Svanurinn - Viðmiðunarreglur
Skilyrðin sem að Svanurinn setur eru margvísleg, eftir því um hvað er að ræða. Tökum sem dæmi skilyrði fyrir prentað efni. Það skiptir miklu máli hvaða pappír er notaður, pappírsframleiðsla getur valdið mjög miklu umhverfisálagi og því mikilvægt að velja pappír þar sem tekið hefur verið tillit til umhverfisáhrifa. Nýting á pappírnum er auðvitað mikilvæg. Hvað það varðar er skilyrði að ekki fari meira en 20% af pappírnum í afskurð í prentsmiðjunni.
Litir, þvottaefni og þmiis kemísk efni eru notuð við prentun. Þessi efni eru óskaplega mismunandi þegar kemur að umhverfisáhrifum, svo að þar eru settar takmarkanir til að útiloka eitruð efni og stuðla að visthæfari framleiðsluháttum. Að sjálfsögðu eru einnig sett skilyrði um flokkun á sorpi og endurvinnslu. Sýna þarf fram á að spilliefni fari í efnamóttöku og svona mætti lengi áfram telja. Skilyrðin lúta að allri framleiðslunni, öllum hráefnum, kemískum efnum sem notuð eru og síðast en ekki síst, lokastigi vörunnar, í tilfelli prentgrips (bók, bæklingur o.s.frv) þarf hann að vera endurvinnsluhæfur, en ýmsir prentgripir í dag eru það ekki.
Ef við tökum annað dæmi, t.d. skilyrði fyrir hótel og farfuglaheimili, eru þau auðvitað nokkuð frábrugðin. Þar er t.d. sett skilyrði um að gestir geti flokkað það sorp sem frá þeim fer. Orku og vatnsnotkun verður að vera innan vissra marka . Kröfur eru gerðar um hvernig eigi að ræsta og plúspunktar fást fyrir að setja upp og brúka safnhaug o.fl. o.fl.
Viðmiðunarreglurnar eru semsagt mjög sérhæfðar eftir því hvaða framleiðslu eða þjónustu sem um er að ræða.
Það er mjög vandasamt að búa til góðar viðmiðunarreglur. Þær þurfa að vera hæfilega strangar, þannig að þær stuðli óyggjandi að minna umhverfisálagi en í sama mund verða þau að vera raunhæf þannig að hluta framleiðenda sé mögulegt að standast kröfurnar.
Hjá Svaninum vinna ýmsir sérfræðingar við að setja saman viðmiðunarreglurnar, en einnig eru fengnir sérfræðingar úr atvinnulífinu til þess að gera viðmiðunarreglurnar raunhæfar og tryggja að þær séu nægilega vel aðlagaðar því umhverfi sem þær eru ætlaðar.
Viðmiðunarreglurnar eru líka í sífelldri endurskoðun því framleiðslutækni breytist og fram koma nýjar visthæfari framleiðsluaðferðir sem taka þarf tillit til. Auðvitað kemur líka stundum í ljós þegar framleiðendur fara að nota viðmiðunarreglurnar að suma hluti er hægt að gera á einfaldari máta. Stundum hefur fylgt töluverð skriffinnska við að uppfylla skilyrðin, og er nú lögð mikil áhersla á að minnka hana og gera umsóknarvinnuna aðgengilega og einfalda fyrir framleiðendur.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Svanurinn - Viðmiðunarreglur“, Náttúran.is: 6. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/06/svanurinn-viomiounarreglur/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 18. mars 2008