Áherslur á sviði sjálfbærrar þróunar 2010-2013
Áherslur stjórnvalda til sjálfbærrar þróunar árin 2010 til 2013 voru samþykktar á fundi ríkisstjórnarinnar í gær að tillögu Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra. Áherslurnar byggja á stefnumörkun Íslands um sjálfbæra þróun sem ber yfirskriftina Velferð til framtíðar og var fyrst samþykkt í ríkisstjórn árið 2002.
Í upphaflegri stefnumörkun voru sett fram 17 markmið um umhverfisvernd og nýtingu auðlinda fram til ársins 2020. Stefnumörkunin hefur verið endurskoðuð á fjögurra ára fresti í tengslum við Umhverfisþing, nú síðast á Umhverfisþingi í október 2009. Þá kynnti umhverfisráðuneytið drög að endurskoðaðri stefnumörkun sem voru unnin í samvinnu við samráðsnefnd ráðuneyta um sjálfbæra þróun. Drögin voru tekin til umfjöllunar á Umhverfisþinginu, meðal annars í sérstakri málstofu ungmenna þar sem fulltrúar ungu kynslóðarinnar ræddu sjálfbæra þróun út frá sínum sjónarhóli. Þá gafst almenningi einnig kostur á að senda skriflegar tillögur og ábendingar í kjölfar Umhverfisþingsins.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að hugtakið sjálfbær þróun hverfist í raun um einn kjarna; jafnrétti. Komandi kynslóðir eigi sama rétt og við til að njóta gæða jarðarinnar og þróunarríkin eigi rétt á að bæta lífskjör sinna þjóða. Þess vegna þurfi að tryggja aðkomu framtíðarkynslóða þegar teknar séu ákvarðanir sem hafa áhrif á framtíð þeirra. Með þá hugsun að leiðarljósi hafi hún lagt sérstaka áherslu á þátttöku ungs fólks á Umhverfisþingi síðastliðið haust til að stuðla að umræðu milli kynslóða um framtíðarþróun Íslands. Tveimur köflum hefur verið bætt við þau sautján markmið sem voru í upprunalegu stefnumörkuninni, annars vegar um sjálfbæra neyslu og framleiðslu og hins vegar um menntun til sjálfbærni. Þess bera að geta að áherslurnar eru ekki tæmandi listi yfir allar aðgerðir sem eru í bígerð eða æskilegt er að ráðast í á sviði sjálfbærrar þróunar, heldur er um að ræða helstu forgangsverkefni á hverju sviði.
Velferð til framtíðar. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Áherslur 2010-2013.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Áherslur á sviði sjálfbærrar þróunar 2010-2013“, Náttúran.is: 16. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/16/aherslur-svidi-sjalfbaerrar-throunar-20/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.