Varðveisla - Vistvænar byggingar
Upphitun
Til að stuðla að sjálfbæru samfélagi þarf að bæta orkunýtingu húsa og þar með minnka orkuþörf þeirra. Hægt er að hanna hús fyrir hvaða loftslag sem er með því að leggja áherslu á orkuný tni og nýtingu sólarvarma. Hús tapa orku í gegnum skel sína, þ.e. þak, veggi, gólf, glugga, dyr og með lofti og affallsvatni. Gluggarnir eru verst einangrandi og tapast þar mikil orka, eða allt að 10 sinnum meira en frá sambærilegum veggfleti.
Hefðbundin upphitunarkerfi eru ekki eina uppspretta varma til húshitunar. Aðrar uppsprettur eru til staðar eins og líkamshiti, sólarvarmi í gegnum glugga, umframhiti frá raftækjum og heitavatnsnotkun. Arkitektinn getur haft mikil áhrif á orkunotkunina með vali á einangrun, lögun á húsinu og hve mikið hann ný tir þann ókeypis varma sem kemur frá sólinni (t.d með gluggum mót suðri).
Rafmagnsnotkun
Notkun raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og aukin raforkuný tni eru hornsteinar að sjálfbærri þróun. Lágmarka skal orkuþörf húsa og velja orkuný tin raftæki. Raftæki, eins og ísskápar og frystar, nota um 75% af raforkunotkun heimilis. Raftæki eru flokkuð frá A til G út frá orkuný tni, A er með bestu orkuný tnina en G þá verstu. Rafmagnsnotkun þvottavéla fer eftir hitastigi sem valið er og vatnsnotkuninni. Tvisvar sinnum meira rafmagn er notað þegar þvegið er við 90ºC heldur en við 60ºC en fjórum sinnum meiri við 90ºC heldur en við 40ºC.
Raftæki í biðstöðu nota rafmagn stöðugt. Í raun nota sum þessara tækja meira rafmagn á meðan þau eru ekki í notkun heldur en þegar verið er að nota þau. Rafmagnstæki í biðstöðu skapa líka eldhættu. Til að stuðla að orkuhagkvæmri lýsingu þarf vel skipulagt kerfi rafbúnaðar, ljósa og leiðslna. Þó er ekki nóg að huga eingöngu að orkuný tni því lýsing þarf einnig að vera stýrð og stillt samkvæmt þörf. Síðastliðin ár hefur átt sér stað þróun á orkusparandi raflýsingu og ljósgjöfum. Við skipulagningu á lýsingu þarf að íhuga allan ferilinn, allt frá því hve mörg vött eru sett inn í herbergi til ljósmagns og ljósgæða.
Vatn
Þótt við Íslendingar séum svo lánsamir að eiga nóg af vatni þá er óþarfi að bruðla með það. Betra er að venja sig á að nýta það vel, enda er orkufrekt að dæla vatni til okkar og frá okkur aftur. Vatnsnotkun heimila er mismunandi milli landa. Sameinuðu þjóðirnar áætla að 50 l af hreinu vatni á dag sé viðunandi magn fyrir hverja manneskju. Á heimili fjögurra manna íslenskrar fjölskyldu notar hver einstaklingur um 210 l af köldu vatni á dag, í Svíþjóð um 215 l á dag og í Bandaríkjunum er talan 450 l.
Með vatnssparandi tækni í sturtuhausum, krönum, salernum, þvotta- og uppþvotta-vélum þá er mögulegt að minnka vatnsnotkun heimila um helming án mikillar fyrirhafnar og án þess að minnka lífsgæði og hreinlæti. Í mörgum þróunarríkjum má rekja um 70% sjúkdóma til vatns sem er mengað af bakteríum, vírusum og sníkjudýrum. Alþjóða heilbrigðisstofnunin telur hins vegar að um 70% sjúkdóma sem hrjáir fólk í iðnríkjum megi rekja til langtímaáhrifa mengunarefna í vatni, í lágum styrk.
Megináskorun framtíðarinnar er því ekki eingöngu að sjá íbúum jarðar fyrir vatni heldur fyrir hreinu vatni.
Sorp
Í samfélagi nútímans verður til mikið af sorpi því gallar eru í framleiðslu- og neysluvenjum okkar. Í raun er ekki til neitt sem heitir sorp. Frekar má hugsa það sem efni á röngum stað á röngum tíma. Áætlað er að árlega skili hver Íslendingur af sér 345 kg af heimilissorpi. Mikill kostnaður fylgir söfnun, úrvinnslu og förgun og því ákjósanlegt að minnka sorpmagnið. Það er hægt með ábyrgri framleiðslu, umhverfismiðuðum neysluvenjum, flokkun á sorpi, moltugerð, endurnotkun, endurvinnslu og orkuúrvinnslu. Vörur og umbúðir þarf að flytja langa vegalengd til endurvinnslu, oft til annarra landa. Því er mikilvægt að fólk velji umbúðir vandlega og beri ekki heim með sér óþarfa.
Samkvæmt útreikningum sjálfs iðnaðarins þá eru umbúðir matvæla um 10% af heildarverði þess. Í sjálfbærri byggingu er takmarkið að lágmarka notkun á orku og auðlindum. Rafmagn umbreytist í hita, hreint vatn verður skólp og vörur mynda sorp. Með aukinni orkunýtingu er hægt að minnka orkunotkun í heiminum um helming. Orku- og auðlindanotkun heimila fer fyrst og fremst eftir lífsmynstri og venjum heimilisfólksins. Notkunarvenjur eru mjög svipaðar fyrir rafmagn, hita og vatn – fólk annaðhvort sparar eða spreðar. Með dálítilli umhugsun og endurskoðun á notkunar-venjum má spara orku og auðlindir og peninga í leiðinni.
Nokkur ráð til að spara orku og auðlindir:
Vatn
- Ekki vaska upp undir rennandi vatni
- Látið gera við leka krana og salerni
- Setjið uppþvottavélina af stað þegar hún er fullhlaðin
- Hlaðið þvottavélina að fullu þegar þvegið er
- Farðu frekar í sturtu en baðkar
- Ekki láta vatn renna að óþörfu
Sorp
- Hugsaðu um það sem þú kaupir
- Veldu umbúðir sem hægt er að nota oft
- Forðastu einnota umbúðir
- Reyndu að komast hjá óþarfa umbúðum (ekki bera heim óþarfa rusl!)
- Flokkaðu sorp
- Endurnotaðu eins mikið og þú getur
- Skilaðu eins miklu og þú getur til endurvinnslu
- Skilaðu eitruðum úrgangi á réttan stað. Nokkur ráð til að spara orku og auðlindir
- Góður herbergishiti er 20ºC, en 18ºC í svefnherbergjum
- Dragið fyrir glugga að nóttu til en viðhaldið hringrás lofts við ofna
- Hvorki húsgögn né gluggatjöld eiga að hylja ofna
- Loftið út í stuttan tíma í einu (helst með gegnumtrekki)
- Setjið ekki hálfhlaðna uppþvottavél af stað
- Látið viftuna yfir eldavélinni ekki ganga að óþörfu
- Það ætti ekki að vera kaldara en +6ºC í ískkápnum og -18ºC í frystinum. Affrystið reglulega
- Þegar kaupa á ný raftæki veljið þau með góða orkuný tni
- Notið hraðsuðuketil í stað þess að sjóða vatn í potti
- Veljið eldavélarhellu sem er ekki stærri en botninn á pottinum sem nota skal
- Ryksugið reglulega fyrir aftan ísskápa og frystiskápa
- Þýðið frosnar vörur í ísskápnum, þannig ný tist kuldinn í ísskápnum
- Ekki skilja raftæki eftir í biðstöðu. Slökkvið heldur með aðalrofanum
- Slökkvið ljós í herbergjum sem enginn er að nota
Úr bókinni „Byggekologi, konskaper för ett hallbar byggande“ eftir Varis Bokalders og Maria Block. Þýðing: Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir. Af vef Sessljuhúss .
Birt:
Tilvitnun:
Varis Bokalders og Maria Block „Varðveisla - Vistvænar byggingar“, Náttúran.is: 18. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/29// [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 29. mars 2007
breytt: 12. janúar 2008