Norðurskautssvæðið stendur andspænis miklum áskorunum og nú leggur Norðurlandaráð til að gert verði átak um heilbrigða og jákvæða þróun á svæðinu. Á vorþinginu á Íslandi 22. - 23. mars hvatti Norðurlandaráð ríkisstjórnir norrænu ríkjanna til að móta stefnu um norrænt samstarf á norðurskautssvæðinu.

„Stefnan getur styrkt stöðu Norðurlanda sem öflugs samnefnara fólks, umhverfis og öryggis á norðurskautssvæðinu”, segir Kimmo Sasi, forseti Norðurlandaráðs.

Þróun norðurskautssvæðanna hefur lengi verið á dagskrá Norðurlandaráðs. Nú telja menn að kominn sé tími sameiginlegrar norrænnar stefnu, sem horfir til framtíðar og er nægilega öflug til að auka áhrif norrænu ríkjanna í Norðurskautsráðinu og öðrum vettvangi sem fjallar um pólitíska þróun á svæðinu. Í viðauka við ákvarðanir vorþingsins er lagt til að ESB fái fastan áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu.

Noregur, Danmörk og Svíþjóð hafa nú farið með formennsku í Norðurskautsráðinu þrjú tímabil í röð og á þeim árum hafa sameiginleg markmið og áherslun landanna komið greinilega í ljós. Þegar Kanadamenn taka við árið 2013, telur Norðurlandaráð mikilvægt að missa ekki dampinn og hvetur því ríkisstjórnir norrænu ríkjanna til að móta sameiginlega stefnu um norrænt samstarf á norðurskautssvæðinu. Mikilvægt markmið er að tryggja réttindi frumbyggja á svæðinu.

„Norðurskautsráðið leggur mikla áherslu á umhverfismál, matvælaöryggi og sjálfbæra þróun, en réttindi frumbyggja hafa fallið í skuggann. Á þessu sviði geta norrænu ríkin látið til sín taka”, segir Sara Olsvig, fulltrúi grænlenska inúítaflokksins (IA) á danska þinginu og varamaður í flokkahópi vinstri sósíalista og grænna í Norðurlandaráði.

Fyrsta verkefnið í stefnumótunarvinnunni ætti að vera að skilgreina þau markmið sem hægt er að ná samkomulagi um, og á hvaða verkfærum er þörf á til þess að ná markmiðunum. Markmiðið með tillögunni er að styðja við og efla Norðurskautsráðið og aðra aðila sem vinna að heilbrigðri þróun á norðurskautssvæðinu.

Loftslagsbreytingarnar munu gjörbreyta aðstæðum íbúa norðurskautssvæðisins og möguleikar íbúanna til að eiga heilbrigða og innihaldsríka framtíð liggja til grundvallar þátttöku norrænu ríkjanna - mikilvægt er að finna jafnvægi milli réttinda íbúanna og nauðsynlegrar verndunar viðkvæmrar náttúru frekar en sinna vaxandi alþjóðlegum áhuga á að nýta náttúruauðlindir og flutningaleiðir sem koma í ljós þegar ísinn bráðnar.

Fróðleiksmolar:

Norðurskautsráðið

Samstarfsvettvangur þjóðríkja um málefni norðurskautssvæðisins. Aðildarríki: Kanada, Bandaríkin, Rússland, Danmörk, Færeyjar, Grænland, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð. Norðurlandaráð er meðal áheyrnarfulltrúa. Svíar fara með formennsku árið 2012, en Kanadamenn taka við árið 2013.

Norðlæga víddin (ND)

Árið 2006 breyttist norðlæga vídd ESB (1997) í samstarfsvettvang ESB, Íslands, Noregs og Rússlands. Samstarfið fer m.a. fram á sviði umhverfismála, heilbrigðismála, fjármála, samgangna og menningar.

NUUK-yfirlýsingin 12. maí 2011

Fyrsti lagalega bindandi samningurinn sem undirritaður var af utanríkisráðherrum allra ríkja í Norðurskautsráðinu. Samkomulag náðist m.a. um sameiginlegan björgunarviðbúnað á norðurskautssvæðinu og að gera Norðurskautsráðið að öflugum alþjóðlegum samstarfsvettvangi.

Ljósmynd: Grænland, NN - norden.org.

 

Birt:
23. mars 2012
Tilvitnun:
Norden - Norræna ráðherranefndin „Norræn stefna um norðurskautssvæðið - fyrir mannfólkið, umhverfið og öryggið “, Náttúran.is: 23. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/23/norraen-stefna-um-nordurskautssvaedid-fyrir-mannfo/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: