Í gömlum kínverskum fræðum er lítið eða ekkert að finna um breytingaskeið kvenna en þeim mun meira um viðhald góðrar heilsu. Taóisminn kennir að til þess að eldast heill á sál og líkama sé mikilvægt að vera í takt við þá alheimsorku sem stjórnar árstíðunum á jörðinni og stýrir mismunandi lífsskeiðum okkar gegnum lífið.

Í gamla Kína var reiknað með að fólk lifði um og yfir 100 ár við góða heilsu ef farið væri eftir náttúrulögmálunum og lifað í samræmi við þau. En ef lifað er á skjön við lögmálin, brennum við hraðar upp, líkt og kerti við opinn glugga.

Við getum skoðað lífið sem ferli eða ferðalag í gegnum elementin fimm:

  • Vorið – (Viður) – þegar líf vaknar fullt af þrótti og orku – æskan.
  • Sumar – (Eldur) – þegar allt er í fullum vexti og blóm að springa út - unglingsárin – gelgjuskeiðið.
  • Síðsumar – (Jörð) – þegar ávextir ná fullum þroska – fullorðinsárin, fjölskyldumyndun, barnsfæðingar.
  • Haust – (Málmur) – þegar allri uppskerunni er safnað saman og komið í hús. Næði til að leita inn á við og flokka það sem máli skiptir frá hisminu, tími uppgjörs – breytingaskeiðið.
  • Vetur – (Vatn) – það ríkir kyrrð í náttúrunni, elli og viska. Til þess að kona geti notið vetursins í lífi sínu þarf hún að hafa haldið uppskeruhátíð haustsins og þakkað fyrir það sem lífið hefur fært henni fram að þessu.

Konan er eina spendýrið sem fer í gegnum breytingaskeiðið. Öll önnur spendýr geta átt afkvæmi fram á dauðadag. Þetta er snjöll leið náttúrunnar til að lengja líf okkar, en okkar að sjá til þess að við séum heilsufarslega það vel á okkur komnar að við getum notið þess. Það gerum við með því að borða hollan mat, hreyfa okkur og hvíla svo nokkuð sé nefnt. Það sem við borðum og drekkum hefur gríðarlega mikið að segja um hvernig okkur líður andlega jafnt sem líkamlega. Í náttúrunni má finna mat sem inniheldur estrogen og prógesteron, sem getur komið að gagni á meðan líkaminn er að venjast minnkandi hormónamagni. Soya afurðir svo sem tofu, miso og soyabaunir innihalda phytoestrols sem hefur svipaða mólíkúl uppbyggingu og estrogen, og hefur verið notað til að létta einkenni breytingaskeiðs án aukaverkana. Prógesteron má meðal annars fá úr eftirtöldum matvælum: anis, sellery, ginseng og alfalfa. Vegna minnkandi framleiðslu estrogens hægir á kalsíum upptöku og því ber að forðast kaffi, gosdrykki, mikið unninn mat, reykingar og áfenga drykki. Matur sem inniheldur kalsíum er grænt laufgrænmeti: spínat, brokkolí og steinselja. Einnig er gott að borða fisk svo sem sardínur. Hnetur, sesamfræ, möndlur, fíkjur og ef til vill mjólkurafurðir í hófi. Líkamsæfingar eins og jóga og Tai-chi eru góðar þar sem þær vinna vel með líkama, huga og sál.

Þegar líður á ævina dregur úr orku ýmissa líffæra. Það er svo undir lífsstíl hvers og eins komið hvaða líffæri eða orkurásir eiga undir högg að sækja. Einkenni eins og höfuðverkur, svitakóf, svefnörðugleikar, minnkandi eða óreglulegar blæðingar, rugl á egglosi, þunglyndi og kvíði fara að gera vart við sig, svo eitthvað sé nefnt. Ekki má heldur gleyma tilfinningalega þættinum s.s. álagi, kvíða, reiði, hræðslu og sorg ásamt öðrum sálrænum áföllum. Allt hefur sitt að segja í því hvernig konur upplifa breytingaskeiðið og til hvaða ráða þær grípa til að lina mismikil einkenni.

Birt:
27. nóvember 2010
Tilvitnun:
Dagmar J. Eiríksdóttir „Lítil grein um breytingarskeiðið“, Náttúran.is: 27. nóvember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/11/27/litil-grein-um-breytingarskeidid/ [Skoðað:3. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: