Ályktanir frá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands
Náttúruverndarsamtök Suðurlands lýsa yfir fullum stuðningi við “Sól í Flóanum”, áhugahóp um verndun Þjórsár og Urriðafoss.
Samtökin eru reiðubúin til að styðja við starfsemi áhugahópsins með fjárframlagi vegna fundarhalda eða með öðrum hætti eftir því sem hentar.
Ályktun frá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands
Náttúruverndarsamtök Suðurlands fagna samþykkt hreppsnefndar Flóahrepps frá 13. júní 2007, um að hafa Urriðafossvirkjun ekki inni á tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins. Samþykktin er mikil hvatning til þeirra sem vilja verja náttúruna við Þjórsá og hindra að orka þaðan verði seld til stóriðju. Jafnframt átelja Náttúruverndarsamtök Suðurlands harðlega viðbrögð Landsvirkjunar við ákvörðun hreppsnefndar um drög að skipulagstillögu án virkjunar. Landsvirkjun hafði sama rétt og aðrir hagsmunaaðilar til að gera athugasemdir sínar við auglýsta tillögu hreppsnefndar, sem er lýðræðisleg viðurkennd aðferð til mótmæla. Afskipti Landsvirkjunar í framhaldi af samþykkt Flóahrepps, með þeim afleiðingum að skipulagstillögurnar eru nú orðnar tvær, eru í hæsta máta óeðlileg. Gylliboð Landsvirkjunar til hreppsnefndar Flóahrepps um að bæta almannaþjónustu fyrir virkjun er fáheyrð ósvífni af fyrirtæki í eigu ríkisins.
Náttúruverndarsamtök Suðurlands fagna samstöðu íbúa Flóahrepps um verndun Þjórsár og Urriðafoss og hvetja hreppsnefndina til að standa vörð um náttúru svæðisins og hafna gylliboðum Landsvirkjunar. Náttúruperlur Íslands eiga aldrei að vera falar fyrir óafturkræfar framkvæmdir í þágu mengandi starfsemi.
Myndirnar eru frá 200 manna fjölsóttum fundi Sólar í Flóanum við Urriðafoss þ. 1. júní 2007. Ljósmyndir: Birgir Þórðarson.
Birt:
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Suðurlands „Ályktanir frá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands“, Náttúran.is: 1. júlí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/07/01/lyktanir-fr-nttruverndarsamtkum-suurlands/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. júlí 2007