Dökk framtíðarmynd er dregin upp á loftslagsráðstefnunni í Mexíkó: Á hverju ári deyja nú þegar 350 þúsund vegna hlýnunar jarðar.

Á hverju ári láta 350 þúsund manns lífið þar sem dánarorsök má beint rekja til loftslagsbreytinga. Börn í Afríku- og Asíuríkjum eru í meirihluta þeirra sem deyja. Eftir tíu ár gæti þessi tala látinna verið komin upp í eina milljón á ári.

Þessar óhugnanlegu tölfræðiupplýsingar er að finna í skýrslu sem lögð var fram á loftslagsráðstefnunni í Cancún sem nú stendur yfir en skýrslan heitir Climate Vulnerability Monitor 2010, útgefin af rannsóknarmiðstöðinni DARA í Madrid á Spáni. Eins og nafið gefur til kynna hafa vísindamenn DARA kortlagt þá staði jarðar þar sem breytingar á loftslagi geta haft alvarlegustu afleiðingarnar.

Þegar er komið í ljós að fátækustu ríki heims verða fyrir mestu tjóni vegna hlýnunar jarðar. Fram kemur í skýrslunni að það komi til með að breytast á næstu tveimur áratugum og þá verða nánast allar þjóðir fyrir neikvæðum afleiðingum loftslagsbreytinga. Við blasir t.d. að fjölgun vannærðra barna gæti numið 17 milljónum og að einhverjir afrískir bændur þyrftu að gefa landbúnað upp á bátinn vegna hlýnunar.

Á ráðstefnunni í Mexíkó reyna fulltrúar þjóða að sammælast um skref til að draga úr hlýnun jarðar. Ráðstefnunni lýkur á föstudag.

Morgunblaðið segir frá því í morgun að gerð sé tillaga um 60 milljóna kr. tímabundið framlag á fjárlögum næsta árs til tveggja ára vegna verkefna á sviði loftslagsmála til aðstoðar þróunarlöndum á árunum 2011-2012. Meirihluti fjárlaganefndar leggur þetta til en framlagið er í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 9. nóvember sl. og er rökstutt með því að meðal iðnríkja sé breið samstaða um að stórauka þurfi fjármögnun til aðgerða til að draga úr loftslagsbreytingum og aðstoða fátækustu þróunarríkin við að takast á við afleiðingar þeirra.

Sjá: http://archive.constantcontact.com/fs049/1102056362425/archive/1104016477299.html.

Ljósmynd: Börn, fórnarlömb flóða í Mozambiqueí frá www.icfdonat.net

Birt:
8. desember 2010
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Á hverju ári deyja nú þegar 350 þúsund vegna hlýnunar jarðar“, Náttúran.is: 8. desember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/12/08/hverju-ari-deyja-nu-thegar-350-thusund-vegna-hlynu/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: