12. kafli - Aldin grænmeti og fánan
Ef þú vilt hafa matjurtagarð gætirðu freistast til að álykta sem svo að með því að hæna að þér allar þessar pöddur væri borin von að ná einhverri uppskeru. Ég vil halda því fram að þessu sé einmitt öfugt farið. Ef umhverfið er vinalegt þá verða kvikindin sem nærast á illþýðinu sennilega fleiri en þau sem nærast á kálinu þínu.
Ég verð nú samt sem áður að játa að ég er ekki neitt sérstaklega ákafur matjurtaræktandi. Það er reyndar vafasamt að kafli um matjurtir eigi heima í svona bók. En ég læt það nú samt flakka. Til þess að fá uppskeru að gagni, krefjast matjurtir nokkurrar vinnu og tíma og ég vil heldur eyða tímanum við að njóta gróðursins. Ekki þar fyrir að það er betra bragð af jarðarberjunum og öðrum ávöxtum sem maður les beint af plöntunum.
Fyrir utan ferskleikann af eigin framleiðslu er önnur ástæða fyrir að rækta sínar eigin matjurtir. Hún er sú að þá geturðu verið viss um hvað þú ert að láta ofan í þig. Flotta kálið og ávextirnir í plastpokunum í grænmetisborðinu í búðunum hefur sumt hvert verið úðað allt að fjörutíu sinnum með sveppa og skordýraeitri. Að sjálfsögðu samkvæmt EES- stöðlum sem ákveðnir eru á kontórum í Brussel. Það er ein ástæða enn. Kontóristarnir í Brussel ráða engu í garðinum þínum og þar gilda engir EES-staðlar.
Reyndar er það svo, ef maður hugsar út í það, að finnimaður lir fu í grænmetinu sínu þá er það að minnsta kosti merki þess að það hefur ekki verið úðað meira en svo að það er lífvænlegt fyrir smákvikindin. Það er þó ekki algilt vegna þess að smádýrin eru öllu sneggri en við að venjast eitrinu og aðlaga sig að því. Hvað sem því líður er það alltaf frekar uppörvandi að setjast að snæðingi og vita að kálið hefur aldrei verið úðað.
Eiturefnaiðnaðurinn hefur aldeils unnið í eigin þágu við uppbyggingu markaðarins. Blómabúðir og reyndar fleiri eru með fullar hillur af eitri sem eiga að hjálpa þér til að fá fallegra og hollara grænmeti. Halda þessir menn virkilega að þeir séu að tala til hálfvita? Er það nema von maður spyrji? Maður þarf ekki annað en að skoða gamlar myndir til þess að sjá að forfeður okkar gátu ræktað alveg jafngott grænmeti, ef ekki betra og a.m.k. hollara. Eiturefnin hafa eyðilagt það náttúrulega jafnvægi sem þeir nutu. Og þegar þú ert einu sinni byrjaður ða úða ertu komin inn í vítahring sem erfitt er að rjúfa. Þegar fyrsta úðagusun þurrkar út náttúrulegt rándýr, þarftu að halda áfram að úða bylgju eftir bylgju af meindýrum sem eru öllu fljótari að jafna sig auk þess sem þau hafa mörg hver vængi og koma fljúgandi úr næstu görðum.
En hvað getur maður þá gert til að verjast maðkinum?
Svarið við því er lífræn ræktun. Það getur vel verið að þú sért tortrygginn því lífræn ræktun er tískuorð í dag. En það er ástæðulaust. Það hefur mikið verið gefið út um lífræna ræktun, sumt frábært, annað síðra. Meginmálið er að gefa eitthvað til baka í stað þess sem þú tekur.
Það er fátt sem er eins jarðvegsbætandi og lífrænn úrgangur. Lauf, gras, blómstiklar, afgangar úr eldhúsinu, tætt dagblöð, kurlaðar greinar og hvaðeina sem lífrænt er. Með því að bæta jarðveginn fylgir hitt á eftir. Jarðvegurinn er jú undirstaðan alveg eins og húsgrunnur er undirstaða húss. Því betri sem jarðvegurinn er þeim mun auðveldari verður eftirleikurinn. Það verður eins og allt hitt komi af sjálfu sér. Það verður auðveldara að hafa fjölbreytni, plöntunum þínum líður vel og þær verða heilbrigðar. Heilbrigðar plöntur lokka að dýr. Þar á meðal fugla sem nærast á þeim sem fyrstir koma en það eru að sjálfsögðu pöddurnar. Sveppir og gerlar þrífast líka vel í lífrænum jarðvegi en það eru einmitt þeir sem nærast á og brjóta niður það sem þú setur af lífrænu efni í jarðveginn.
Garðyrkjan kennir okkur að stinga upp beðin og reyta illgresið. Grasafræðin kennir okkur hins vegar að hreyfa sem minnst við jarðveginum. Hvort skyldi nú vera rétt? Ef þú hugsar út í það liggur svarið nokkuð í augum uppi. Plöntur hafa nefnilega ýmsar varnir gegn samkeppni, bæði vaxtar- og efnafræðilegar. Það skiptir ekki máli hvað skáldin segja um friðsæld garðsins. Stríðið sem þar geisar er bæði hart og miskunnarlaust. Þar á sér stað stanslaus barátta um pláss, birtu og næringu. Þessi barátta er algerlega miskunnarlaus, miðað við okkar gildismat. Þeir veikbyggðari verða undir og deyja. En þessi barátta er svo hæg að við tökum ekki eftir henni. Hún á sér stað í allt öðrum tíma en okkar og þar eru engar stimpilklukkur. Og þeir hæfustu komast af og dreifa genum sínum til komandi kynslóða. Það er nefnilega þannig að plönturnar vaxa þar sem þær geta vaxið en ekki þar sem þú vilt. Og það sem meira er, aðeins fáar tegundir plantna sem ræktaðar eru til skrauts í görðum, svokölluð afbrigða eða “híbríður”, halda þeim efnavörnum sem hélt fyrirrennurum þeirra heilbrigðum. Þessvegna eru garðar óeðlilegir að því leyti að þar eru alla jafna tiltölulega fáar tegundir en margir einstaklingar. Það leiðir af sér stjórnlausa fjölgun. Nú glotta sjálfsagt einhverjir og afgreiða þetta sem bull, en líttu í kringum þig í garðinum og hvað sérðu? Þú rekur augun sennilega fyrst í grasflöt, fáar tegundir en margir einstaklingar.
Blómabeð, oftast fáar tegundir en margir einstaklingar eins og til dæmis stjúpur. Tré, teldu tegundirnar og ég er næstum viss um að fingurnir duga, birki, víðir, reynir, greni og nokkrar tegundir runna. Svo allrar sanngirni sé nú gætt, verður að segjast að þetta er þó að lagast með fleiri tegundum sem völ er á.
Reyndu svo að gera þér grein fyrir fjölda blaðlúsa á einhverjum einstökum runna og reyndu svo að finna eitthvert kvikindi sem lifir á þeim. Tegundafjölbreytni er því eins konar fjöldaöryggi. Ekki öryggi einstaklinga. Því fleiri sem tegundirnar eru, þeim mun ólíklegra er að einhver ein tegund “fari úr böndunum”. Þessvegna er það, að án fjölbreytni í lífkeðjunni verður annaðhvort fjöldaaukning eða hrun innan tegundarinnar. Lífkeðjan er eiginlega eins og leikrit, ákveðin “rulla” fyrir hvern karakter og fyrir hvern karakter ákveðin áhrif á framvindu leiksins.
Þessvegna er að þegar þú grípur inni í eðlilega hringrás náttúrunnar ertu að skapa skilyrði fyrir illgreesið. Ef þú rakar ofan af beðunum á vorin ertu að opna fyrir “illgresið”, með öðrum orðum ertu að skapa því góð skilyrði. Þú losar jarðveginn fyrir fræin sem liggja í dvala svo að þau fá birtu og yl. Ef þú lætur laufið liggja á “illgresið” erfiðara uppdráttar og laufið verður að mestu horfið þegar komið er fram á mitt sumar. En hvert fer það þá? Jú, það leysist upp og fer ofan í moldina. Það gerist vegna þess að smádýrin, þessir milljónir munna, éta það og búta niður. Þar taka gerlar og sveppir við því og fullkomna umbreytinguna. Það er nú einu sinni svo að það er erfitt að melta plöntur og plöntuleifar.
Það er vegna þess að aðalefnin í plöntum eru sellúlósi og tréni. Einu lífverurnar sem vinna á þessu eru gerlar! Meira að segja stóru grasbítarnir eins og kþr og hestar nota bakteríur í meltingarfærunum til þess að brjóta þetta niður.
En plönturnar nota einnig efnavopn til þess að firra sig samkeppni. Þær eru ekki bara með eitur til þess að verjast skordýrum. Margar plöntur framleiða efni í rótunum til þess að halda öðrum frá. Ein þeirra sem er algeng og notar svona aðferð er smárinn. Hann er í sambýli við bakteríur sem framleiða ókjör af köfnunarefni og lifa í rótum hans. Vegna þess hve jarðvegurinn sem smárinnvex í er köfnunarefnisríkur og vegna þess hve þéttar breiður smárinn myndar má heita ógjörningur fyrir aðrar plöntur að hasla sér völl innan um hann. Þá liggja blöð hans nálægt jörðu og skyggja á hvert það fræ sem hugsanlega lendir nálægt honum. Ofan á allt annað myndar hann næstum órofa breiðu með rótunum rétt undir yfirborðinu sem er svo köfnunarefnisríkt að það er næstum eitrað fyrir aðrar plöntur. Plöntur geta líka falið sig. Þær taka sér bólfestu innan um aðrar plöntur og fjölbreytni í áferð og lykt hjálpar þeim að leynast. Þær eru einfaldlega ófinnanlegar af þeim sem vilja éta þær. Þess vegna er ekki nema svona tíundi hluti þeirra étinn að öllu jöfnu. Sem táknar að massi þeirra sem lifa á plöntunum er um það bil tíundi hluti massa gróðursins. Þeir sem nærast á plöntuætunum eru svo aftur um það bil tíundi hluti massa þeirra sem þeir lifa á og svo framvegis. Þess begna er það að því stærra sem dýrið er þeim mun sjaldgæfara er það vegna þess að sá sem lifir á öðrum verður að vera stærri og sterkari en máltíðin til þess að ráða við hana án þess að slasa sig.
Aðrar varnir plantnanna hjálpa líka til.
Það skordýraeitur sem mest er notað er unnið úr plöntum. En málið er ekki svona einfalt. Í sérhverri plöntu getur verið fjöldi eiturtegunda, sveppaeitur, bakteríueitur, skordýraeitur og fleira. Áhrifarík blanda gegn fjölda tegunda jurtaæta auk fæliefna, lystardeyfa og jafnvel eigin útgáfa plöntunnar af skordýraferómónum, hormónum og taugaboðefnum. Allt þetta fæst ekki úr dollum eða pökkum. Þetta fæst í fallegum, umhverfisvænum sjálfdreifandi umbúðum í jafnmörgum útgáfum og plöntutegundirnar eru margar. Þegar svo fjölbreytni gróðursins er tekin með í reikninginn geta verið hundruð tegunda eiturs gegn fjölda skordýrategunda í einum litlum garði auk fjölda lífvera sem nærast á litlu plöntuætunum. Og plöntur bregðast við nartinu. Um leið og bitið er í þær fara af stað efnaverkanir og plantan fer að framleiða meira af viðeigandi eitri. Sumar, eins og til dæmis ölur, senda meira að segja viðvörunarmerki til félaga sinna af sömu tegund með því að dæla út um laufið lyktarefnum. Svo eru aðrar sem aðvara, eins og appelsínur svo dæmi sé tekið. Fyrir okkur er lyktin af appelsínum boð um að borða þær. En appelsínubörkur hefur að geyma rokgjarnar olíur sem eru eitraðar fyrir skordýr. Fyrir skordýr er lyktin af appelsínum eins og þegar hauskúpa er sett á eiturumbúðir fyrir okkur. En hver einasta planta hefur samt einhvern sem þolir eitur hennar og étur hana. Fyrir þessi dýr er ilmurinn góður og plantan ágætis máltíð.
Fuglarnir eru vinir þínir þótt þeir slái ekki væng á móti rifsinu þínu eða sólberjunum. Þú gætir reynt að setja net yfir runnana ef þér er sárt um berin og vilt heldur beina sjálfbjargarviðleitni fuglanna að lirfunum og sniglunum. Það hefur sýnt sig erlendis að gamlar peysur fylltar stráum sem fuglahræður virka lítt eða ekki. Það eru mörg dæmi um að fuglar hafi gert sér hreiður í fuglahræðum og reyndar virðist áhugi þeirra beinast að ýmsu öðru en hræðunni. Á undanförnum árum hafa verið gerðar tilraunir með að blanda saman tegundum í matjurtagarðinum. Það virðist gefa góða raun að rækta saman t.d. myntu og salat. Á einhvern hátt virðist mynta fæla varginn frá. Þá er það ekki vitlaus hugmynd að planta blómum inn á milli grænmetisins. Það eru tvær ástæður fyrir því. Sum þessara blóma virðast hafa einhver efnaáhrif á jarðveginn sem minnkar ásokn sumra sníkjudýra og sjúkdóma sem herja á grænmetið, hin ástæðan er að blómstrandi jurtir laða að frjóvgandi skordýr og sum þessara skordýra eru hrein guðsgjöf. Prófaðu að fylgjast með smá stund og athuga hvort þú sérð ekki vespu sem hangir eins og þyrla yfir blómunum. Svo allt í einu stingur hún sér niður í grunlausan maðk og flýgur burt með hann hangandi neðan í sér heim í búið.
Ef þú ert með gulrætur og sprotakál (brokkoli) í matjurtagarðinum er gráupplagt að rækta morgunfrú (Calendula officinalis) inni á milli þeirra. Morgunfrúin hefur þann eiginleika að þú losnar næstum því alveg við þráðorma sem gjarna leggjast á t.d. kartöflur og fleiri tegundir. Morgunfrúin hreinlega dregpur þessa “hvimleiðu” orma. Reyndar tíðkast það í útlöndum þar sem grænmeti er ræktað á stórum ökrum að sá morgunfrú í akrana á nokkura ára fresti til að halda heilbrigðri hámarksuppskeru. Svo er líka reynandi að víxla tegundum í garðinum. Það hefur oft gefist vel. Sniglar eru ein helsta plága matjurtagarðsins. Í votviðri (og hvenær er ekki blautt a.m.k. á suðvesturhorninu?) eru þeir fljótir að háma í sig ungplönturnar. Gróft trjákurl kringum matjurtirnar virðast eitthvað draga úr þeim kjarkinn en það er ekki nóg. Börkur af hálfrei sítrónu eða greipaldini sem dreift er í kringum matjurtarinnar virðist laða þá til sín og þeir safnast saman undir honum. Þar er hægt að tína þá upp og flytja í burtu eða sálga þeim. Það þýðir ekkert að henda þeim yfir girðinguna í garð nágrannans því þeir eru sérstaklega ratvísir og skríða í rólegheitum heim um leið og þú sný rð í þá baki. Aðeins eitt ráð hefur gefist sérstaklega vel. Það er að hella þá fulla” Lítil dolla, t.d. jógurt eða skyrdós er grafin niður svo að barmarnir eru jafnháir jarðveginum í kring. Í dolluna er settur pilsner eða bjór. Það er nauðsynlegt að setja einhvers konar hlíf yfir dolluna svo að hún fyllist ekki af vatni þegar rignir en hún verður að vera þannig að sniglarnir komist greiðlega að brúnum hennar. Þetta virðist vera sú freisting sem enginn snigill getur staðist. Hann kemur skríðandi að brúninni, ærður af löngun í gott fyllerí og skríður beint ofan í þar sem hann drukknar! Gott á hann!
Sandur í jarðvegi virðist hjálpa líka að einhverju marki. Í raun og veru hefur jarðvegurinn sennilega mest að segja ef rækta á hraustar og heilbrigðar plöntur. Ef plöntunum líður vel og jarðvegurinn hæfir þeim geta þær, meira eða minna, varist bæði sjúkdómum og átvöglum. Og eg umhverfið er vinsamlegt, þá hænir þú að fleiri sem nærast á plágukvikindunum.
Listi yfir smádýr og efni sem nota má í gróðurhúsum.
Kalíumsölt (Kaliumoleat) skordýrasápa er notuð gegn blaðlús, trjámaðki og fleiri skordýrum innan dyra og utan. Vörumerkið heitir Bio-Dux.
Mycostop er gerill geislasvepps sem notaður er gegn rótarsveppum á gúrkum og ýmsum blómum.
Amblyseius cucumeris er ránmaur sem notaður er gegn tripsi.
A. degenerans þolir betur þurrt loftslag.
Aphelinus abdominalis er sníkjuvespa sem ræður við ýmsar blaðlúsategundir.
Aphidius colemani, sníkjuvespa gegn venjulegri blaðlús.
Aphidoletes aphydimyza er mþtegund en lirfa hennar étur blaðlþs.
Encarsia formosa er sníkjuvespa sem notuð er gegn hvítflugu.
Hypoaspis miles, ránmaur gegn svarðmþi og tripsi.
Macrolophus calginosus er rántíta sem er notuð gegn tripsi og fleiru. Sama á við um Orius laevigatus og O. Majusculus.
Phytoseiulus persimilis er ránmaur sem á að gagnast vel gegn spunamaur.
Steinernema carpocapsae og S. feltiae eru þráðormar sem notaðir eru gegn svarðmþi og ranabjöllu.
Birt:
Tilvitnun:
Þorsteinn Úlfar Björnsson „12. kafli - Aldin grænmeti og fánan“, Náttúran.is: 10. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/12-kafli-aldin-grnmeti-og-fnan/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. mars 2014