Út er komin bókin „Blálandsdrottningin og fólkið sem ræktaði kartöflurnar“ eftir Hildi Hákonardóttur. Útgefandi er bókaútgáfan Salka. Í bókinni er rakin saga ræktunar  á Íslandi, og reyndar víða um heim, með sérstakri áherslu á upphaf kartöfluræktar. Höfundurinn, Hildur Hákonardóttir, hefur ferðast allt frá Suður – Ameríku til Eyrarbakka og kynnt sér hvernig fólk þróaði ræktunaraðferðir. Hún fjallar um mismunandi tegundir og hverjar duga best í mismunandi umhverfi. Með einstökum frumleika og sköpunargleði tengir hún kartöfluræktun íslenskri menningarsögu og fjallar um merka menn og konur sem lögðu hönd á plóg í beinni og óbeinni merkingu. Þar má nefna Baldvin Einarsson, Vilhelmínu Lever, Eggert Ólafsson og Elísabetu Englandsdrottningu.

Blálandsdrottningin hefur líklega borist hingað með frönskum skútum. Hún er ein af mörgum afbrigðum hinnar auðmjúku kartöflu sem hefur verið í öndvegi á borðum Íslendinga alla tuttugustu öldina. Nafn bókarinnar vísar þó einnig til hinnar hugrökku og hjartastóru söguhetju sem varð fyrst kvenna á Íslandi til að hafa tekjur af kartöflurækt.Bókin kemur út sem sem kilja og er 272 blaðsíður. Hún er prentuð í Lettlandi og Margrét E. Laxness gerði kápu, Oddi sá um umbrot en Hildur Hákonardóttir hannaði útlit bókarinnar. Helgi Magnússon hafði umsjón með texta.

Hildur Hákonardóttir sem einnig er höfundur hinnar sívinsælu bókar Ætigarðurinn – handbók grasnytjungs er þekkt fyrir líflega og grípandi frásagnargleði. Bókin skartar fjölda litmynda ásamt ítarlegum upplýsingum um heimildir.

Bókin kemur út í tilefni 250 ára afmælis kartöfluræktar á Íslandi og ennfremur er 2008 ár kartöflunnar hjá Sameinuðu þjóðunum.

Hildur mun halda fyrirlestur, um karöflurækt á Íslandi, í Grasagarðinum í Laugardal, fimmtudaginn 14 ágúst kl. 20:00. Allir velkomnir.

Birt:
13. ágúst 2008
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Blálandsdrottningin - saga kartöfluræktunar“, Náttúran.is: 13. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/13/blalandsdrottningin-saga-kartofluraektunar/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. september 2014

Skilaboð: