Orkuveita Reykjavíkur vill umhverfisvæna orku á bílana
Umhverfis- og orkurannsóknasjóður OR styrkir rannsóknir á rafvæðingu samgangna
Rannsóknir á rafvæðingu samgangna hljóta rausnarlega styrki úr Umhverfis- og orkurannsóknasjóði Orkuveitu Reykjavíkur í ár enda lítur Orkuveitan svo á að grænir valkostir í samgöngum séu meðal helstu viðfangsefna í orkumálum landsins. Nú blæs bílaflotinn milljón tonnum af koltvísýringi út í loftið á hverju ári.
Nú er verið að hleypa af stokkunum tveimur umfangsmiklum rannsóknarverkefnum á þessu sviði undir forystu vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefni þeirra dr. Páls Jenssonar um rafakstur og rannsókn dr. Hlyns Stefánssonar á rafbílavæðingu í Reykjavík voru kynnt sérstaklega þegar styrkir úr Umhverfis- og orkurannsóknasjóðnum voru afhentir í þriðja sinn í dag.
Aðild að sjóðnum, sem Orkuveita Reykjavíkur hleypti af stokkunum árið 2006, eiga allir háskólar á Íslandi, sjö talsins, og sitja rektorar þeirra í Vísindaráði sjóðsins ásamt fulltrúum stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Á síðustu árum hefur sjóðurinn styrkt tugi vísindaverkefna á fjölda fræðasviða, allt frá nanótækni til kennslufræða.
Stærsti einstakur styrkur sjóðsins í ár er til Carbfix verkefnisins. Það er alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem miðar að því að binda koltvísýring í basalthraunlögunum á Hellisheiði. Verkefnið er samstarfsverkefni Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands, Columbia háskóla og Rannsóknarráðs franska ríkisins og á meðal þeirra sem vinna að því eru fremstu loftslagssérfræðingar heims.
Fyrst hitaveitur í hús – nú rafmagn á bíla
Á síðustu öld varð gerbylting í húshitun hér á landi þegar olíu- og kolakyndingu var útrýmt. Það var vitaskuld hin umhverfisvæna hitaveita sem leysti hana af hólmi. Nú eru níu af hverjum tíu húsum hituð með jarðhita en afgangurinn með grænu rafmagni. Allur húsakostur landsins er þannig kyntur og lýstur með innlendum orkugjöfum.
Stórir bílaframleiðendur um allan heim leggja nú mikla áherslu á þróun rafbíla og gætu fjöldaframleiddir slíkir bílar verið komnir á göturnar innan nokkurra missera eða ára. Íslendingar geta bundið miklar vonir við þá þróun því ekki eingöngu gæti umbylting bílaflotans dregið úr mengun heldur sparað okkur eldsneytiskaup fyrir dýran gjaldeyri, rétt eins og hitaveitan gerði á sínum tíma.
Í rannsóknarverkefnunum tveimur, sem bæði eru þverfagleg, er viðfangsefnið nálgast með ólíkum hætti en bæði miða að því að gera íslenskt samfélag betur undir það búið að grípa þau tækifæri á sviði rafvæðingar einka- og almenningssamgangna, sem eflaust munu sýna sig á næstu árum.
44 verkefni styrkt
Alls styrkir Umhverfis- og orkurannsóknasjóður Orkuveitu Reykjavíkur 44 verkefni í ár um alls 92,5 milljónir króna. Styrkirnir eru veittir í tveimur flokkum; opnum flokki, þar sem umsækjandi skilgreinir viðfangsefni rannsóknarinnar, og lokuðum flokki, þar sem Orkuveita Reykjavíkur skilgreinir viðfangsefnið.
Yfirlit styrkveitinga 2009 má sjá á vef Orkuveitu Reykjavíkur.
Mynd: Styrkþegar og aðstandendur Umhverfis- og orkurannsóknasjóðs OR við úthlutun í dag.
Birt:
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Orkuveita Reykjavíkur vill umhverfisvæna orku á bílana“, Náttúran.is: 30. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/30/orkuveita-reykjavikur-vill-umhverfisvaena-orku-bil/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 1. maí 2009