Díoxínrannsókn svæfð af ráðuneytinu
Hollustuvernd ríkisins fór fram á það við umhverfisráðuneytið árið 1997 að allsherjarúttekt yrði gerð á losun díoxíns frá íslenskum fyrirtækjum og hugsanlegri mengun. Ráðuneytið varð ekki við þeirri beiðni heldur hóf vinnu við að fá undanþágu frá tilskipun ESB um takmarkanir á mengun frá helsta mengunarvaldinum – sorpbrennslum.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sorpbrennslur, sem birt var í vikunni, kemur fram að á árunum fyrir 2000 hófst mikil umræða í samfélaginu um nauðsyn þess að meta mengun af völdum díoxíns í íslenskri náttúru. Sumarið 1997 óskaði umhverfisráðuneytið eftir greinargerð frá Hollustuvernd, sem síðar rann inn í Umhverfisstofnun, um hugsanlega díoxínmengun frá málmbrennslum á Íslandi. Ástæðan var skýrsla um mælingar á mengun á norðurheimsskautssvæðinu þar sem látið var að því liggja að díoxínmengun þar gæti átt uppruna sinn að rekja hingað til Íslands.
Hollustuvernd taldi ekki ástæðu til að ætla að svo væri en hins vegar væri full ástæða til víðtækrar úttektar á menguninni frá íslenskum fyrirtækjum. Voru þar sorpbrennslur tilgreindar sem helsti mengunarvaldurinn.
Ráðuneytið óskaði eftir tillögum frá Hollustuvernd um úttekt og kostnaðaráætlun. Hann var metinn fimmtán milljónir fyrir mælingar á landi, sjó og í lofti fyrir allt landið.
Kristín Kalmansdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðunar, segir ljóst að stjórnvöldum hafi verið í lófa lagið að ganga úr skugga um hversu mikil díoxínmengunin væri frá sorpbrennslunum.
„Kostnaðurinn við það er ekki svo mikill að hann geti talist fyrirstaða. Ef það hefði verið gert fyrir árið 2000, þegar slík rannsókn á landsvísu var mest til umræðu, hefði það getað breytt áherslum umhverfisyfirvalda. Það kemur hins vegar fyrst í ljós árið 2011 hvort við sluppum fyrir horn eða hvort við þurfum að taka okkur verulega á og endurskoða þessa hluti frá grunni."
Samkvæmt gögnum frá heilbrigðisyfirvöldum lognaðist umræða um nauðsyn díoxínmælinga út af á aldamótaárinu. Þess í stað lögðu umhverfisyfirvöld ofuráherslu á að sækja um undanþágu frá tilskipun ESB um sorpbrennslu, en gögn sýna að ráðuneytið hóf þá vinnu árið 1997; á sama tíma og Hollustuvernd biðlaði til stofnunarinnar um rannsókn á díoxínmengun.
Það er mat Ríkisendurskoðunar að ráðuneytið hafi brugðist í málinu.
Birt:
Tilvitnun:
Svavar „Díoxínrannsókn svæfð af ráðuneytinu“, Náttúran.is: 16. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/16/dioxinrannsokn-svaefd-af-raduneytinu/ [Skoðað:4. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.