Vottunarstofan Tún hefur staðfest að fyrirtækið Bústólpi ehf. uppfylli kröfur um lífrænar aðferðir við framleiðslu á kjarnfóðri. Vottorð þessa efnis verður formlega afhent í vinnslustöð fyrirtækisins á Akureyri þann 14. desember 2010.

Bústólpi ehf. er fyrsta sérhæfða kjarnfóðurfyrirtækið hér á landi sem hlýtur vottun til lífrænnar framleiðslu á kjarnfóðri.

Með vottun Túns er staðfest að Bústólpi ehf. noti viðurkennd hráefni við framleiðslu á hinu vottaða kjarnfóðri, að lífræn hráefni séu á öllum stigum vinnslu aðgreind öðrum efnum og afurðum, að aðferðir við úrvinnslu og blöndun samræmist reglum um lífræna framleiðslu, og að gæðastjórnun, skráningar og merkingar uppfylli settar kröfur.

Sjá; Vottað lífrænt - Tún.

Fyrirtækið Bústólpi ehf. er löngu landsþekkt fyrir framleiðslu á fóðri fyrir nautgripi, sauðfé, svín, hross og alifugla, sem selt er í lausu og í sekkjum. Auk þess selur fyrirtækið sáðvöru, áburð og fleiri rekstrarvörur til landbúnaðar.

Bústólpi ehf. hefur nú hafið nýtingu á lífrænu íslensku byggi til framleiðslu á kjarnfóðri fyrir lífræna nautgriparækt.
„Þessi vottun hefur mikla þýðingu fyrir Bústólpa þar sem hún gerir fyrirtækinu kleift að þjónusta einnig þá vaxandi sprotagrein sem lífrænn landbúnaður er“, segir Hólmgeir Karlsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Lífræn framleiðsla á Íslandi
Hér á landi stunda nú að jafnaði á milli 60 og 70 aðilar vottaða lífræna ræktun, vinnslu lífrænna hráefna og söfnun náttúruafurða. Þessir aðilar framleiða nokkur hundruð tegundir vottaðra afurða fyrir markað hérlendis og í vaxandi mæli einnig til útflutnings.

Framleiðsla á vottuðu lífrænu kjarnfóðri er forsenda þess að búfjárrækt sem byggir að hluta eða öllu leyti á aðfengnum fóðurefnum geti tileinkað sér lífrænar aðferðir.

Vottaðar lífrænar afurðir og náttúruafurðir hafa þá sérstöðu á markaði að allur ferill þeirra, frá ræktun eða söfnun hráefna, til pökkunar í neytendaumbúðir eða afhendingar í lausu, er undir eftirliti óháðs aðila, þ.e. vottunarstofu sem fylgist með því að uppruni og meðferð afurðanna sé í samræmi við alþjóðlegar og íslenskar kröfur um lífræna framleiðslu.

Vottunarstofan Tún hóf vottun lífrænna afurða á Íslandi árið 1996 og í Færeyjun árið 2006. Síðan þá hafa yfir 80 bændur og fyrirtæki hlotið vottun. Auk þess vottar Tún nú framleiðslu átta fyrirtækja á náttúruvörum og aðföngum til lífrænnar framleiðslu.

Sjá yfirlit yfir aðila með lífræna vottun frá Túni hér á Grænum síðum.

Birt:
Dec. 13, 2010
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Bústólpi ehf. fær vottun til lífrænnar framleiðslu á kjarnfóðri til lífrænnar búfjárræktar“, Náttúran.is: Dec. 13, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/12/13/bustolpi-ehf-faer-vottun-til-lifraennar-framleidsl/ [Skoðað:June 20, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: