KC Tran, forstjóri Carbon Recycling International hlaut í gær Cobb-verðlaunin, sem veitt eru Bandaríkjamanni sem styrkt hefur tengslin milli Íslands og Bandaríkjanna. Hann segir verðlaunin mikilvæga viðurkenningu á verkefni sínu, sem er að lækka eldsneytisverð.

"Langtímamarkmið Carbon Recycling International er að bjóða eldsneyti á einn dal lítrann, eða tæpar áttatíu krónur," segir Tran en eins og flestum er kunnugt er verð á hefðbundnu eldsneyti rúmlega 170 krónur um þessar mundir. Ef fyrirtækinu tekst að bjóða svona ódýrt eldsneyti eru það stórfréttir fyrir sligaða Íslendinga og vörubílstjóra. "Við erum samkeppnishæfir ef heimsmarkaðsverð á olíu er á bilinu fimmtíu til sextíu dalir á tunnu. Verðið nú er 138 dalir og flestir spá því að það muni hækka enn frekar," segir Tran.

Lykillinn að möguleikum Carbon Recycling International er ný framleiðsluaðferð sem breytir koltvísýringi í metanól. Metanólinu er síðan blandað við bensín í mismiklu magni. "Í fyrstu verður hlutfallið aðeins tæp fimm prósent en mun síðan verða allt að 85 prósentum," segir Tran.

Fyrirtækið er að miklu leyti í eigu íslenskra fjárfesta og er ætlunin að byggja fjórar verksmiðjur hérlendis en herja síðan á erlenda markaði. Tran telur að fyrirtækið geti orðið virkilega stórt á heimsmælikvarða, en hann hefur áður stýrt stórum alþjóðlegum fyrirtækjum.

Efanhagslegir hagsmunir Íslendinga af þessari framleiðslu, fyrir utan lækkandi eldsneytisverð, eru miklir að sögn Trans. "Það er mikilvægt að þessi viðskipti verði innanlands bæði til þess að stækka efnahagskerfið og eins til þess að vera ekki háðir útlendingum með eldsneyti."

Við efnahagslega kosti bætist svo umhverfisverndarsjónarmið, en þessi gerð eldsneytis er mun umhverfisvænni en flest það sem völ er á í dag.

Bandaríska sendiráðið stofnaði til Cobb Partnership Awards, en þau eru veitt þeim Bandaríkjamanni sem hefur unnið farsællega að samskiptum Íslands og Bandaríkjanna og styrkt tengslin á milli landanna hvort sem er á sviði menningar, mennta eða atvinnulífs.

Myndin er af FC Train. Fréttablaðið.
Birt:
11. júní 2008
Höfundur:
gudmundure
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
gudmundure „Vill selja eldsneytislítrann á einn dal“, Náttúran.is: 11. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/11/vill-selja-eldsneytislitrann-einn-dal/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: