Ný gjaldskrá yfir innflutnings- og bifreiðagjöld tók gildi 1. janúar. Hætt verður að miða við þyngd og vélarstærð heldur verður horft til útblásturs koltvísýrings, sem á að ýta undir notkun vistvænni bíla.

Frá og með 1. janúar ræðst það af magni útblásturs koltvísýrings (CO2), ekki vélarstærð, hversu hátt vörugjald á bifreið er. Um grundvallarbreytingu er að ræða og vonast stjórnvöld til að hún verði til þess að innflutningur á umhverfisvænum bílum aukist á kostnað bensínhákanna.

Um tíu gjaldflokka er að ræða og hækkar vörugjaldið eftir því sem bíllinn gefur frá sér meira CO2. Ekkert vörugjald er lagt á bifreiðar sem skila frá sér minna en 80 grömmum af CO2 á hvern ekinn kílómetra, en rafmagns- og vetnisbílar falla í þennan flokk, svo dæmi séu tekin. Í næsta flokki þar fyrir ofan eru bílar sem skila á bilinu 80 til 100 g CO2/km og er lagt á þá tíu prósenta vörugjald. Þannig gengur þetta koll af kolli uns að dýrasta flokknum er komið en í honum eru bílar sem losa yfir 250 g CO2/km. Í ár verða gjöldin á þá 52 prósent, 59 prósent árið 2012 og loks 65 prósent frá og með 2013.

Þetta þýðir að sumir bílar lækka í verði á meðan aðrir hækka. Hummer-jeppar koma til dæmis til með að verða dýrari, og þarf það ekki að koma nokkrum á óvart. Tvinnbílar, eins og Toyota Prius, og smáir dísilbílar lækka aftur á móti í verði. Gert er ráð fyrir tveggja ára aðlögunartímabili með afslætti á útblástursfrekari bíla og taka breytingarnar ekki gildi að fullu fyrr en árið 2013.

Bifreiðagjöld verða innheimt eftir sama fyrirkomulagi, og miðast einnig við útblástur koltvísýrings. Enn og aftur koma sparneytnari bílar betur út, en ljóst er að breytingin getur reynst byggingariðnaðinum erfið, sem og öðrum atvinnugreinum sem treysta á þungavinnuvélar og stærri bíla.

Grafík: 3 litlir bílar, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.

Birt:
5. janúar 2011
Höfundur:
Tryggvi
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Tryggvi „Gjöld lækka á vistvænum bílum“, Náttúran.is: 5. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/05/gjold-laekka-vistvaenum-bilum/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: