Umhverfisráðuneytið hefur sett sér samgöngustefnu sem stuðlar að því að starfsfólk ráðuneytisins noti vistvænan ferðamáta. Þannig leggur ráðuneytið sitt af mörkum til að bæta umhverfið og heilsu starfsfólks ráðuneytisins.

Til þess að hvetja starfsfólk til að nota almenningssamgöngur til og frá vinnu mun ráðuneytið kaupa strætisvagnakort fyrir það starfsfólk sem að jafnaði notar almenningssamgöngur. Þá mun ráðuneytið koma til móts við þá sem ganga eða hjóla til og frá vinnu með því að greiða útlagðan kostnað upp að ákveðnu marki, til dæmis vegna hlífðarfatnaðar.

Í samgöngustefnunni er einnig lögð áhersla á að notast sé við vistvæna ferðamáta í vinnu, svo sem vegna funda utan vinnustaðar. Þá verður leitast við að nýta betur möguleika til síma- og fjarfunda. Þá mun ráðuneytið standa fyrir fræðslufundum til að efla vitund starfsfólks um vistvænar samgöngur.

Við gerð samgöngustefnu umhverfisráðuneytisins var gerð könnun meðal starfsfólks sem leiddi í ljós að það hefur mikinn áhuga á að nýta sér vistvænar samgöngur. Nú þegar ferðast um  fimmtungur starfsfólksins til og frá vinnu á vistvænan hátt.

Samgöngustefna umhverfisráðuneytisins

  • Markmið samgöngustefnu umhverfisráðuneytisins er að stuðla að því að starfsfólk noti vistvænan og hagkvæman ferðamáta.
  • Umhverfisráðuneytið vill leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfi og heilsu
    starfsfólks ráðuneytisins sem og allra landsmanna.
  • Umhverfisráðuneytið vill sýna gott fordæmi og efla vitund fólks um vistvænar
    samgöngur.

Leiðir:

  • Ráðuneytið hvetur starfsfólk til að nota almenningssamgöngur til og frá vinnu. Í þeim tilgangi kaupir ráðuneytið strætisvagnakort fyrir það starfsfólk sem að jafnaði notar eða ákveður að nota strætisvagna til að ferðast í og úr vinnu.
  • Ráðuneytið hvetur starfsfólk til að ganga eða hjóla til og frá vinnu. Starfsfólk sem að jafnaði notar slíkan vistvænan samgöngumáta fær greiddan útlagðan kostnað skv. reikningi, t.d. vegna hlífðarfatnaðar, þó að hámarki þá upphæð sem nemur andvirði árskorts í strætisvagna.
  • Ráðuneytið gerir samgöngusamning við þá starfsmenn sem nota vistvænan samgöngumáta.
  • Ráðuneytið mun kappkosta að tryggja góða aðstöðu á vinnustað fyrir þá sem stunda vistvænar samgöngur.
  • Fyrir það starfsfólk sem að jafnaði notar vistvænan samgöngumáta greiðir ráðuneytið leigubílakostnað í neyðartilvikum á vinnutíma, t.d. vegna veikinda barna.
  • Starfsfólk fer gangandi á fundi ef það tekur 10 mínútur eða skemur, annars er notast við leigubíla eða strætisvagna ef það hentar og mun ráðuneytið kaupa staka miða í strætisvagna í því skyni.
  • Þegar pantaðir eru leigu- og/eða bílaleigubílar skal óskað eftir vistvænum bílum.
  • Starfsfólk skal samnýta ferðir með leigu- og bílaleigubílum eins og kostur er.
  • Þegar notaðir eru hópferðabílar skal nota vistvæna bíla þegar því verður við komið.
  • Ráðuneytið hvetur starfsfólk til að fjölga síma- og fjarfundum eins og kostur er.
  • Ráðuneytið mun standa fyrir fræðslufundum einu sinni á ári í því skyni að efla vitund starfsfólks um vistvænar samgöngur.

Umhverfisráðuneytinu 28. júní 2010.

Birt:
8. júlí 2010
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Vistvæn samgöngustefna umhverfisráðuneytisins“, Náttúran.is: 8. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/08/vistvaen-samgongustefna-umhverfisraduneytisins/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: