Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í samstarfi við Háskólann í Reykjavík kynna fyrsta erindi fundaraðar um loftlagsbreytingar og áhrif þeirra á umhverfi Íslands og norðurslóða.

Snorri Baldursson, forstöðumaður upplýsingadeildar og staðgengill forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, heldur fyrsta erindið um loftlagsbreytingar á norðurslóðum og áhrif þeirra á umhverfið. Mun hann gera grein fyrir umfangi breytinganna, sem að óbreyttu munu hafa áhrif á samfélög á norðurslóðum, lífskjör, viðskipti og tækifæri tengdum þeim, og öryggismál. Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Háskólans í Reykjavík, Ofanleiti 2, fyrirlestrarsal 101 (á 1. hæð), þriðjudaginn 13. febrúar, kl. 17:15 - 18:15. Fundurinn er öllum opinn og er aðgangur ókeypis.
Fyrir nokkrum dögum kom út áfangaskýrsla vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Þar eru tekin af öll tvímæli um hlýnun loftslags og raunar, að skaðlegra áhrifa muni gæta fyrir komandi kynslóðir. Sjá nánar á vef ipcc.
Snorri Baldursson var fulltrúi Íslands í starfshópi Norðurskautsráðsins um loftslagsbreytingar á norðurslóðum og meðhöfundur yfirgripsmikillar skýrslu um sama efni (Arctic Climate Impact Assessment) sem gefin var út af Cambridge University Press árið 2004.
Fundurinn er hinn fyrsti í fundaröð um loftlagsbreytingar og áhrif þeirra á umhverfi Íslands og norðurslóða sem Félag Sameinuðu þjóðanna stendur fyrir á vormánuðum 2007. Meðal annarra efna sem rædd verða á sérstökum fundum eru: áhrif á samfélög og lífskjör á norðurslóðum, viðskipti og tækifæri tengdum þeim - svo sem samgöngur, og öryggismál. Allir verða fundirnir með sama sniði, standa frá 17:00-18:00, frummælandi talar í um 20 mínútur og að erindi loknu verður boðið upp á spurningar úr sal og almennar umræður.

Nánari upplýsingar fást hjá: Þresti Frey Gylfasyni, framkvæmdastjóra Félags Sameinuðu þjóðanna í síma 694-2558.

Myndin er tekin í Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi þ. 21.08.2007.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
10. febrúar 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fundaröð um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á umhverfi Íslands og norðurslóða“, Náttúran.is: 10. febrúar 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/fundarod_loftslagsbreytingar/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 29. apríl 2007

Skilaboð: