Á dögunum voru úttektaraðilar á vegum Green Globe á ferð um Snæfellsnes til að meta árangur heimamanna á sviði sjálfbærrar þróunar. Úttektin er undanfari vottunar sveitarfélaganna fimm á nesinu og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls samkvæmt staðli Green Globe fyrir samfélög. Það mun svo koma í ljós á næstu vikum hvort Snæfellingar hafi staðist prófið.

Kjartan Bollason frá Háskólanum á Hólum leiddi úttektina fyrir hönd Green Globe, en honum til aðstoðar var Ástralinn Stan Rodgers, sem unnið hefur við úttektir af þessu tagi um áratuga skeið. Úttektin fól annars vegar í sér yfirferð yfir ýmis stefnumótunarskjöl sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og hins vegar athuganir á framkvæmd áformaðra verka.

Farið var yfir bráðabirgðaniðurstöður úttektarinnar á kynningarfundi með fulltrúum sveitarfélaganna að lokinni úttekt síðdegis á miðvikudag. Þar kom fram að enn mætti margt laga, en þó væru meiri líkur á því en minni að Green Globe myndi fallast á að veita Snæfellsnesi vottun fyrir sumarið. Það yrði stór áfangi, þar sem fram til þessa hafa aðeins 2 eða 3 samfélög í heiminum fengið vottun samkvæmt staðli Green Globe.

Undirbúningur sveitarfélaganna á Snæfellsnesi fyrir Green Globe vottunina hófst haustið 2002 að frumkvæði Guðlaugs heitins Bergmann á Hellnum. Guðlaugur leiddi starfið af mikilli eljusemi með dyggum stuðningi Guðrúnar konu sinnar, allt þar til hann lést í desember 2004. Stefán Gíslason hjá UMÍS ehf. Environice hefur unnið sem ráðgjafi heimamanna í málinu allt frá upphafi.

Vænta má nánari frétta af vottun Snæfellsness á næstu vikum.

Nú hefur Snæfellsnes Green Globe Benchmarked vottun en unnið er að fullnaðarvottuninni þ.e. Green Globe Certified. Sjá hér á Grænum síðum þá aðila á Íslandi sem eru í aðlögun eða vottunarferli Green Globe Affiliate, þá sem hafa náð áfanga Green Globe Benchmarked og þá sem eru með fullnaðarvottun Green Globe Certified.

Myndatexti: Þetta skilti verður sett upp við Hvalfjarðará á næstunni til að láta vegfarendur vita að nú séu þeir að aka inn á Green Globe svæði, þar sem sjálfbær þróun er höfð í hávegum. Á myndinni sjást Stan Rogers, Róbert Stefánsson og Þórunn Sveiný órsdóttir. Stan er sem fyrr segir úttektarmaður á vegum Green Globe, Róbert er fostöðumaður Náttúrustofu Vesturlands og formaður Framkvæmdaráðs Green Globe á Snæfellsnesi og Þórunn er umhverfisfulltrúi og starfsmaður framkvæmdaráðsins.

Mynd af vef UMÍS. Ljósmynd: Stefán Gíslason.

Birt:
15. apríl 2008
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Green Globe vottun Snæfellsness á næsta leiti“, Náttúran.is: 15. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/15/green-globe-vottun-snaefellsness-naesta-leiti/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: