Þann 17. mars s.l. birtu átta starfsmenn háskólastofnana og líftæknifyrirtækja varnargrein í Morgunblaðinu fyrir erfðatækni. Ekki fer á milli mála að þeir taka eindregna stöðu með henni, á hverju sem gengur, enda eru þeir í réttu liði: Hinn heilagi sannleikur um áhættuleysi erfðatækni er “samdóma álit þeirra vísindamanna sem gerst þekkja”. Og ekki er slegið af í afskriftum ritrýndra vísindagreina sem gefa vísbendingar um alvarlega ágalla erfðatækninnar og neikvæð áhrif erfðabreyttra lífvera, enda hafi “flestar þeirra ... verið harðlega gagnrýndar”. Undir yfirskini vísindaraka, þjónustu í krafti þekkingar og m.a.s. hlutleysis gera greinarhöfundar enn eina tilraun til að þagga niður vísindarannsóknir sem eru óhagfelldar sjónarmiðum þeirra og líftækniiðnaðarins. Látum vera þótt þekkingarþráin verði seint óhlutdræg, en þöggun er óþægilegur og óþarfur fylgifiskur fræðasamfélagsins.

Krafan um afmörkun erfðabreyttra lífvera við lokuð kerfi er greinarhöfundum þyrnir í augum.  En hún er almennari en þeir vilja vera láta. Bændur víða um heim vilja bregðast við óskum vaxandi markaða um afurðir án erfðamengunar. Skiptir þá engu hvort landbúnaðurinn kallast hefðbundinn eða lífrænn. Vísasta leiðin til að valda þeirri starfsemi tjóni er útiræktun erfðabreyttra plantna, sem reynsla og rannsóknir sýna að veldur hvarvetna víðtækri mengun á aðliggjandi ræktunarsvæðum og vistkerfum. Hafi gögn um það farið framhjá greinarhöfundum hljóta þeir að fagna því að einhver annar beri þau á borð fyrir þingheim því nú sem fyrr er þörf “allrar þeirrar þekkingar sem til er á hverjum tíma” svo notuð séu þeirra eigin orð.

En hver er sú þekking greinarhöfunda á framleiðni erfðabreyttra plantna að ástæðu gefi til ályktana um að hún muni bjarga heiminum frá hungri? Þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur engin helstu erfðabreyttu nytjaplantnanna (soja, maís, repja og bómull) skilað aukinni uppskeru heldur þvert á móti, einkum eftir fyrstu ræktunarárin þegar skordýr og illgresi taka að mynda ónæmi fyrir erfðabreytingunum. Og ekki er það jörð vorri þóknanlegt að þurfa að auka verulega notkun eiturefna þegar frá líður eins og raunin hefur orðið á með erfðabreytta ræktun (sbr. t.d. Benbrook 2009). Er þá ekki tekið að bætast nokkuð í kostnað við upptöku hinnar undursamlegu tækni?

Ef framleiða þarf “enn meiri mat án þess að ganga á gæði jarðarinnar frekar en orðið er” þá er einkar tilfinnanlegt ef ekki má – eins og áttmenningarnir virðast ætlast til – rýna betur í erfðatæknina sjálfa, úr því að hugsanlega má skýra 6-10% minni uppskeru af erfðabreyttu soja (samanborið við hefðbundið) að talsverðu leyti með þeirri röskun sem erfðabreytingin sjálf veldur í erfðamengi plöntunnar (sbr. Elmore o.fl., Agronomy J. 93).

Ekki er nóg með að styr standi um notkun erfðatækni í landbúnaði heldur klýfur hún fræðasamfélagið í herðar niður. Sá klofningur er að hluta til vísindalegs eðlis, en skýrist einnig af hagsmunum. Vísindamenn og stofnanir ótengd líftæknifyrirtækjum eru líklegri en aðrir til gagnrýnnar umfjöllunar um erfðabreyttar lífverur. Frá þeim hafa t.d. borist nær allar helstu ritrýndu vísindarannsóknir um skaðleg áhrif erfðabreyttra afurða á heilsufar tilraunadýra – sem um leið er vísbending um skaðleg áhrif útiræktunar og neikvæð áhrif á búfé og neytendur. Líftæknifyrirtækin hafa í beinni þjónustu sinni fjölda erfðavísindamanna, auk þess fjölda sem nýtur stuðnings fyrirtækja á grundvelli samstarfssamninga og styrkja. Viðhorf líftæknifyrirtækja og vísindamanna sem starfa innan þeirra eða í nánu samstarfi við þau mótast af þeim hagsmunum að frelsi til þróunar, framleiðslu og sölu á afurðum erfðatækni sé sem mest og að lagareglum sé mjög í hóf stillt. Þeir sem til þekkja í valdamiðstöðvum Brüssel og Washington vita gjörla um það ógnarafl sem líftækniiðnaðurinn beitir löggjafarvald, framkvæmdavald og embættismenn ríkja og ríkjasambanda í þessu skyni.

Þegar vísindasamfélagið er svo þverklofið sem raun ber vitni á almannavaldið aðeins einn kost og hann er sá að beita varúðarreglunni. Því ber raunar skylda til þess sbr. ákvæði 1. gr. laga um erfðabreyttar lífverur þess efnis að framleiðsla og notkun erfðabreyttra lífvera skuli fara fram “á siðferðilega og samfélagslega ábyrgan hátt í samræmi við varúðarregluna og grundvallarregluna um sjálfbæra þróun.” Kjarni varúðarreglunnar er sá, að sé hætta á óafturkræfu tjóni er skortur á vísindalegri fullvissu ekki talin gild ástæða fyrir því að fresta aðgerðum gegn umhverfisspjöllum. Það ber síst af öllu vott um djúpúðga túlkun varúðarreglunnar að hvetja löggjafann til að hámarka frelsi til sleppingar erfðabreyttra lífvera í lífríki Íslands en stinga um leið undir stól tugum ritrýndra rannsókna sem benda til gríðarlegrar áhættu þess fyrir umhverfi og heilsufar. Enn vaknar sú áleitna spurning hvaða hagsmunum slík þöggun þjónar. Áróður fræðimanna fyrir alls kyns hæpnum lausnum í aðdraganda hrunsins er þekktur, en trúir því nokkur að slíkt hafi horfið úr samfélagi okkar með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis?

Höfundur er framkvæmdastjóri.

Samklippa: Varúð erfðabreytt, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
19. apríl 2011
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Áróður fræðimanna fyrir erfðatækni“, Náttúran.is: 19. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/19/arodur-fraedimanna-fyrir-erfdataekni/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. júní 2011

Skilaboð: