Dagur umhverfisins og sagan
Dagur umhverfisins á Íslandi á sér ekki ýkja langa sögu. Tilurð hans var með þeim hætti að þann 25. apríl árið 1999 tilkynnti ríkisstjórn Íslands, að ákvörðun hafi verið tekin um að tileinka „umhverfinu“ einn dag ár hvert og var dagsetningin ákveðin 25. apríl fyrir valinu. Það er fæðingardagur Sveins Pálssonar en hann var fyrstur íslendinga til að nema náttúruvísindi og lauk námi í frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1791. Hann var einna fyrstur til að hvetja til aðgerða gegn skógareyðingu á Íslandi og orðaði þá hugsun sem nú kallast sjálfbær þróun.
Umhverfisráðuneytið veitir umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn á Degi umhverfisins ár hvert. Sjá þá sem hlotið hafa Kuðunginn hér á Grænum síðum.
Til upprifjunar:
Náttúran.is var opnuð af þáverandi umhverfisráðherra Jónínu Bjartmars, á Degi umhverfisins árið 2007, við einfalda umhverfisdagsathöfn á Kjarvalsstöðum. Það ár fékk Bechtel, undirverktaki við byggingu Kárahnjúkavirkjunar, Kuðunginn. Mörgum þótti það einkennilegt val enda fyrirtækið Bechtel ekki einungis frægt fyrir að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum.
Á Degi umhverfisins árið 2008 flykktust umhverfisverndarsinnar úr Samfylkingunni á byggingarsvæði álversins sem fyrirhugað var að byggja í Helguvík í brjálærinu, og gróðursettu tvö tré. Eitt trjánna var nefnt Össur og hitt Þórunn. Hugmyndin var auðvitað að gagnrýna framkvæmdina og kalla þáverandi iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson og umhverfisráðherra Þórunni Sveinbjarnardóttur til ábyrgðar. Sjá nánar í grein um Dag umhverfisins 2008. Umhverfisráðuneytið stóð fyrir sýningunni Vistvænn lífsstíll í Perlunni þar sem fjöldi fyrirtækja tók þátt og kynnti starfsemi sína. Þar á meðal Náttúran.is. Þá hlaut hreingerningarfyrirtækið Sólarræsting Kuðunginn. Sólarræsting var fyrsta hreingerningarfyrirtækið á Íslandi til að fá Svansvottun.
Á Degi umhverfisins árið 2009, þann stutta tíma sem Kolbrún Halldórsdóttir sat í stóli umhverfisráðherra, stóð umhverfisráðuneytið fyrir hátíðardagskrá í Iðnó undir yfirskrfitinn „Græn störf, vistvænar áherslur í atvinnuuppbyggingu“. Fyrirtækin Marorka, Saga Medica, Gavia Travel, HBT Orkusparandi tækni og Prokatín héldu fyrirlestra um umhverfisáherslur í starfsemi sinn. Þetta árið hlaut Íslenska Gámafélagið umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn.
Í fyrra hélt Náttúran.is upp á þriggja ára afmæli sitt með opnun nýs vefs sem umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir opnaði við hátíðahöld umhverfisráðuneytisins í Þjóðmenningarhúsinu. Þá hlaut Prentsmiðjan Oddi Kuðunginn en hafði þá nýlega fengið Svansvottun. Prentsmðjan Oddi er önnur prentsmiðjan á Íslandi til að fá Svansvottun en áður fékk prentsmiðjan Hjá GuðjónÓ Svansvottun níu árum áður. Prentsmiðjan Hjá GuðjónÓ hefur þó aldrei hlotið Kuðunginn. Auk Kuðungsins var í fyrsta sinni veitt ný viðurkenning, Náttúruverndarviðurkenning Sigriðar í Brattholti og var Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur og uppfræðari með meiru fyrir valinu.
Í ár er flestum hátiðahöldum Dags umhverfisins slegið á frest til 28. apríl vegna þess að hann kemur nú upp á öðrum í Páskum. Dagskrá umhverfisráðuneytisins verður haldin í Þjóðmenningarhúsinu á fimmtudagsmorguninn 28. apríl og hefst kl. 10:00 en þá mun koma í ljós hver hlýtur Kuðunginn og Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti í ár.
Ljósmynd: Birki, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Dagur umhverfisins og sagan“, Náttúran.is: 25. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/25/dagur-umhverfisins-og-sagan/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.