3 ísbirnir á ísjakaTeikn eru á lofti um að hækkun yfirborðs sjávar og súrnun hafsins vegna loftslagsbreytinga verði meira vandamál en áður var talið. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu sem Norræna ráðherranefndin hefur gefið út um helstu vísindaniðurstöður sem birst hafa síðan fjórða skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar kom út árið 2007. Halldór Björnsson, verkefnisstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands, er einn af fjórum höfundum skýrslunnar.

Halldór segir að stöðugar framfarir hafi orðið í loftslagsvísindum síðan að fjórða skýrsla IPCC kom út fyrir þremur árum. Það endurspeglist bæði í fjölda nýrra vísindagreina og einnig í framgangi rannsóknaáætlana. Hann segir meginniðurstöðu skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar vera þá að skýrsla IPCC standi en í sumum tilvikum reynist staða mála alvarlegri en þar var talið. Til dæmis séu teikn á lofti um að sjávarborðshækkun verði meiri en IPCC taldi auk þess sem nýjar rannsóknir á súrnum sjávar sýni betur hversu alvarlegt vandamál þar er við að etja. Samdráttur hafísbreiðunnar í Norður-Íshafi heldur áfram, sérstaklega að sumarlagi. Þó ísbráðnunarmetið frá sumrinu 2007 hafi ekki verið slegið sumrin 2008 og 2009 er ljóst að hafísinn er þynnri en fyrr og líklegt að mikil sumarbráðnun haldi áfram eins og lesa má um í nýlegri frétt á heimasíðu Veðurstofunnar.

Eftirfarandi eru nokkrar lykilniðurstöður úr nýlegum rannsóknum:

  • Einkenni um áframhaldandi loftslagsbreytingar eru greinileg. Þótt hlýnun á allra síðustu árum hafi ekki verið eins ör og árin þar á undan, er þessi sveifla innan skammtímabreytileika sem vænta má meðal annars vegna innri breytileika í loftslagskerfinu.
  • Sjávarborð heldur áfram að hækka. Nýlegt mat bendir til að væntanleg hækkun sjávarborðs verði meiri en gert er ráð fyrir í skýrslu IPCC.
  • Útbreiðsla hafíss á Norðurskautinu hefur ekki orðið jafn lítil og sumarið 2007, en til lengri tíma eru breytingarnar í sömu átt, þ.e. hafísbreiðan heldur áfram að minnka.
  • Á sumum svæðum Grænlands hefur jökulísinn bráðnað hratt undanfarin ár. Það hefur ekki verið staðfest hvort þetta er tímabundið ástand eða merki um langtímaþróun. Verulegrar bráðnunar gætir einnig á Suðurskautslandinu.
  • Hlýnun hefur nú verið staðfest yfir hluta ísbreiðunnar á Suðurskautslandinu. Erfitt hefur reynst að rekja hlýnun sem mælst hefur á Norðurheimskautssvæðinu beint til hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum vegna mikils náttúrulegs breytileika á svæðinu.
  • Rannsóknir hafa aukist á „hinu“ CO2 vandamálinu svonefnda, þ.e. súrnun hafsins. Þótt auðvelt sé að meta súrnun sjávar út frá auknum styrk CO2 í andrúmslofti, er enn ónægur skilningur á hvaða áhrif þetta hefur á líf og ferli í hafinu.
  • Einhlítar sannanir liggja ekki fyrir um stórvægilegar breytingar á hvirfilbyljum í hitabeltinu af völdum hnattrænnar hlýnunar þó mögulega verði stærstu fellibyljirnir öflugri með áframhaldandi hlýnun.
  • Eftir þó nokkur ár án marktækra breytinga á styrk metans í andrúmslofti frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar hefur styrkur þess nú aukist frá árinu 2007.
  • Áhrif breytileika í útgeislun sólarinnar á hitastig Jarðarinnar eru lítil og jafnvel þótt í hönd fari tímabil þar sem útgeislun sólarinnar er í lágmarki mun það í mesta lagi hafa tímabundin áhrif til þess að draga úr hlýnun. Tilgátan um áhrif geimgeisla á skýjamyndun og þar með loftslag hefur ekki verið staðfest.
  • Niðurstöður IPCC um tengsl aukins styrks CO2 í andrúmslofti við breytingar á meðalhitastigi standa óhaggaðar.
  • Nýjar rannsóknir benda til þess að styrkur CO2 gæti aukist meira miðað við útblástur en áður hefur verið áætlað vegna gagnvirkra ferla þar sem náttúrulega losun eykst í kjölfar hlýnunnar og einnig vegna þess að það dregur úr upptöku CO2.
  • Ef miðað er við að styrkur gróðurhúsalofttegunda (eða hlýnun) fari ekki yfir einhver fyrirfram ákveðin viðmiðunnarmörk, draga þessi gagnvirku ferli úr því olnbogarými sem er til losunar.

Hér má nálgast skýrsluna á norden.org.

Grafík: 3 ísbirnir á ísjaka, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Birt:
5. júlí 2010
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Áframhaldandi yfirborðshækkun og súrnun hafsins“, Náttúran.is: 5. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/05/aframhaldandi-yfirbordshaekkun-og-surnun-hafsins/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: