Af málstofu um íslenska hitabeltið
Þann 18. nóvember sl. var haldin málstofa í Bændahöllinni á vegum OVR, félags lífrænna bænda, og Bændasamtaka Íslands þar sem Bernward Geier frá Þýskalandi o.fl. fluttu erindi um lífræna ræktun hitabeltisávaxta í gróðurhúsum þar sem jafnframt er stundað fiskeldi. Bernward, sem um árabil var framkvæmdastjóri IFOAM, Alþjóðasamtaka lífrænna landbúnaðarhreyfinga, rekur ráðgjafarfyrirtækið COLBORA í Þýskalandi og vinnur í nánu samstarfi við SEECON í Sviss sem hefur þróað og hannað slík gróðurhús með góðum árangri.
Við ræktun í "hitabeltisgróðurhúsum" er nýtt umframorka svo sem frárennsli hitaveitu eða hitaorka sem myndast við kælingu í orkuverum,sem sagt lághita um 25-27° C,og framleiddar eru gæðafurðir sem fara beint í veitingahús til matgæðinga eða eru seldar ferðamönnum á staðnum. Fram kom að í hitabeltisgróðurhúsinu í Ruswil skammt frá Lucerne í Sviss er ársframleiðslan 60-80 tonn af hitabeltisávöxtum á borð við papaya og dvergbanana auk 15-25 tonna af fiski, og í húsið sem er um 1 hektari (10.000 fermetrar) að stærð koma um 10.000 gestir á ári. Þannig hafa þessi gróðurhús mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn en aðgangseyrir er 6-7 evrur (um 1.000 krónur ) á mann.
Málstofuna sátu einkum fulltrúar ýmissa stofnana, svo sem frá landbúnaði, ferðaþjónustu, orkufyrirtækjum og háskólum sem sinna verkefnum í þágu nýsköpunar. Þar sem slík gróðurhús stuðla að sjálfbærri þróun með ýmsum hætti var við hæfi að Kolbrún Halldórsdóttir skyldi sitja málstofuna. Unnið er að fjármögnum hagkvæmiskönnunar en ýmsir aðilar hafa sýnt þessu máli áhuga. Munu þeir Þórður Halldórsson garðyrkjubóndi á Akri og dr. Sveinn Aðalsteinsson frá fyrirtækinu Primordia ráðgjöf hafa forgöngu þar um.
Að lokinni málstofunni var haldið málþing á Hótel Sögu um möguleika í lífrænum búskap og kynnt áform um lífrænt setur í Laugarási í Bláskógabyggð og fluttu þeir Bernward, Þórður og Sveinn erindi um þau efni þar sem einnig var vikið að hitabeltisgróðurhúsum.
Birt:
Tilvitnun:
Bændablaðið „Af málstofu um íslenska hitabeltið“, Náttúran.is: 23. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2010/11/23/af-malstofu-um-islenska-hitabeltid/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 23. nóvember 2010