Í yfirlýsingu Landssambands íslenskra útvegsmanna frá því í gær segir eftirfarandi:

„Ávinningurinn af sjálfbærum hvalveiðum snýst ekki eingöngu um verðmæta- og atvinnusköpun sem tengist þeim. Með skynsamlegri nýtingu hvalastofna gætum við aukið veiði á þorski og öðrum arðbærum tegundum. Þar erum við að tala um tugi milljarða króna í útflutningstekjum til viðbótar þeirri verðmæta- og atvinnusköpun sem hvalveiðarnar færa okkur,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ."


Yfirlýsing útvegsmanna vekur spuringar um hvaða heimildir þeir hafi fyrir slíkum fullyrðingum.

Í viðtali við Ríkisútvarpið þann 1. nóvember 2006 ræddi Jón Ásgeir Sigurðsson, fréttamaður við Gísla Víkingsson, sérfræðing Hafrannsóknarstofnunar, um hvort það væru „...mikilvæg rök fyrir hvalveiðum að hvalir éti fisk og gangi á fiskistofnana með þeim afleiðingum að minna sé til skiptanna fyrir fiskiskipaútgerðirnar.

Undir lok viðtalsins spurð Jón Ásgeir Sigurðsson, fréttamaður RÚV: „Þannig að kannski er niðurstaðan, Gísli, að við vitum ekki nógu mikið til þess að geta haldið því fram að þetta [hvalveiðar] hafi einhver áhrif á fiskistofnana?"

Gísli Víkingsson: Já, ég held að það sé niðurstaðan eins og er, að við vitum ekki nógu mikið til þess að geta sagt það með vissu þó það séu vissulega vísbendingar í þá átt frekar en hitt. En við erum langt frá því að geta sagt það með nokkurri vissu.

Ef marka má Einar K. Guðfinnsson, f.v. sjávarútvegsráðherra, er málið heldur ekki eins einfalt og LÍÚ vill vera láta. Í svari hans við skriflegri fyrirspurn Jóns Gunnarssonar, alþingismanns, eins helsta talsmanns Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum, um hvenær er áætlað að endanlegar niðurstöður rannsókna á fæðuvistfræði hrefnunnar liggi fyrir?:

Lokahnykkur verkefnisins felst í því að setja þessar niðurstöður í fjölstofnalíkan svo að unnt verði að gera sér betur grein fyrir vistfræðilegu hlutverki hrefnunnar og hugsanlegum áhrifum á fiskstofna. Vinna við líkanagerðina mun hefjast á haustmánuðum og liggur ekki fyrir hvenær niðurstöður birtast, enda um flókið verkefni að ræða þar sem m.a. þarf að taka tillit til breyttra aðstæðna á Íslandsmiðum undanfarin missiri.

Svo virðist sem LÍÚ taki hvorki mark á Hafrannsóknarstofnun né Einari K. Guðfinnssyni. Sú fullyrðing útgerðarmanna, að verði hvalveiðar ekki leyfðar tapist milljarðar króna, á sér enga stoð í raunveruleikanum.
Birt:
4. febrúar 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Hjáfræði LÍÚ“, Náttúran.is: 4. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/04/hjafraedi/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: