Fyrir fjölmarga markar það upphaf sumarkomu að heimsækja Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum, ofan við Hveragerði á sumardaginn fyrsta. Í ár ber þann dag uppá skírdag og nemar skólans því í páskafríi. Því var brugðið á það ráð að færa hátíðahöld þessa árs fram um nokkra daga og því munu nemendur skólans opna húsið laugardaginn 16. apríl og bjóða upp á fjölbreyttan og skemmtilegan dag frá kl. 10-18.

Hátíðardagskrá
Fundarstjórn: Björgvin Örn Eggertsson
14:00 – 14:05 Setning Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari Reykjum
14:05 – 14:25 Garðyrkjuverðlaun 2011 – Menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir
14:25 – 14:30 Tónlistaratriði
14:30 – 14:50 Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar – Forseti Ísland Ólafur Ragnar Grímsson
14:50 – 14:55 Tónlistaratriði
14:55 Kaffi og vöfflur fyrir boðsgesti og verðlaunahafa

Allan daginn geta gestir notið gróðursins í garðskálanum og bananahúsinu. Í verknámshúsi eru til sýnis verk nemenda og fyrirtæki kynna starfsemi sína.
Pottaplöntusafnið verður til sýnis. Kynning verður á námi við LbhÍ. Kaffiveitingar og markaðstorg.

Sala og kaffiveitingar
Í skólabyggingunni er markaðstorg þar sem seldar eru garðyrkjuafurðir. Allt eru þetta úrvals vörur frá íslenskum framleiðendum. Í mötuneyti skólans er boðið upp á kaffi og heimabakað meðlæti. Kaffiveitingarnar á Reykjum eru fastur liður í sumarkomunni hjá mörgum.

Kynningar - skemmtun - fræðsla
Í garðskála er að finna kynningarbása frá ýmsum aðilum. Þar er hægt að kaupa ýmsar vörur og fræðast um margt. Nemendur í blómaskreytingum verða við vinnu og útbúa skreytingar. Stutt fræðsluerindi verða í kennslustofum og hægt verður að spyrjast fyrir um það sem heitast brennur á ræktendum. Í Bananahúsinu er hægt að skoða hitabeltisgróður og sjá bananana þroskast á trjánum. Í verknámshúsi skrúðgarðyrkjunnar eru fyrirtæki á garðyrkjusviðinu að kynna nýjungar fyrir sumarið. Þarna má t.d. sjá (kl. 13) kynningu á rósarækt undir LED lömpum í klefa 9 í tilraunagróðurhúsinu. Einnig verða kynntir nýir LED lampar. Sjá nánar hér. Pottaplöntusafn skólans verður til sýnis. Einnig er margt um að vera á útisvæðum skólans. Ýmis afþreying verður í boði fyrir börnin.

Ljósmynd: Túlipani, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
15. apríl 2011
Tilvitnun:
Landbúnaðarháskóli Íslands „Opið hús í Landbúnaðarháskólanum að Reykjum“, Náttúran.is: 15. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/15/opid-hus-i-landbunadarhaskolanum-ad-reykjum/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: