Það er sumar í París og frá og með 15. júlí ætlar borgin að bjóða upp á 10.648 hjól til leigu á 750 stöðvum um alla borgina og síðan tvöfalda þann fjölda fyrir árið 2008. Þannig geta vegfarendur tekið hjól á einni stöð og skilað henni á annarri.
Hugmyndin er þróuð frá hjóla verkefnum í Evrópu á sjöunda áratugnum, þar sem markmiðið var að draga úr bílanotkun, bílaumferð og mengun. 

Frægasta dæmið var í Amsterdam en það mistókst hrapalega vegna þess að hjólunum var annaðhvort stolið eða þau of illa farin að hægt væri að hjóla á þeim.
Núna eru margar borgir að gefa verkefninu annað tækifæri með samvinnu við auglýsingafyrirtæki sem að útvega hjól með þjófavörn í staðin fyrir auglýsingar um alla borg.
Vinna við að umbreyta bílastæðum í hjólastæði er í fullum gangi í Parísarborg. „Mér finnst verkefnið vera frábær hugmynd og það mun minnka bílaumferð í borginni“ segir Jean-Micheal eigandi videoleigu í borginni, „ég hjólaði einu sinni mikið en hjólunum var alltaf stolið, núna ætla ég að byrja aftur“Til að reyna að draga úr stuldri á hjólunum og eyðileggingu á verkefninu munu hjólin vera útbúin lás og þjófavörn sem fer af stað ef að hjólinu er ekki skilað á stöð. Öryggistrygging verður líka á hjólunum sem leigjandinn fær svo tilbaka þegar hann skilar hjólinu.

Verkefnið á að hvetja borgarbúa að skilja bílana eftir heima og draga þannig úr mengun og bílaumferð og er hluti stærri áætlunar stjórnaðri af borgarstjóra Parísarborgar Betrant Delanoe. „Við vonum að bílanotkun minnki og fólk velji frekar almenningssamgöngur eða hjólin“ segir talsmaður ráðhússins í Parísarborg Gwenaelle Joffre sem leiðir verkefnið.
„Verkefnið er fyrir fólk sem þarf að ferðast stuttar vegalengdir frá A-B og fyrir fólk sem nennir ekki að taka strætó, það hjólar þá frekar.“ segir Joffre.

Að leigja hjól er auðvelt, maður velur sér hjól, stingur inn fyrirfram borguðu korti eða kredit korti í vél sem leysir þá hjólið frá stöðinni. Þegar búið að að nota það er því skilað á hvaða stöð sem er. Ef að hjólið er notað í minna en 30 mín. er ekki tekið neitt gjald fyrir, eftir það eru hverjar 30 mín á 1 evru. Vika kostar hinsvegar aðeins 5 evrur og árið 29 evrur.
Það eru um 371 km af hjólastígum í borginni svo að allur hjólaflotinn ætti ekki að lenda í vandræðum. Það eru samt einhverjar áhyggjur af auknum hjólaslysum því það eru engin lög í Frakklandi sem að skikka fólk að vera með hjálma.

Margar aðrar borgir í Evrópu hafa þegar tekið upp hjólaleigurnar og hefur það gengið mjög vel. Borgir í Noregi eins og Osló, Bergen og Drammen hafa boðið uppá þjónustuna í einhvern tíma, Kaupmannahöfn, Brussel, Frankfurt, Munchen, Vínarborg eru einnig á meðal þeirra Evrópuborga sem bjóða upp á slíka þjónustu.

En hvað með okkur Reykvíkinga, er ekki alltaf verið að kvarta yfir því hversu stuttar vegalengdir við erum að fara á bílum okkar, ekki síst vegna lélegra almenningssamgangna sem eru bæði dýrar og líkt og nú hreinlega erfiðar í notkun vegna fækkunar á leiðum og ferðum.
Eitt af 10 „grænum skrefum“ sem eru verkefni sem Reykjvíkurborg stefnir á að stíga á þessu kjörtímabili er „Göngum lengra, hjólum meira“. Í því felst að fjölga hjólreiðastígum og sinna þeim eins og götum borgarinnar. En af hverju ekki að stíga skrefi lengra og bjóða fólki sem kannski ekki hefur efni á að kaupa sér nýtt hjól reglulega eða ekki aðstöðu til að geyma hjólin upp á að leigja sér hjól?
Tökum frændur okkar í Noregi til fyrirmyndar, stígum skrefi lengra og bjóðum uppá hjól fyrir alla.

Birt:
13. júní 2007
Höfundur:
Vala Smáradóttir
Uppruni:
Reuters
Tilvitnun:
Vala Smáradóttir „Hjól til að minnka mengun og umferð“, Náttúran.is: 13. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/13/hjl-til-minnka-mengun-og-umfer/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. júlí 2007

Skilaboð: