Í kaflanum „Nokkrar nytjajurtir, er vaxa hér villtar“ úr bókinni Grænmeti og ber allt árið - 300 nýjir jurtaréttir eftir Helgu Sigurðardóttur frá árinu 1941 segir:

„Skarfakál [Cochlearia officinalis] var fyrrum talið eitt hið óbrigðulasta meðal við skyrbjúg, og var tröllatrúin svo mikil á ágæti þess, að oft var sjúkt fólk sent langar leiðir, til að vera nokkurn tíma þar sem skarfakálið var fáanlegt og var lækningamáttur þessarar jurtar svo mikil, að fólkið var heilbrigt eftir nokkra daga. Nú hafa vísindin sannað ágæti skarfakálsins, þar sem Höskuldur Dungal læknir hefir rannsakað það, og birt með leyfi Nielsar Dungals prófessors niðurstöður af rannsóknunum, sem birzt hafa í læknablaðinu:

C-vítamín.
Mg. pr. gramm.
„Skarfakál, blöð........1,00 - 1,65
Skarfakál, stönglar ........0,60

Um skarfakálið sannast það hér, sem löngu var vitað, að mikið C-fjörvi hlyti að vera í því. En að það reyndist svo auðugt sem tölurnar sýna, hefði maður samt varla búizt við. Sennilega er þetta auðugasti C-fjörvisgjafinn, sem til er hjer á landi og hefði mann ekki grunað að upp úr íslenzkri mold sprytti jurt, sem hefir jafn mikið C-fjörvismagn og appelsínur og sítrónur og jafnvel meira en þær, því að í þeim finnst venjulega ekki nema 0,5 - 1,0 mg. pr. gramm, en í skarfakálsblöðunum allt að 50% meira. Er full ástæða til að athuga möguleika fyrir því að rækta skarfakál og gera það að föstum lið í fæðu landsmanna“.

Um skarfakálið segir séra Björn Halldórsson í Grasnytjum: „Þessi jurt er haldin ein sú allra bezta í móti skyrbjúgi, hún er og góð í móti tíða-stemmu kvenna. Af skarfakáli gjörist grautur, sem af öðru káli, má það líka salta til matar, og geyma svo, líka gjörist þar af gott og hollt salat“.

Úr skarfakáli má matbúa súpur, jafninga og salöt, en hollast er að borða það hrátt, því vitað er og sannað að C-vítamín þolir illa suðu. Sagt er frá því í gömlum bókum, að sjóða megi skarfakál í mjólk eða mysu, í stað grjóna. 3 tegundir eru til af skarfakáli. Sú tegund sem vex við sjó á nesjum og eyjum, ber töluverðan saltkeim, og blöðin af henni eru ekki eins þykk eða safamikil, eins og því sem vex í ósaltri jörð.“

Myndin er tekin af skarfakáli í grassverði á bjargbrún Látrabjargs þann 04.06.2005.

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

 

Birt:
8. ágúst 2013
Tilvitnun:
Helga Sigurðardóttir „Af skarfakáli“, Náttúran.is: 8. ágúst 2013 URL: http://nature.is/d/2007/03/21/skarfakal/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. mars 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: