Skipulagsstofnun hefur gefið álit sitt um mat á umhverfisáhrifum Kröfluvirkjunar II og Þeistareykjavirkjunar. Jafnframt var gefið álit um háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum, álver á Bakka við Húsavík og sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum allra þessara fjögurra framkvæmda.

Með áliti Skipulagsstofnunar er mikilvægur áfangi að baki vegna mögulegrar nýtingar á háhitasvæðum norðaustanlands. Álitið samræmist stefnu Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf, um að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti til atvinnuuppbyggingar.

Landsvirkjun lagði fram til mats á umhverfisáhrifum 150 MW í Kröfluvirkjun II og Þeistareykir ehf. 200 MW virkjun á Þeistareykjum á þeim grunni að það væri aflgeta sem svæðin gætu staðið undir á sjálfbæran hátt. Afstaða þessi er grundvölluð á mati ÍSOR frá árinu 2009. Hins vegar er ljóst að endanleg vinnslugeta fæst ekki staðfest fyrr en fyrir liggur reynsla á nýtingu svæðanna.

Landsvirkjun leggur áherslu á að fyrirtækið mun eingöngu semja um sölu á orku hverju sinni sem hægt er að tryggja afhendingu á. Vegna þessa er ljóst að virkjanirnar verða byggðar í áföngum, miðað við vitneskju um sjálfbæra nýtingu. Mikilvægt er að væntanlegir kaupendur séu meðvitaðir um þá óvissu sem fylgir orkuöflun á jarðhitasvæðum.

Næstu skref af hálfu Landsvirkjunar er að afla tilskilinna leyfa til að halda áfram rannsóknum á orkugetu svæðanna. Í kjölfarið verður sótt um virkjunarleyfi, framkvæmdaleyfi og önnur nauðsynleg leyfi fyrir Þeistareykjavirkjun og Kröfluvirkjun II hjá viðkomandi stjórnvöldum og sveitarfélögum.

Sjá álit Skipulagsstofnunar.

Birt:
Dec. 1, 2010
Höfundur:
Landsvirkjun
Uppruni:
Landsvirkjun
Tilvitnun:
Landsvirkjun „Viðbrögð Landsvirkjunar við áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Kröfluvirkjunar II og Þeistareykjavirkjunar“, Náttúran.is: Dec. 1, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/12/01/vidbrogd-landsvirkjunar-vid-aliti-skipulagsstofnun/ [Skoðað:Dec. 11, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: