, móum og hlíðarbollum þar sem snjóþyngst er. Síst á Suðurlandi.
Árstími
Júní
Tínsla
Takist með skærum eða stuttum hníf, einungis yngstu sprotar.
Meðferð
Þurrkað.
BEITILYNG
(Calluna vulgaris)
Lýsing
Kræklóttur smárunni, getur orðið þriggja áratuga gamall. Blöðin eru smá og krossgagnstæð. Blómin lítil í löngum klösum, greinaendar oftast blómlausir. Vex í mólendi og á heiðum. Algengt nema á NV-landi og miðhálendi.


Árstími Nýblómgað í ágúst.
Tínsla Tekið með slærum eða klippum. Einungis ný vaxnir sprotar.
Meðferð Þurrkað, gjarnan í knippum.
BIRKI
(Betula pubescens)
Árstími
Fyrri hluti júní eða seinni hluta ágúst. Ef birkilauf er tínt á miðju sumri er mikil hætta á að skordýr slæðist með.
Tínsla
Takist 5-10 cm sproti fremst af greinum, ný laufgað í júní eða ársproti seint í ágúst, notið trjáklippur. Tína ber frá skemmd lauf og möðkuð. Kvisturinn á að fylgja með blöðunum  því í berkinum eru líka virk efni.
Meðferð
Birki er ekki viðkvæmt í þurrkun, en nauðsynlegt er að dreifa vel úr því helst svo að lofti undir.
BLÁBERJALYNG
(Vaccinium uliginosum)
Lýsing
Sumargrænn smáunni, blöðin blágræn og egglaga. Algengt um allt land í kjarri, mólendi og mýrum.
Árstími
Maí-júní.
Tínsla
Yngstu sprotarnir takist með skærum eða stuttum hníf.
Meðferð
Þurrkað, gjarnan í knippum. Þolir þurrkun í sól.



Ábendingar um ítarlegra efni
Einar I. Siggeirsson: Villtar berjategundir á Íslandi; Garðyrkjuritið 1979
BLÁGRESI
(Geranium sylvaticum)
Lýsing
Jurtin er fjölær vex upp af skriðulum jarðstöngli, 20-50 cm há. Blöðin eru stór handskipt, blómin oftast fjólublá. Finnst helst í skjóli við kjarr eða í hvömmum, lautum og snjódældum um allt land. Meðan jurtirnar eru óblómgaðar er hægt að villast á blágresi og sóley vegna handskiptu blaðanna. Flipar sóleyjarblaðanna skerðast dýpra og eru sepóttir enblöð blágresisins eru fremur tennt.
Árstími
Rétt fyrir blómgun og í blóma í júní-júlí.
Tínsla
Vegna lítillar rótar þarf að nota mjög beittan hníf svo jurtin upprætast ekki við tínslu. Best er að tína í gisinn poka og alls ekki troða í pokann. Blöðin mega ekki vera farin að roðna þegar þau eru tínd.
Meðferð
Blágresi má ekki þvo. Þurrka ber jurtina svo fljótt sem auðið er eftir tínslu. Blágresi er sérlega hætt við skemmd sé því pakka þétt, því það hitnar mjög fljótt í því vegna sterkra sýra sem það inniheldur. Þarf góða dreifingu og daglegan snúning við þurrkun. Góð loftræsting er nauðsynleg. Blöðin roðna í þurrkun ef þau eru skemmd. Gott er að þurrka blágresi í knippum, en þá má ekki setja nema 3-4 plöntur í hvert knippi.






BLÓÐBERG
(Thymus praecox ssp. Arcticus)
Lýsing
Afar fíngerður jarðlægur smárunni sem blómstrar mikið, rauðbleikum eða blárauðum blómum, í júní. Algengt í mólendi, melum og sendnum jarðvegi um allt land.
Árstími
Blóðberg þarf að tína í júní, um það leyti sem blómgun er að hefjast. Blómgunin er fyrst á láglendi en síðar eftir því sem það vex hærra. Því má lengja tínslutímann nokkuð með því að færa sig af lægri svæðum af hálendari.
Tínsla
Takist með skærum eða stuttum og beittum hníf, forðist skemmdir á rótakerfi. Aðeins skulu teknar fíngerðustu greinar. Aldrei má klippa svo nærri að gamlar, grófar og trénaðar greinar fylgja með.
Meðferð
Grassstrá og annað slíkt er tínt frá. Þvegið úr ísköldu vatni.
Þurrkað inni. Vegna rokgjarnra olía í blóðbergi þarf að forðast hærra hitastig en 20-25 °C við þurrkun.
Ábendingar um ítarlegra efni
Ágúst H. Bjarnason: Íslensk flóra með litmyndum, 1983.
Björn L. Jónsson: Íslenskar lækninga- og drykkjarjurtir, 1973.
Ingólfur Davíðsson: Ofurlítið um lækningajurtir, Garðyrkjuritið 1979
BRENNINETLA (stórnetla og smánetla)
(Urtica dioica og Urtica urens)
Lýsing
Stöngullinn uppréttur, ferstrendur. Blöðin langydd, hvassagtennt. Blómhnoðun í greinóttum öxum, hangandi. Vex sem illgresi kringum bæi. Smánetlan er minni, vex í fjörum og görðum og hefur minni kringlóttari blöð.



Árstími
Best ný sprottin.
Tínsla
Skorin eða slegin með ljá. Nauðsynlegt að nota hanska.
Meðferð
Þessum tveimur tegundum verður að halda hvorri fyrir sig, en báðar eru notaðar, smánetlan þó meira. Þurrkuð.


Til athugunar
Brenninetlu er auðvelt að taka í miklu magni, en markaður er lítill. Hafið ævinlega samband við kaupanda áður en lagt er í vinnu við söfnun.
GULLMURA
(Potentilla crantzii)
Lýsing
Jurtin vex upp af jarðstöngli, nokkrir greindir stönglar vaxa venjulega saman upp af jarðstönglinum. Blöðin eru 3-5 fingruð, blómin minna á sóley, en hafa rauðgula bletti neðst.
Árstími
Rétt fyrir blómgun í júní-júlí
Tínsla
Klippt vel ofan við jörð.





Meðferð
Þurrkuð
GULMAÐRA
(Galium verum)
Lýsing
Upprétt, 15-50 cm há, vex upp af rauðum skriðulum jarðstöngli, blöðin striklaga í kransi, blómin gul, smá og þétt. Ilmar. Aðallega á þurru valllendi um allt land.
Árstími
Tekin í fullum blóma í júní-ágúst.
Tínsla
Klippt eða slegin
Meðferð
Þurrkuð, gjarnan í knippum. Vill molna í þurrkun og því gott ða hafa þéttan dúk undir. Notuð bæði í te og krydd.
Ábendingar um ítarlegra efni
Íngólfur Davíðsson: Ofurlítið um lækningajurtir; Garðyrkjuritið 1979.

HLAÐKOLLA (túnbrá, gulkolla, gulbrá)
(Chamomilla suaveolens)
Lýsing
Líkist baldursbrá, en hvítu blómin vantar í körfurnar. Vex sem slæðingur við híbýli og oft í miklu magni í gömlum kálgörðum.
Árstími
Tekin ný blómguð fyrri hluta kúlí.
Tínsla
Efri helmingur jurtarinnar er klipptur eða skorinn.
Meðferð
Forðast hærra hitastig við þurrkun en 20-25°C. Jurtin er vökvamikil og því seiný urrkuð. Þurrkun tekur 7-10



daga eða lengri tíma eftir aðstæðum. Blómin eru mikilvægasti hluti jurtarinnar í te. Best er að þurrka hlaðkollu á þéttum dúkum sem þó loftar gegnum. Hún vill molna mikið þegar hún þorrnar og ef notuð er grind eða strigi tapast mikið af jurtinni niður.
HOLTASÓLEY (rjúpnalauf)
(Dryas octopetala)
Lýsing
Myndar flatar þúfur, stönglarnir trékenndir. Blöðin eru skinnkennd, sígræn, gljáandi, dökkgræn að ofan en silfurhvít og hærð að neðan. Blómin hvít, minna á sóley, en hafa 8 krónublöð. Algeng á melum og heiðum.
Árstími
Rjúpnalauf má taka allt sumarið, best í júní-júlí.
Tínsla
Klippið einungis nýja greinaenda til að fyrirbyggja upprætingu þar sem jurtin vex aðallega í gróðursnauðu og rþru landi, sem þolir illa að gengið sé nærri gróðri.
Meðferð
Þurrkun
KLÓELFTING
(Equisetum arvense)
Lýsing
Gróstönglar eru ljósleitir eða svartir, blaðlausir og liðskiptir, svokallaðir skollafætur. Gróaxið situr efst. Þeir eru ekki nýttir. Grólausu stönglarnir verða 20-40 cm háir grænir með uppvísandi greinakrans á hverjum lið, greinarnar þrístrendar.
Algengt um allt land, vex víða í þéttbýli og því er ástæða til að minna á að




forðast staði þar sem notað hefur verið skordýraeitur og tilbúinn áburður.
Árstími
Júlí.
Tínsla
Sumarjurtin takist með sigð eða grasklippum.
Meðferð
Eins og við þurrkun blágresis þarf að gæta vel að loftræstingu og snúningi. Elfting skemmist fljótt ef hún liggur þétt, enda hefur hún verið talin með bestu safnhaugsplöntum. Þornar hægt.
KÚMEN
(Carum carvi)
Lýsing
Tvíær jurt með greinóttum stöngli og ljósgrænum tví- til þrífjaðurskiptum blöðum. Blöðin minna á baldursbrá, en bleðlarnir eru breiðari og ekki eins þráðlaga. Blómin hvít og mjög smá. Algeng sunnanlands, en aðeins á ræktuðu landi í öðrum landshlutum. Ólíklegt er að söfnun skili tekjum í samræmi við vinnu.
Árstími
Júlí-Ágúst
Meðferð
Fræið er tekið þegar það er fullþroskað. Þurrkað í bökkum.







LERKI
(Larix spp.)
Lýsing
Sumargrænn barrviður. Lerki vex ekki villt á Íslandi. Þar sem það er að finna hefur því verið plantað og er ekki ætlast til að aðrir snerti við því en eigendur.
Árstími
Ágúst.
Tínsla
Um 5-10 cm teknir framan af greinaendum. Barrið er það sem sóst er eftir, en kvisturinn má fylgja með. Notað við matreiðslu, en markaður er lítill svo ráðlegt er að fara hægt í sakirnar.
Meðferð
Þurrkað.
LJÓNSLAPPI
(Alchemilla alpina)
Lýsing
Margir blómstönglar upp af marggreindum jarðstöngli. Blöðin 5-7 fingruð. Hæð 5-30 cm. Algengar um allt land á melum og í skriðum.
Ljónslappi hefur lengi verið talinn með bestu te- og lækningajurtum.
Árstími
Júní-júlí. Í blóma eða eftir blómstrun.
Tínsla
Skorinn rétt ofan rótar.
Meðferð
Þurrkun.



LOKASJÓÐUR (peningagras)
(Rhinanthus minor)
Lýsing
Lokasjóður er af grímublómaætt. Stöngullinn uppréttur með gagnstæðum stilklausum blöðum. Aldinn kringlótt, dökkbrún og gljáandi. Lokasjóður er að hluta til sníkjuplanta, rætur hans vaxa inn í rætur annarra jurta og draga næringu frá þeim. Vex aðallega í hálfröku valllendi.
Árstími
Júlí-ágúst
Tínsla
Skerist þegar fræið er fullþroskað og guli liturinn farinn af blóminu. Gæta ber að viðkvæmum rótum.
Meðferð
Þurrkun.
LYFJAGRAS
(Pinguicula vulgaris)
Lýsing
Blöðin safamikil og breiðast út fast niður við jörðina. Upp úr blaðhvilfingunni miðri vaxa 5-10 cm langir blaðlausir blómleggir og bera eitt lotið blóm efst. Jurtin nærist að hluta á skordýrum sem festast við blöðin.Vex í rökum jarðvegi um allt land.
Árstími
Fyrir blómgun í júní.
Tínsla
Jurtin skorin frá rótinni.
Meðferð
Þurrkun.
Ábendingar um ítarlegra efni
Björn L.Jónsson: Íslenskar lækninga- og drykkjarjurtir, 1973.



MARÍUSTAKKUR
(Alchemilla vulgaris)
Lýsing
Blöðin handstrengjótt og sepótt, blómin græn eða gulgræn á grönnum blómleggjum. Hæð 15-40 cm. Algengt um allt land.
Árstími
Júní-júlí.
Tínsla
Skerist 5-10 cm frá rót.
Meðferð
Þurrkun
Ábendingar um ítarlegra efni
Ágúst H.Bjarnason: Íslensk flóra með litmyndum, 1983.
MJAÐURT
(Filipendula ulmaria)
Lýsing
Uppréttur stöngull, blöðin stór, samsett, dökkgræn á efra borði en grálóhærð að neðan. Blómin smá, mörg saman í stórum skúfum. Rósaætt. Algeng í rökum jarðvegi einkum á Suður- og Vesturlandi.
Árstími
Júlí
Tínsla
Takist fullsprottin og ný blómguð, áður en stöngull verður verulega trénaður. Notið sigð eða ljá og skerið stöngulinn 15-20 sm ofan við rót.



Meðferð
Þurrkast best upphengd í litlum knippum.
SORTULYNG
(Arctostaphylos uva-ursi)
Lýsing
Sígrænn jarðlægur runni með þykkum gljáandi blöðum. Blöðin eru öfugegglaga og heilrennd. Blómin fá saman á greinaendum. Algeng um allt land í kjarri og mólendi.
Árstími
Sortulyng er hægt að taka næstum allt árið er best að taka það yfir sumarmánuðina, júní-ágúst.
Tínsla
Klippið fremsta hluta nýrra greina með ungum blöðum.
Meðferð
Þarf langan tíma í þurrkun, þar sem lyngið heldur raka mjög lengi. Þolir að þorna í sólskini, þótt það sé ekki talið æskilegt.
Ábendingar um ítarlegra efni
Ágúst H. Bjarnason: Íslensk flóra með litmyndum, 1983.
TÁGAMURA (silfurmura)
(Potentilla anserina)
Lýsing
Murutágarnar eru langir jarðlægir stönglar sem kjóta rótum með löngu millibili og vex upp af þeim blaðhvirfing. Blöðin stilksturr stakfjöðruð, silfurhærð á neðra borði eða báðum megin. Rósaætt. Vex í sendnum jarðvegi, oft efst í fjöru.



Árstími
Júlí-ágúst
Tínsla
Varast að rekja upp jarðlægan stöngulinn, eingöngu blöðin eru nýtt. Afbrigði af tágamuru eru misjafnlega silfurhæð og er fremur sóst eftir þeim silfurhærðu.
TÚNFÍFLAR
(Taraxacum spp.)
Lýsing

Algengir um allt land, mest á láglendi, og afar auðþekktir. Blómin stórar gular körfur efst á víðum holum legg og hvirfing af fagurgrænum flipóttum blöðum í kring. Allur fífillinn er nýtanlegur til matar. Blöðin má nóta í salötm eða gera af þeim seyði, blómin má steikja eða gera af þeim vín. Hér verður aðeins fjallað um ræturnar, því líklega er góður markaður fyrir þær þurrkaðar.
Árstími

Maí eða september-október.
Tínsla

Túnfíflar vaxa oft í miklu magni í þéttbýli. Þótt þeir séu aðgengilegir þar er jafn óheppilegt að taka þá nálægt mannabústöðum og aðrar jurtir vegna hættu á að þeir séu mengaðir af skordýraeitri, bifreiðaútblæstri og fleiru.
Rót fífilsins er löng stólparót og er efsti hluti hennar tiltölulega sver, eða um 5-10 mm í þvermál. Rótina þarf að stinga upp með löngu hnífsblaði, eða grannri skóflu. Ræturnar eru seigar að slíta og því auðveldara að skera rótina sundur um 10 cm niðri í moldinni með áhaldinu sem notað er. Til þess að skilja ekki eftir sár í jarðveginum nægir að þrýsta með fætinum að holunni, sárið lokast á fáum dögum.
Meðferð

