Ristilbólga er einn algengasti sjúkdómur stórþarma. Sjúkdómseinkenni eru mismunandi eftir því hversu áköf bólgan er, en í öllum tilvikum lýsir sjúkdómurinn sér með niðurgangi og harðlífi á víxl. Oft fylgir blóð og eða slím með hægðunum og fólk getur orðið mjög þróttlaust og jafnvel þunglynt. Algeng orsök ristilbólgu er fæðuóþol og fæðutegundirnar sem helst valda slíkum einkennum eru glúten (prótín í korni), mjólkurafurðir og egg, en einnig kaffi, te og áfengi. Meðferð er fyrst og fremst fólgin í því að grafast fyrir um það hvort um fæðuóþoll sé að ræða og sneiða þá hjá þeirri fæðu.

Fæðutegundir, sem forðast skal þegar um ristilbólgu er að ræða eru einkum grófmeti, s.s. heilhveiti, hveitiklíð, hrátt grænmeti, ávaxtahýði, fræ og hnetur. Forðist einnig áfengi, kaaffi, edik og alla sýrða fæðu, sterkt krydd, osta, steiktan mat og svínakjöt. Forðist mjög heitan og einnig kaldan mat.

Borðið mjúkan mat, t.d. maísmjölsgraut (maizengraut), mat unninn úr hvítu hveiti (ef ekki er um glútenóþol að ræða), meyrt kjöt og fisk, lítið kryddaður, heimatilbúnar súpur, gufusoðið grænmeti og ávexti (t.d. banana og lárperu (avókadó)).

Jurtir geta komið að miklu gagni við ristilbólgu, en yfirleitt þarf að taka þær í langan tíma, því að þótt sjúkdómseinkennin hverfi tiltölulega fljótt tekur það ristilinn langan tíma að yfirvinna bólguna að fullu.

Jurtir gegn ristilbólgu

Græðandi jurtir: t.d. regnálmur, sóldögg, sigurskúfur, fjallagrös, morgunfrú, læknastokkrós og kamilla.

Róandi jurtir: t.d. humall, garðabrúða og úlfarunni. Lifrarstyrkjandi jurtir: t.d. túnfífill (rót), lifrarjurt, undafífill, mýrarsóley og járnurt.

Bólgueyðandi jurtir: t.d. garðablóðberg, blóðberg, sólblómahattur, hvítlaukur, víðir og lakkrísrót.

Þegar niðurgangir hrjáir fólk og blóð eða slím er í hægðum er nauðsynlegt að taka inn barkandi jurtir að auki.Dæmi um slíkar jurtir eru kornsúra, mjaðurt, fjalldalafífill, lófótur, græðisúra, blóðarfi, blákolla og jarðaber.

Dæmi um jurtalyfjablöndu við ristilbólgu

2 x fjallagrös

2 x kamilla

1 x humall

1 x lifrarjurt

2 x mýrarsóley

1 x sólblómahattur

2 x jarðarber (blöð)

Birt:
13. apríl 2007
Tilvitnun:
Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir „Ristilbólga“, Náttúran.is: 13. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/13/ristilblga/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 12. mars 2012

Skilaboð: