Í dag, kl.14:30, er blásið til samstöðuaðgerðar við níumenningana í Alþingi við Austurvöll en í dag miðvikudaginn 8. desember, eru liðin tvö ár frá því að hópur fólks heimsótti Alþingi, með það fyrir augum að halda upp á þingpalla og lesa yfirlýsingu fyrir þingheim.

Eins kunnugt er eru afleiðingarnar m.a. þær að níu manneskjur úr þessum u.þ.b. þrjátíu manna hópi hafa verið ákærðar á grundvelli 100. greinar hegningarlaganna, sem lýtur að árásum á sjálfræði Alþingis, og eiga nú yfir höfði sér þunga fangelsisdóma. Það er ekki ofmælt að kalla ákærurnar pólitískar ofsóknir og við þeim hefur verið brugðist á ýmsan hátt. Meðal annars fór af stað undirskriftalisti þar sem þú, við og rúmlega sjöhundruð aðrir, skrifuðum undir „samsekt“ okkar og kröfðumst þess að vera ákærð ásamt nímenningunum. Listinn var svo afhentur Ástu Ragnheiði forseta Alþingis í sumar, og hefur ekki spurst til hans síðan.

Við sem undir þetta bréf ritum myndum, ásamt fleirum, n.k.óformlegan stuðningsmannahóp við nímenningana, og höfum á prjónunum að boða til samstöðuaðgerða með þeim, nú þegar tvö ár eru liðin frá inngöngunni, og styttist í að aðalmálsmeðferðin hefjist loks.

Tvennskonar stuðningsaðgerðir eru í gangi:

Um síðustu helgi og aftur í dag er í gangi ljósmyndaverkefni þar sem fólki gefst kostur á að lýsa yfir stuðningi við nímenningana með því að sitja fyrir á myndum með skilti sem á er ritað eigin stuðningsyfirlýsing. Myndirnar eru settar á stuðningsvefsíðuna  www.rvk9.org og fólk er jafnframt hvatt til að dreifa sinni mynd sem víðast, til að mynda með því að nota hana sem prófílmynd á Facebook. Dæmi um stuðningsyfirlýsingar sem fólk hefur þegar notað í þessu verkefni eru: „Ég styð níumenningana“, „Kærðu mig líka Ásta Ragnheiður“ og „Við réðumst öll á Alþingi“.

Þau sem vilja taka þátt og sýna samstöðu með þessu móti geta sent inn sína eigin mynd á netfangið samstada.rvk9@gmail.com, eða mætt í myndatöku á Kjarvalsstöðum milli kl.14:00 og 17:00 í dag. Á staðnum verður pappír og efni til að rita eigin skilaboð, ásamt plakötum sem aðrir hafa þegar gert.

Fyllum þingpallana og nýtum stjórnarskrárbundinn rétt til viðveru á Alþingi, sýnum að við sættum okkur ekki við ávirðingarnar sem nímenningarnir eru bornir. Mætum öll og gefum skýr skilaboð, níu manneskjur geta ekki tekið skellin fyrir heila hreyfingu. Styðjum nímenningana, þau eru níu af okkur.

Ljósmynd: Gunna og Einar elska frelsið, náttúruna og níumenningana!

Birt:
8. desember 2010
Tilvitnun:
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson „Tvö ár frá handtöku níumenninganna “, Náttúran.is: 8. desember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/12/08/tvo-ar-fra-handtoku-nimenninganna/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. desember 2010

Skilaboð: