Setningarávarp Ólafur Páll Jónsson á náttúruverndarþingi náttúru- og umhverfisverndarsamtaka á Íslandi þ. 24.apríl sl.

Umhverfisráðherra, góðir gestir, mér er einkar ljúft að bjóða ykkur velkomin á náttúruverndarþing náttúruverndarsamtaka á Íslandi.

Yfirskrift þingsins er „Náttúruvernd á krossgötum“. Það er vissulega rétt að náttúruvernd er á krossgötum þessa daga – eins og raunar öll umræða um gildismat. Hrun fjármála- kerfisins, og með því hrun þess oflátungsháttar sem var einkennandi seinustu áratugi, hefur opnað fyrir nýja umræðu um hvað skiptir máli í mannlegri tilveru og í sambúð manns og náttúru.
Við stöndum líka á krossgötum af öðrum ástæðum. Vísindamenn um heim allan hafa komist að þeirri niðurstöðu að það gefist enginn frestur á því að bregðast við þeim breytingum sem lifnaðarhættir fólks, einkum á Vesturlöndum, hafa valdið á lofthjúpi gjörvallrar jarðarinnar.

Loks stöndum við á krossgötum vegna þess að náttúruvernd er ævinlega staðsett á krossgötum. Allt starf undir merkjum náttúruverndar felur í sér að mannlegum kjörum er fundinn farvegur í náttúrulegu umhverfi. Mannlegar þarfir og gildismat skilgreina einn mælikvarða slíkrar iðju, náttúran sjálf, ferlar hennar og undur, leggja til annan mælikvarða. Þessir mælikvarðar eru oft ósamhljóða, ekki vegna þess að þannig hljóti það að vera heldur vegna þess að þannig er það í raun. Upplýst rannsókn á mannlegum þörfum og gildismati – rannsókn sem gerir sjálfbæra þróun í senn að forsendu og markmiði – legði vissulega til mælikvarða sem væri samhljóða þeim mælikvarða sem náttúran sjálf leggur til. Staðreyndin er hins vegar sú að vegna nærsýni og glámskyggni er sá mælikvarði sem Íslendingar sem þjóð leggja á þarfir og gildismat fjarri því að vera samhljóða mælikvarða náttúrunnar. Við erum ekki verri en aðrar þjóðir hvað þetta varðar, en við erum heldur ekki betri.

Eitt af því sem hefur lengi þvælst fyrir okkur sem höfum unnið að náttúruvernd er eignarrétturinn. Mikilvægi eignarréttarins í umræðu um náttúruvernd birtist með skýrum hætti þegar tugir ferkílómetra af stórkostlegu landi voru lagðir undir uppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar. Það birtist líka með skýrum hætti þegar ekið er austur undir Ingólfsfjall. Þar má sjá hrikaleg náttúruspjöll, malarnáma sem byrjaði í skriðunum við rætur fjallsins hefur nú breytt úr sér og teygt sig uppá fjallið svo ásýnd þess er ein hryggðarmynd. Það birtist líka með átakanlega skýrum hætti í umræðu um nytjastofnana í hafinu í kringum landið. Sú umræða er m.a. forvitnileg fyrir þær sakir að lögræðingar hafa haldið því fram að hugtakið þjóðareign gangi hreinlega ekki upp, og hagfræðingar hafa haldið því fram að það sé beinlínis skaðlegt að fiskistofnarnir séu í þjóðareign.1

Sú afstaða að hugmyndin um þjóðareign gangi ekki upp eða sé skaðleg er umhugsunarverð fyrir okkur sem vinnum að náttúruvernd undir merkjum frjálsra félagasamtaka. Hvaða tilkall höfum við til þess að skipta okkur af því hvernig gengið er um íslenska náttúru ef þessi náttúra getur ekki í neinum skilningi verið þjóðareign? Ég ætla ekki að setja á rökræður við lögfræðinga og hagfræðinga hér – ég geri það kannski seinna í betra tómi fyrir langar og þreytandi rökræður – núna langar mig að leggja til aðeins aðra nálgun við hugmyndina um eign. Ég sæki þessa hugmynd til skúringa- konunnar í Sögunni um óþekktu eyjuna eftir José Saramago. Hún sagði: „Að hrífast af einhverju er vísast besta mynd þess að eiga, og að eiga er versta mynd þess að hrífast af einhverju“.2

Ég held að til að ná áttum á þeim krossgötum þar sem við erum stödd verðum við að skilja vitið í orðum skúringakonunnar. Í apríl árið 1946 skrifaði Georg Orwell stutta grein þar sem berlega kemur í ljós að hann hafði skilið vitið í orðum skúringakonunnar, þótt orð hennar væru þá enn ósögð. Eftir að hafa lýst nokkrum undrum vorsins spyr Orwell:

Er það syndsamlegt að hafa ánægju af vorinu og öðrum árstíðarbreytingum? Svo það sé nákvæmar orðað: Er það ámælisvert frá pólitísku sjónarmiði, þegar við erum öll andvarpandi eða ættum alltjent að vera það, í hlekkjum hins kapítalíska kerfis, að benda á að oft og iðulega er lífið einmitt þess vert að lifa
1 Sjá t.d. Birgir Tjörvi Pétursson (ritsj.), Þjóðareign: Þýðing og áhrif stjórnarskrárávæðis um þjóðareign á auðlindum sjávar, Bókafélagið Ugla í samvinnu við RSE, Reykjavík 2007. 2 José Saramago, The Tale of the Unknown Island, A Harvest Book Harcourt Inc., London 1999, bls. 25. því vegna söngs svartþrastar, guls álmtrés í október, eða einhvers annars náttúrufyrirbæris sem kostar ekki peninga og er laust við það sem ritstjórar dagblaða á vinstri vængnum kalla stéttarsjónarmið?


Undir loka greinarinnar segir Orwell:
Ef maður getur ekki haft gleði af komu vorsins, hví skyldi hann þá vera glaður í útópíu þar sem hann þarf ekkert að leggja á sig? Hvað gerir hann við frístundirnar sem vélin mun veita honum? Mig hefur lengi grunað að verði hagræn og pólitísk vandamál okkar nokkurn tíma leyst í raun og veru, muni lífið verða einfaldara í stað þess að verða flóknara, og að þess konar gleði sem maður getur fundið við að rekast á fyrsta maríulykilinn muni verða fyrirferðarmeiri en þess konar gleði sem það veitir manni að borða ís í takt við laglínu úr Wurlitzer- glymskratta.4

Litlu síðar segir hann svo:

Hvað sem öðru líður er vorið komið, jafnvel hér í London N.1, og það getur enginn hindrað mann í að njóta þess. Það er ánægjulegt að hugleiða það.5

Þótt ýmislegt gangi á í náttúru og þjóðlífi, þá getur enginn tekið það frá okkur að vorið er komið með öllum sínum dásemdum. Hugleiðum það. Enginn fær notið vorsins með því að eiga það, en ef við lærum að njóta þess, þá getum við kannski eignast svolitla hlutdeild í því. Hið sífellda verkefni náttúruverndar er að sjá til þess að ríkidæmi náttúrunnar fái að viðhaldast. Einungis þannig getur farsæld okkar, sem náttúrulegra vera, viðhaldist.
Takk fyrir.

3 Georg Orwell, „Fáeinar hugleiðingar um hina óbreyttu körtu“, Stjórnmál og bókmenntir, íslensk þýðing eftir Ugga Jónsson, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 2007, bls. 241. 4 Orwell, „Fáeinar hugleiðingar um hina óbreyttu körtu“, bls. 242–243. 5 Orwell, „Fáeinar hugleiðingar um hina óbreyttu körtu“, bls. 243.

Höfundur er Stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Íslands og dósent í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Ljósmynd: Maríustakkur, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
11. maí 2010
Tilvitnun:
Ólafur Páll Jónsson „Krossgötur að vori“, Náttúran.is: 11. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/12/krossgotur-ad-vori/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. maí 2010

Skilaboð: