Eurpean Green CapitalVið eigum góða möguleika á að verða Græna borgin í Evrópu,“ sagði Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur eftir að hafa setið fyrir svörum dómnefndar í Brussel í gær, 8. september. Tvær evrópskar borgir verða valdar í október til að bera titilinn European Green Capital eða Græna borgin í Evrópu árin 2012 og 2013.

Sautján borgir í tólf Evrópulöndum sóttu um tilnefninguna og skiluðu inn viðamiklum umsóknum. Sex þeirra komust í undanúrslit og fengu tækifæri til að flytja mál sitt í Brussel. Það voru Núrnberg frá Þýskalandi, Nantes frá Frakklandi, Málmey frá Svíþjóð, Barcelóna og Vitoria-Gasteiz frá Spáni ásamt Reykjavíkurborg.

Jón Gnarr, Karl Sigurðsson formaður umhverfis- og samgönguráðs og Heiða Kristín Helgadóttir aðstoðarmaður borgarstjóra sátu fyrir svörum ásamt sérfræðingum Reykjavíkurborgar á sviði umhverfis- og skipulagsmála. Ellý Katrín Guðmundsdóttir sviðsstýra flutti kynningu og sýndi nýtt myndband um Reykjavík sem græna borg. Einnig var hundrað síðna skýrsla send valnefndinni þar sem gerð er grein fyrir aðgerðum liðinna ára í ellefu málaflokkum.

„Ég er ánægður með hversu faglega starfsmenn borgarinnar hafa staðið að umsókninni enda er heiður að komast í forval þessarar mikilvægu tilnefningar,“ sagði Jón Gnarr. „Við höfum gífurlega mikinn áhuga á að vinna að umhverfismálunum í borginni,“ sagði borgarstjóri og bætti við að Reykjavík gæti orðið fyrirmynd annarra borga, til að mynda í loftgæða- og loftslagsmálum. Skilyrðin til að geta verið Græna borgin í Evrópu eru t.d. að sýna staðfestu í umhverfismálum og setja sér metnaðarfull markmið.

„Borgin hefur eflt umhverfismálin vel á liðnum árum, bæði gagnvart borgarbúum og í eigin starfsemi,“ sagði Ellý Katrín Guðmundsdóttir sviðsstýra Umhverfis- og samgöngusviðs og bætti við að með umsókn sinni um að verða Græna borgin í Evrópu leggi borgin áherslu á að vera frumkvöðull og öðrum til fyrirmyndar. „Val Reykjavíkurborgar í hóp þeirra sem sækjast eftir útnefningu er vitnisburður um góðan árangur og er okkur hvatning til góðra verka,“ sagði Ellý Katrín.

„Reykjavíkurborg er komin á kortið sem græn borg í Evrópu,“ sagði Karl Sigurðsson eftir fundinn í Brussel. Í umsókninni er dregið saman hvað Reykjavíkurborg hefur gert á liðnum árum í umhverfismálum og er sú vinna metin í samhengi við aðrar borgir í Evrópu. Fjölmargir sérfræðingar hjá Reykjavíkurborg komu að umsókninni og öllu ferlinu sem þar liggur að baki. Reykjavíkurborg kom m.a. einna best út í loftgæða- og kynningarmálum sem er góð viðurkenning á þeim fjölmörgu verkefnum sem borgin hefur ráðist í hvað þau mál varðar. Einnig hefur umsóknarferlið dregið fram að helstu verkefnin framundan hjá borginni liggja í samgöngu- og úrgangsmálum.

Eygerður Margrétardóttir framkvæmastýra Staðardagskrár 21 hefur umsjón með umsókn Reykjavíkurborgar. Hamborg verður Græna borgin í Evrópu 2011 en Stokkhólmur ber titilinn árið 2010.

Birt:
9. september 2010
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Reykjavík getur orðið Græna borgin í Evrópu “, Náttúran.is: 9. september 2010 URL: http://nature.is/d/2010/09/09/reykjavik-getur-ordid-graena-borgin-i-evropu/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: