„Ég vildi endurhugsa og -hanna í stað þess að bæta nýjum hlutum við heiminn,“ sagði Hlín Helga Guðlaugsdóttir sem útskrifaðist úr vöruhönnun við Listaháskóla Íslands um helgina. „Mig langaði til að skoða betur það sem til er og kanna nýjar víddir og urðu bílastæði fyrir valinu.“

Bílastæði er afmarkað svæði ætlað undir bifreiðar í skamman tíma. Ökumaður í borginni leitar iðulega að bílastæði vilji hann nema staðar. Ökumaður segir þó aldrei eftir vel heppnaða ferð í miðborgina: „Ég fékk svo gott og fallegt bílastæði! Eða „Ég var svo ánægð/ur með bílastæðið sem ég fékk þegar ég fór í Þjóðleikhúsið í gærkvöldi!“

Bílastæði virðast hvarvetna svipuð en Hlín gerði tilraun til að setja þau í samhengi við staðsetningar. „Ég velti fyrir mér hvernig gera mætti bílastæðin við Kjarvalsstaði sérstök og ákvað að setja þau í samhengi við Jóhannes Kjarval og bílstjórann hans Þorvald Þorvaldsson,“ segir Hlín og nefnir að hún hafi fengið að hlíða á upptöku á samtali sem tekið var við Þorvald um Kjarval. En Þorvaldur lést á síðasta ári.

Hún skrifaði síðan upp valdar setningar Þorvalds og notaði þær til að lífga upp á hvítu línurnar sem afmarka bílastæðin á Kjarvalsstöðum. „Þegar gestir komu á Kjarvalsstaði í vor þá lögðu þeir milli setninga Þorvaldar og fengu þar með strax listræna upplifun á bílastæðinu,“ segir Hlín og nefnir dæmi um setningu sem hún staðsetti milli stæða: „Það sem maður þurfti að gera var að passa upp á að fólk ónáðaði hann [Kjarval] ekki.“

Bílastæði til betri vegar
Bílastæðið er fyrsti viðkomustaður margra gesta Kjarvalsstaða en minningin um stæðið þurrkast iðulega út. Bílastæðið verður jafnvel neikvæð upplifun ef það er oft langt frá áfangastað eða þá að ekkert þeirra er laust. „Fólk er oft pirrað út í bílastæðin, ég vildi því finna áhrifaríka leið til að breyta þessari upplifun til betri vegar,“ segir Hlín.

Ábending Hlínar felst í því að kanna svæði sem hafa orðið útundan í borginni og endurhanna þau. „Markmið vöruhönnuða er í raun að bæta lífsgæði fólks og að raungera hugmyndir. Endurhönnun á bílastæðum við Kjarvalsstaði er byrjun á byltingu sem snýst um að lífga við staðnaði hluti í umhverfinu, “ segir hún og að fólk verði að gefa sér tíma til að lifa sig inn í það.

Tilraunin með bílastæðin við Kjarvalsstaði var gerð í tengslum við lokaverkefni Hlínar við LHÍ.

Ljósmynd: Hlín Helga Guðlaugsdóttir.

Birt:
3. júní 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Bílastæði sem vekja til umhugsunar “, Náttúran.is: 3. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/03/bilastaeoi-sem-vekja-til-umhugsunar/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: