Fjölmennt málþing um menntun til sjálfbærni
Umhverfisfræðsluráð og Landvernd efndu til málþings um þjóðaráætlun um menntun til sjálfbærni í liðinni viku. Þingið var fjölmennt og voru Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra meðal framsögumanna. Nú er hægt að skoða upptöku af erindum sem flutt voru á þinginu með því að smella hér.
Í ávarpi sínu sagði umhverfisráðherra m.a. að stjórnvöld ynnu nú að endurskoðun á stefnumörkun um sjálfbæra þróun, sem var fyrst gefin út árið 2002 undir heitinu Velferð til framtíðar. Að þessu sinni væri ætlunin að setja fram í stefnumörkuninni, í fyrsta skipti, áherslur um menntun til sjálfbærrar þróunar. Drög að stefnumörkuninni yrðu lögð fyrir umhverfisþing til umfjöllunar. Þingið fer fram dagana 9. og 10. október hér og umhverfisráðherra hvatti alla áhugasama til að mæta á þingið og taka virkan þátt í umræðum um stefnumörkunina.
Þrjú erindi voru flutt á þinginu:
- Drög að úttekt á menntun til sjálfbærni á Íslandi sem unnin er fyrir umhverfisfræðsluráð. Stefán Gíslason, Environice.
- Umhverfislæsi – getum við lært af öðrum þjóðum? Andrés Arnalds, Landgræðslunni.
- Þjóðaráætlun um menntun til sjálfbærni – hvað þarf til? Mike Littledyke og Rose Littledyke.
Að loknum erindum var efnt til pallborðsumræðna með þátttöku Þórunnar Pétursdóttur frá Landvernd, Eyglóar Friðriksdóttur, skólastjóra Sæmundarskóla í Reykjavík, Heimis Janusarsonar, fullrúa Alþýðusambands Íslands í umhverfisfræðsluráði, Maríu Guðmundsdóttur, frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Gunnari Einarssyni, bæjarstjóri í Garðabæ og Ingólfi Ásgeiri Jóhannessyni, fulltrúi Getu rannsóknarhóps í HÍ og HA.
Hlutverk umhverfisfræðsluráðs er að stuðla að aukinni fræðslu um umhverfismál og sjálfbæra þróun til almennings og skóla. Samkvæmt ákvæði í framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi er hlutverk ráðsins að hvetja til aðgerða, koma á samvinnu, samræma og stuðla að aukinni umhverfismennt í samvinnu við sveitarfélög, samtök áhugamanna um umhverfismál, samtök almennings, aðila vinnumarkaðarins og stofnanir. Eftirtaldir aðilar tilnefna fulltrúa í ráðið: Menntamálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Námsgagnastofnun, Kennaraháskóli Íslands, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands, Neytendasamtökin og félagasamtök á sviði umhverfismála tilnefna einn sameiginlegan fulltrúa.
Mynd: Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flytur ávarp, Umhverfisráðuneytið.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Fjölmennt málþing um menntun til sjálfbærni“, Náttúran.is: 29. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/29/fjolmennt-malthing-um-menntun-til-sjalfbaerni/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.