Skata. Grafík: Guðrún Tryggvadóttir.Hún er 23. desember í minningu þess, að þann dag árið 1193 sálaðist sætlega í Drottni Þorlákur helgi í Skálholti. Hún var í katólskum sið ekki nándar nærri eins hátíðleg haldin og Þorláksmessa á sumar, enda hlaut hún mjög að hverfa í skugga jólanna. Af sömu sökum hefur hún hinsvegar átt mun ríkari sess í hugum fólks á síðari öldum, meðan hin er næstum gleymd. Þá var undirbúningur jólahátíðarinnar á lokastigi. Víða mun hangikjötið til jólanna t.d. hafa verið soðið þá.

Einnig voru klæði og híbýli þvegin á þessum degi eða mjög í námunda við hann. Í því sambandi var víða talað um fátækraþerri á Þorláksdag eða næstu dægrin á undan. Er það skýrt svo, að fátækt fólk hafi oft ekki átt rúmföt til skiptanna og varla nærföt heldur. Því hafi Guðs miskunn gefið þeim þurrk, þá sjaldan þau voru þvegin.

Nokkur sérsaða hefur a.m.k. sumstaðar verið varðandi mataræði á Þorláksmessu. Ber þar einkum að nefna skötu eða öllu heldur skötustöppu, sem var lítt frávíkjanlegur Þorláksmessumatur á Vestfjörðum og er raunar enn í dag meðal fjömargra burtfluttra Vestfirðinga auk þeirra, sem enn eru í sínum heimahögum. Telja þeir lyktina af skötustöppunni haf verið fyrsta áþreifanlega merki þess, að jólin væru loksins að koma.
Skötuát á Þorláksmessu var þó ekki bundið við Vestfjarðakjálkann einan, heldur var þetta þekkt með gervallri vesturströndinni allt suður á Álftanes. Í innsveitum þessara héraða, t.d. Dölum og Borgarfirði, er þessi matsiður hinsvegar lítt kunnur. Stafar það sjáfsagt af misjöfnu framboði þessa fisks eftir búsetu.

Í Árnessýslu og vestur á Mýrum þekktist annar Þorláksmessumatur, svokallaðir megringar. Það voru horuðustu harðfiskarnir, sem um miðja 19. Öld voru í ritinu Gesti Vestfirðingi taldir “óætilegt roð”. Þeir voru soðnir í hangiketssoðinu til að fá af því bragð. Ekki er ljóst, hversu útbreidd sú matarvenja var aðe hve lengi hún hélst. En þetta hvorttveggja vekur upp þá tilgátu, hvort í Skálholtsbiskupsdæmi hafi þótt hlýða að borða þvílíkan föstumat á degi hins sæla Þorláks og eimt eftir af því fram á okkar daga. Eða hvort menn töldu vel hæfa að búa við mjög rýran mat þennan dag svo að viðbrigðin yrðu því meiri, þegar jólaveislan hófst.

Annarsstaðar á landinu er ekki getið um sérstakan Þorláksmessumat. Helst er að menn hafi rétt fengið að smakka á heitu hangiketinu.

Til hefur það verið, að dagurinn fyrir Þorláksmessu væri kallaður hlakkandi, og skýrir það nafn sig sjálft. En útbreitt virðist það nafn ekki hafa verið.

Úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.


    Tengdir viðburðir

  • Þorláksmessa

    Staðsetning
    Óstaðsett
    Hefst
    Þriðjudagur 23. desember 2014 00:00
    Lýkur
    Þriðjudagur 23. desember 2014 23:59
Birt:
23. desember 2015
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Þorláksmessa hin síðari“, Náttúran.is: 23. desember 2015 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/orlksmessa-hin-sari/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 22. desember 2015

Skilaboð: