Atli spyr að túnstærð - Atli IX
38.
Atili: Síðan eg fór út vistinni frá þér, bóndi, í vor hefi eg húsað bæ fyrir mig á Konungastöðum, að ráði þínu. Segðu mér nú hvað þér lísti hvað mikið tún eg skal taka fyrir mig að hegna? Hvað það kann fóðra eftir stærðinni?
Bóndi: Það er gagnlegast hverjum manni að láta sér nægja það sem nóg er og viljir þú svo þá skal eg segja þér mína meining. Það er gamalt búmannalag hér á landi að hálfur annar eyrisvöllur gefi af sér kýrfóður. Er hann þá vel ræktaður og þó ekki í besta lagi. Nú er eyrisvöllur 30 faðmar á hvern jaðar af fjórum 1).
Þá er þessi gamli kýrfóðursvöllur 150 faðmar ummáls, það er 37 ½ faðmur á hvern veg en 1350 kvaðratfaðmar. Þegar þú leggur nú þessa kýrfóðurvelli 8 saman sýnist mér þú hafir nóg tún, það eru 12 eyrisvellir (og þeim mun meira sem húsabær þinn tekur skák af túninu). Verður þá allt þitt tún ummáls 420 faðmar. Þetta tún slær þú einn upp og hirðir með konu þinni á mánuði. Þá hefur þú síður að óttast óþerra fyrst snemma er slegið. Þá hefur þú betra hey og kjarnameira en þó jafnmikið væri að stærra túni óræktuðu. Því það er víst að því betur sem á er borið, þess meiri kraftur er í grasinu. Um þetta litla tún er hægara að girða og halda garði við, eins að teðja, hreinsa, slá, raka og hirða, og þá færðu heldur nógan áburð á það.
1) Stærð sú tekin fram í Búalögum og er talin verkmanni hæfileg til dagsláttu.
39.
Atli: Það þyki mér ólíklegt að eg fái nóg hey fyrir 8 kýr af ekki stærra túni.
Bóndi: Þó þér finnist það ólíklegt þá er það ei síður sannleikur. Til merkis þar upp á vil eg segja þér: 26 almennilega heyhesta ætla eg fyrir kú, hvern heyhest 3 vættir eða 15 lpd. að vigt. Einn eyrisvöllur er 120 faðmar ummáls, í honum hefur þú 30 skákir ferkantaðar, 5 faðma á hvern jaðar. Af þvílíkri skák hefi eg fengið, þar sem best er í túni, 3 vættir af vel þurri töðu. Væri allt túnið svo vel ræktað þá fengi maður meira en kýrfóður af eyrisvelli og af þeim gamla kýrfóðurvelli 45 heyhesta, þar er lítið minna en 2 kýrfóður.
C.G. Boje, í hans Förfarna lanthushållaren (kap. 1), skrifar að tunnuland, sem hann reiknar 14.000 kvaðratálnir, velræktað kunni að gefa sér 6-8 til 10 hlöss hey, hvert hlass reiknað til 9 vætta þunga eða 45 lpd. Þetta hans tunnuland í Svíaríki er nokkuð minna en vor eyrisvöllur og kemur það vel saman við þennan minn reikning. Það tekur þó langt þessu fram, sem Essendorp skrifar um Liersókn 1) í Akurhússstifti í Noregi, að þar gefi 1 tunnuland útplantað með netlu 18 hlöss á ári og hefi eg það reynt að hana má hér planta ei síður en í Liersókn. Hún þolir vorn kulda vel því hún er hér innlend hjá oss, þarf lítin áburð en djúpa jörð.
1) Jens Essendorp: Physisk oeconomisk beskrivelse over Lier Præstegjæld. 1761. Dönsk málvenja breytti –dorp (= þorp) í –drop. En B.H. hefur fest sig við eldra eða germanskara nafnform Essendorp.
40.
Atli: Þó svo kynni að ræktast kringum bæi það hvergi heim að reikna svo allt túnið í gegnum.
Bóndi: Það er satt á meðan túnið fær ei aðra rækt en þá sem nú er almennilegust, sem er að bera hér um 12 taðkapla á eyrisvöll 2) af nýrri kúamykju, berja hana á vori og ausa um, hvar rúmlega helmingur fer ofan í rótina, sem von er á því túni hvar hestar og fé troða og bíta jarðveginn allt árið um kring nema sem svarar einum fjórðungi þess á meðan grasið vex og veðrur slegið. Sé jörðin eins góð og vel ræktuð í öllu túni og garður svo góður um að ekki troðist af peningi þá er meiri von að þar spretti minnst sem mest treðst og er það næst bænum. En nú er þar best þvi það hefur mesta feiti.
2) Á dagsláttuna, eyrisvöll, eiga þá 12 hestburðir kúamykju að duga.
41.
Atli: Menn segja það gras, sem hæst vex í kringum bæinn, sé vaxið úr sér, ódrjúgt og daufara en annað.
Bóndi: Þetta er ekki fjarri meint. Túnið í kringum bæina er víðast mjög troðið, grasrótin hörð og föst, þar á ofan kemur of mikill áburður og feiti. Hin fasta jörð lofar ekki rótunum að vaxa og digrast neðan. En af þeirri mjóu rót tognar grasið mjög við ofræktina, verður það veikt og staðlítið, leggst út af fyrr en það kastar fræi og þá kalla menn það leggjast í leg. Er þá stilkur farinn að lýjast, visna og meyrna en fræið er þá af fallið er slegið er.
Þar á móti, væri jörðin lausari þá þroskaðist rótin betur, leggur grassins yrði digrari og kjarnameiri og hlýtur því það gras betra að vera en hitt, sem er vaxið yfir sig. Að ofræktargras hjá bæjum sé ódrjúgara en annarstaðar í túni er ei heldur orsakalaust; þær vökva mestu jurtir vilja mesta feiti hafa og draga hana til sín. Þeirra fræ deyr út þegar það fellur í meðallags jörð og þaðan af magrari en tímgast í ofræktinni kringum bæi svo sem eru: lækjasóley (caltha palustris), fífill (taraxacum), súra (rumex acetosa), heimanjóli (patentia) og fleiri þess háttar. En engin þessara jurta þolir þurk heldur verða þær við hann kraftalausar og að hismi, ganga þær frá heyinu í þurkinum en hitt verður eftir sem fastara er í sér. Hvorugt þetta er að óttast utar í túni þegar þar er þurr, laus og hóflega ræktuð jörð.
42.
Atli: Það munu vera einhverjar nýjungar, sem þú villt kenna mér, skuli eg nú fá betra tún en aðrið góðir bændur.
Bóndi: Mun eigi það vel til fallið að ný r bóndi taki upp nýjungar? En til þeirra einn nýjunga mun eg vísa þér, sem eg hefi reynt og mér hefur að góðu orðið. En ekki er mér þá uppáfinningu að þakka. Eg hefi lært hana af Essendorps ökonomisku útmálan Liersóknar. Hann segir (kap. 11) svo: Það er gott að stinga allar mýrar upp með skurðum svo þær verði þurrar 1). Þó er það ei nóg á meðan landið pælist ekki, það þornar en mosinn er kyrr. Það hefi eg reynt besta ráð að plægja það land nær það er áður upp þurrkað, mykja það og láta svo liggja, það gefur mikinn ávöxt.1) Stinga (moka) skurði nóga til þess að mýrarnar þurkist allar. Lier og Upplönd þar um slóðir Essendorps voru betur til þess löguð en flest héruð á Íslandi.
Mesti skaði er engjum það að peningur bíti þær á vorin. Heyfræ sá að vísu nokkrir menn. En það hefi eg reynt að nær magurt engi er plægt, tatt og látið svo liggja án þesss að snúa grasrótinni um aftur að það hefur gefið yfirgnæfanlegan gróða af góðu grasi, ei verri en þó það engi hefði útsáð verið af besta heyfræi.
Fyrsta ár gefur það gróft, sterkt gras, kjarngott fyrir kýr. Annað ár nokkuð fínara, þriðja ár ypparlegt alslags hey og þeirri frjósemi hefur það haldið síðan, nokkur ár samfleytt. Þetta skrifar Essendorp. Viðlíka skrifar barón Brauner 1) í sína bók um akur og engi. Hann leggur það til að mýrar skuli stingast svo upp með mörgum skurðum að ei sé millum þeirra meira en 15 til 20 álnir og nái höfuðskurðurinn ofan í grunn mýrarinnar. En síðan berist áburður þar yfir. Þurr tún og engi þar á móti bætist best með vatnsleiðslu yfir þau ellegar stíflum. Þar til gjörist þverskurðir fyrir vatnið að safnast í, þeir teppist þá og við það flói vatnið út yfir engið, hvort sem maður vill haust eða vor. Líka megi grafa smárennsli út af þverskurðunum svo vatnið heldur dreifi sér og þó megi ekki neitt vatn standa yfir þurru engi eftir það að frþs á hausti. Án þessarar vatnsleiðslu, segir hann að varla verði þurrt engi ræktað með áburði, síst með nýrri mykju, en með þessu móti megi þar slá tvisvar á sumri.
1) Johan Brauner, sænskur fríherra (1712-73).
Af eigin reynslu veit eg að þetta, sem Brauner kennir, gildir og svo á Íslandi. Það hefur mér líka vel lukkast að stinga upp túnpetti þar sem þþft hefur verið eða troðningar, snú um grasrótinni aftur svo svörðurinn sé upp á og slétta allt um leið. Þá læt eg taka þungann kepp eða trésleggju og berja ef allar mishæðir svo ljáþýtt verði og þetta síðasta er hægt að gjöra þegar jörð á hausti er frosin hér um hálfa fingurþykkt. Þar kemur gott og mikið gras strax á næsta ári, hafi jörðin verið feit, annars verður að mykja strax a sama hausti þegar nýbúið er að jafna.
43.
Atli: Þú segir að hann, maðurinn sem þú nefndir, geti um heyfræ. Á eg að sá til grassins, sem Guð lætur vaxa?
Bóndi: Þykir þér sem Guð láti það ekki vaxa, sem þú sáir til? Hann gefur öllu líf sem lifir og þann nærandi lífkraft gefur drottin í loftið, það færir hann jörðinni, hún færir hann ávöxtunum en þeir færa hann mönnunum (Hósea 2, 21).
Nú á dögum skrifa margir að í útlöndum sé það almennt orðið að gjöra sér engi með kúnst, plægja þau og sá. Er það mælt að slík engi gjöri ei minna gagn en kornakrar. Fyrst um sinn er þér annað þarfara en að kaupa útlenskt heyfræ.
44.
Atli: Er mér ekki betra að ætla mér túnið stærra ef landslagið leyfir það og rækta svo mikið af því sem ég get?
Bóndi: Enginn mun banna þér að girða um svo mikið land sem þú villt. En hefi eg sagt þér að betra sé lítið tún umgirt og vel ræktað en hið stóra óræktað. Til að hegna hið stóra tún þarftu mikið erfiði og langan tíma, máske mörg ár. Uggir mig þá að þér kunni að leiðast erfiðið er þú bíður svo lengi nytjanna, hverra þér tjáir ekki að vlnta fyrr en því starfi er aflokið. En hið litla tún sýnir þér langtum fyrr gagn. Þér er betra að setja ei meiri pening á hey hin fyrstu ár en svo [að] þú fáir sem mestan tíma til garðalagsins. Því þá hið fyrsta hefur þú fengið botn undir bú þitt er þú hefur fengið umgirt og vel ræktað tún og síðan nautpening svo mikinn sem þar má vel fóðra á og dugir líka til að mykja það.
Seinna kanntu að bæta utan við túnið ökrum og engjum hvar þess er kostur og þú færð tíma til að girða um þær. Þú munt séð hafa á nokkrum bæjum merki til gamalla túngarða, sem hafa verið tveir eða þrír hver utan yfir öðrum. Orsökin þar til er sú, þegar vorir forfeður ruddu sér nýja byggð eins og þú gjörir nú, [að] þá hafa þeir fyrst umgirt sér lítil tún. En þegar það litla tún var vel ræktað og kvikfé þeirra og efni uxu þá byggðu þeir annan túngarð fyrir utan þann fyrri.
Það sama máttu gjöra á ný lendu þinni nema þú hafir svo fullar hendur fjár að þú getir leigt nóg fólk til að gjöra þetta verk allt í einu. Em það mun trauðlega fást þar kóngur hefur gefið nú í ár inn í landið nýja fororðning, sem býður öllum bændum að hlaða túngarða og segir líka hæð þeirra og gildleika með fleiru, sem allt er mjög þarft fyrir landið. Hún er dateruð 13. maí 1776.
45.
Atli: Hana þarf eg að vita fyrst hún er gefin mér og öðrum bændum að reglu.
Bóndi: Hér fyrir framan máttu lesa hana. En gleymdu þá ekki því sem stendur í hennar formála: Jarðarinnar tilbærileg yrkja og notkun er grundvöllur og stofn undir hvers lands velmegun en hennar forsómun þar á móti [er] vegur til þess vanmáttar og þurrðar.
Það sama sem hér er um landið sagt á eins heima hjá hverjum bónda þar inni. Því er það vissasti vegur til þinnar varanlegrar velmegunar og þú ræktir vel jörðina, sem ber þig og elur, svo hún vanmegnist ekki undir þér órækt og þú vanmegnist ofan á henni af sulti.
Atli* er eitt af ritunum í Riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal og fæst hér á Náttúrumarkaði.
*Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn helst um jarðar- og kvikfjárrækt aðferð og ágóða með andsvari gamals bónda. Samanskrifað fyrir fátækis frumbýlinga, einkanlega þá sem reisa bú á eyðijörð.
Birt:
Tilvitnun:
Björn Halldórsson í Sauðlauksdal „Atli spyr að túnstærð - Atli IX“, Náttúran.is: 2. september 2010 URL: http://nature.is/d/2009/08/31/atli-spyr-ao-tunstaero-atli-ix/ [Skoðað:30. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 31. ágúst 2009
breytt: 2. september 2010