Ýmsar rætur
Ýmsar rætur villtra og hálfvilltra jurta eru rammar og ég velti því fyrir mér næstum á hverju vori hvernig formæður mínar hafi farið að því að gera úr þessu mat, jafnvel hungurmat. Það má alveg, sem ígildi fórnfæringar vegna nútímavelgengni, þegar óþolinmæðin eftir nýjum jurtum er komin á ákveðið stig, grafa upp rót og rót og reyna að nota þær í eldhúsinu. Það var þó eitt vorið, að í staðinn fyrir að róta í moldinni, þá brá ég mér niður á jarðhæð undir Þjóðarbókhlöðunni og hinir hjálpsömu bókaverðir leituðu enn lengra niður í kjallara í bókageymsluna og grófu upp Matjurtabók Eggerts Ólafssonar.
Þetta er lítið kver sem hann lauk aldrei við. En hann skildi blessunarlega eftir útdrátt í Sauðlauksdal hjá Birni mági sínum, þegar hann fór feigðarförina og „ýtti frá kaldri Skor“, en minnisblöðin og frekari útfærsla endaði á botni Breiðafjarðar með áhöfn og búslóð. Þegar ég kom fyrst í Rauðasandshreppinn á áttunda áratugnum skildi ég ekki af hverju atburðurinn var enn svo ljóslifandi í hugum fólks, að 250 árum síðar talaði það eins og slysið hefði gerst í gær, og velti fyrir sér hverju smáatriði eins og ábyrgðarfyllstu formenn björgunarsveita eftir misheppnaða aðgerð.
En smám saman fór ég sjálf að sakna Eggerts og skilja hvílíkur missir þetta var. Ég vildi gefa mikið til að hann hefði klárað Matjurtabókina og bætt við eigin reynslusögum og við fengið innsýn í eldamennskuna hjá Ingibjörgu, eftir að þau settust að á Hofsstöðum. Eggert segir um rætur að þær skuli grafa upp vor og haust. Hann minnist á rætur hvanna, geitlu, fífla (sem hann nefnir ljóns-tönn), horblöðku (kveisugras), lambagrasa (rótina kallar hann holtarót), geldingahnappa og muru (líklega á hann við tágamuru). „Mjólkin verður af muru sæt sem sykurborin væri.“
Í dag eru rætur fífla, kerfils, njóla og hvannar nærtækastar og af þeim má gera urtaveig (sjá næsta kafla). Það má gera af þeim brauð, en rótin er mýkri ef hún er soðin í mjólk, svo má líka þurrka þær og mala í brauð eða steikja smárætur á pönnu og eta með lauk og smjöri. Nú dettur engum í hug að húsfreyjur hafi lumað á hveitilús í verstu harðindum en það gefur okkur vissa innsýn, ef við reynum einu sinni að sjóða rætur og setja í bollur eða brauð. Það er reyndar svo gott að allar líkur eru á að við gerum það fljótlega aftur. Byrja skal þó varlega með svo framandi bragð.
Brauð með rótum
Þegar rætur hafa verið soðnar í vatni má nota þær í brauð. Allar beiskar jurtir verða betri ef þær eru soðnar í mjólk. Hreinsa skal ræturnar og sjóða í mjólkinni, taka síðan utan af þeim mesta börkinn, skola og skafa burt anga og tægjur í hreinu vatni. Henda burt öllu því sem er trénað og stappa síðan ræturnar. Það er auðvelt að hreinsa rætur á þennan hátt en það gengur mikið úr. Rótarstappan er hnoðuð saman við deig eða hrærð og brauðið bakað.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Grafík: Hildur Hákonardóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Ýmsar rætur“, Náttúran.is: 21. september 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/06/msar-rtur/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. nóvember 2007
breytt: 21. september 2014