Blöð og stöngull eru skorin frá rótinni. Stök

rótarhár slitin burtu og ræturnar þvegnar í köldu rennandi vatni. Stórar rætur er gott að kljúfa.
Þurrkast best hengdar á þráð, á það við  um flestar rætur.
Ábendingar um ítarlegra efni
Ágúst H. Bjarnason; Íslensk flóra með litmyndum; 1983.
Björn L. Jónsson: Íslenskar lækninga- og drykkjarjurtir;1973.
Ingólfur Davíðsson: Ofurlítið um lækningajurtir; Garðyrkjuritið 1979

VALLHUMALL
(Achillea millefolium)
Lýsing
Jurtin er 10-50 cm há. Efst á stönglinum sitja blómin,  margar körfur saman og mynda þéttan koll. Stöngullinn er seigur, hærður og á honum sitja stakstæð fín-fjaðurskipt blöð. Blómin oftast hvít, stundum bleik eða rauð. Algengur um allt land í þurrum jarðvegi.
Árstími
Takist áður en stöngullinn trénar. Júlí-ágúst. Vallhumall er bestur ef aðeins eru tekin blöðn sem vaxa snemma vors, áður en blómstilkur myndast. Það er þó miklu seinlegra og skilar sér ekki í verði.
Tínsla
Víða hægt að beita ljá við vallhumal-töku. Hafi fólk tilhneigingu til ofnæmis í slímhúð nefs, þarf það að forðast ryk af þurrkaðri jurtinni. Einnig er algengt að jurtin valdi húðkláða við snertingu, vísast er því að nota hanska við söfnun hennar.
Meðferð
Þurrkun.
Ábendingar um ítarlegra efni
Ágúst H. Bjarnason: Íslensk flóra með litmyndum, 1983.



Ingólfur Davíðsson: Ofurlítið um lækningajurtir; Garðyrkjuritið 1979.
ÆTIHVÖNN
(Angelica archangelica)
Lýsing
Ætihvönnin er stórgerð og hávaxin, stundum mannhæðar há. Hún safnar næringu í rót nokkur ár áður en hún blómgast. Rætur eru stungnar undan jurtum sem ekki hafa blómgast enn. Algengust nálægt sjó, við læki, í hlíðarhvömmum inn til landsins og í gömlum kálgörðum. Geithvönn er svipuð ætihvönn tilsýndar, en algerlega óæt. Endasmáblað ætihvannar er þrískipt og gulhvít blómin mynda litla sveipi sem raðast í nærri kúlulaga þyrpingar, stórsveipi. Mikill ilmur er af öllum hlutum ætihvannar.
Árstími
Hvannafræ eru tekin í júlí-ágúst. Hvannarætur í maí eða september-október.
Tínsla
Fullþroskaðir “fræhausar” skornir af áður en fræið þornar. Ef nota á blöð eða stöngul er hvönnin skorin fyrir blómstrun.
Rótin er tekin með stunguskóflu að vori áður en vex upp af henni, eða að hausti eftir að plantan er fallin.
Meðferð
Fræ eru þurrkuð í bökkum. Þeim er mjög hætt við að mygla og því þarf góða loftræstingu og mikið að hreifa þau. Gott að þurrla þau á fræhausnum, fræið hrynur þegar það þornar.
Rætur eru hreinsaðar, skornar að endilöngu og þræddar á band. Þorna hangandi.
Ábendingar um ítarlegra efni
Ingólfur Davíðsson: Ofurlítið um lækningajurtir; Garðyrkjuritið 1979.
Birt:
10. apríl 2007
Tilvitnun:
Erlingur Filippusson „Nýting villigróðurs - Háplöntur“, Náttúran.is: 10. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/nting-villigrurs-hplntur/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. apríl 2007

Skilaboð: