Grágæsin er algengasti varpfuglinn í friðlandinu í Vatnsmýri. Engar stokkendur, gargendur, duggendur eða skúfendur notuðu friðlandið til varps árið 2007. Aðstæður tjarnarfugla eru óviðunandi að mati Ólafs K. Niesen og Jóhanns Óla Hilmarssonar sem tóku saman árskýrslu fyrir Umhverfis- og samgöngusvið um Fuglalíf Tjarnarinnar.

Fjórar tegundir anda reyndu varp við Tjörnina 2007: stokkönd, duggönd, skúfönd og æður. Eitt gargandapar var á svæðinu um vorið en ekki er vitað hvort kollan gerði tilraun til varps. Þessar fimm tegundir hafa verið árvissir varpfuglar við Tjörnina í áratugi. Urtönd og toppönd dvöldu langdvölum á svæðinu 2007 en urpu ekki.

Hreiðurleit var gerð í friðlandinu og í hólmum. Grágæsin reyndist algengasti varpfuglinn í friðlandinu en 19 hreiður fundust. Eitt hrossagaukshreiður fannst með 4 eggjum og af öðrum mófuglum voru í friðlandinu þann 23. maí: ein heiðlóa, sandlóupar, þúfutittlingspar og syngjandi karlfugl þúfutittlings. Athygli vekur að engar stokkendur, gargendur, duggendur eða skúfendur notuðu friðlandið til varps. Þetta er óvænt niðurstaða að mati skýrsluhöfunda og veldur þeim áhyggjum því áður var töluvert andavarp á þessu svæði. Skýrsluhöfundar nefna afrán sem mögulega skýringu en kettir sækja stíft inn á friðlandið. Önnur möguleg skýring að mati höfunda er að gengið hefur verið á varplönd í næsta nágrenni friðlandsins með húsbyggingum, gerð bílastæða og veglagningum.

Skýrsluhöfundar ráðleggja borgaryfirvöldum að ráða umsjónarmann (andapabba eða -mömmu) með Tjarnarfuglunum. Verksvið hans vor og sumar væri að sinna þörfum fuglanna, líkt og undirbúa hólmana og friðlandið fyrir varp, verja varplöndin fyrir vargi, fóðra og verja andarunga og telja og vakta fuglanna. Hlutverkið að vetri til yrði að tryggja að vetursetufuglar hefðu nóg æti. Höfundar telja einnig að friðland Vatnsmýrannar þjóni í raun helst grágæsinni sem varpland.

Skýrslan Fuglalíf Tjarnarinnar var kynnt í umhverfis- og samgönguráði í dag 11. mars. Í skýrslunni kom meðal annars eftirfarandi fram:
  • Í lok júlí 2007 voru 17 stokkandarkollur með samtals 50 unga.
  • Ljóst er að gargöndin er við það að hverfa úr fánu Tjarnarinnar.
  • Engar urtendur sáust á Tjörninni um vorið og sumarið 2007.
  • Varpafkoma duggandarinnar hefur verið léleg mjög lengi.
  • Níu skúfandarungar voru á lífi síðsumars og varpafkoman hefur verið afleit síðustu þrjú ár.
  • Miklu meira komst upp af æðarungum á Tjörninni fyrr á árum.
  • Rauðhöfðapar var á Tjörninni 9. maí.
  • Færri gæsir voru á Tjörninni 2007 en oft áður.
  • 35 kríupör hið minnsta halda enn tryggð við Tjarnarvarpið.
  • Grafandarsteggur hélt til á Tjörninni á útmánuðum.

Í skýrslunni er einnig fjallað um flutning Hringbrautar á sínum tíma og aðallækinn sem þá var skertur og tillögur settar fram um  hvernig stöðva megi landbrot hólma og bæta gróður við Tjarnarbakkann.
Birt:
12. mars 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Fuglalíf við Tjörnina í hættu“, Náttúran.is: 12. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/13/fuglalif-vio-tjornina-i-haettu/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 13. mars 2008

Skilaboð: