Starfshoópur Samtaka lífrænna neytenda - Velferð búfjár (SLN-VB) er 15 manna starfshópur innan Samtaka lífrænna neytenda (www.lifraen.is) Hann skorar á yfirvöld og eftirlitsaðila að fara að lögum og beita öllum tiltækum úrræðum til að stöðva og koma í framtíðinni í veg fyrir langvarandi illa meðferð búfjár á bænum Stórhóli í Álftafirði sem og hjá öðrum, sem grunaðir eru um eða hafa orðið uppvísir að illri meðferð dýra. Í því sambandi leggur hópurinn sérstaka áherslu á að þeir, sem þessari áskorun er beint til kynni sér vandlega tilgang og markmið dýraverndarlaga nr. 15/1994 og laga um búfjárhald o.fl. nr. 103/2002 og þá hagsmuni dýra, sem þar er lögð áhersla á að vernda.

SLN-VB virðir ákvæði laga um sjálfstæði og hlutleysi dómstóla. Við leyfum okkur engu að síður og af marggefnu tilefni ýmissa dómstóla, sem beitt hafa refsiviðurlögum, sem telja verður lág á almenna mælikvarða vegna alvarlegra brota á lögum um dýravernd að beina þvií sérstaklega til Héraðsdóms Austurlands að sjónarmiðum um tilgang og markmið framangreindra laga um hagsmunagæslu dýra verði beitt þegar dómstóllinn tekur ákvörðun um það hvort viðkomandi ábúendum verði bannað að halda búfé eins og krafist mun vera í nýlegri ákæru lögreglustjórans á Eskifirði gangvart ábúanda.

Það er mat SLN-VB skv. ýmsum gögnum, sem tengjast Stórhólsmálinu, að sýnt hafi verið fram á að ábúendur hafa á umliðnum árum ítrekað þverbrotið fyrrnefnda löggjöf og jafnframt orðið berir að skelfilegri meðferð búfjár, sem valdið hefur varnarlausum dýrunum miklu og langvarandi kvalræði. Það er ekki í samræmi við þá meginreglu dýraverndarlaga að skylt sé að fara vel með öll dýr. Af verknaðarlýsingum og fjölda gagna, sem varða slæma meðferð búfjár á umræddum stað sl. 11 ár er ekki hægt að draga aðra ályktun en að um stórfelld og ítrekuð brot hafi verið að ræða hjá sakborningum og því hljóti lagaskilyrði að vera uppfyllt til að svipta viðkomandi leyfi til búfjárhalds. Sé einhver vafi á ferð um slíkt telur hópurinn að dýrin eigi að fá að njóta slíks vafa en ekki sakborningar eins dómstólar virðast hafa tamið sér að túlka dýraverndarlög og lög um búfjárhald o.fl. til þessa. Með dýraverndarlögum er verið að verja rétt dýra til velferðar – ekki eignarrétt manna. Þá skal bent á að ákæruvaldinu hafa verið mislagðar hendur við að sýna fram á þetta þrátt fyrir fyrirliggjandi gögn, sem ættu að hefja þetta yfir allan vafa í mörgum tilvikum. Því er þessu komið hér á framfæri við dómstólinn.

Í fjölda tilvika þar sem mál vegna illrar meðferðar dýra hafa komið til kasta yfirvalda og dómstóla þá hefur þeim lokið með viðurlögum, sem færa má rök fyrir að séu úr samhengi við alvarleika brota í lögfræðilegum skilningi. Varðandi mál ábúenda á Stórhóli sérstaklega, telur hópurinn að færa megi fullgild rök fyrir því að fullt tilefni hafi verið til á umliðnum árum að dýr á þeim stað væru án tafar tekin úr vörslu ábúenda og þeim bannað að halda búfé eins og fyrir er mælt í 18. gr. laga um búfjárhald o.fl. eða þeir sviptir leyfi til búfjárhalds eins og lög mæla fyrir um að heimilt sé að gera kröfu um í 20. gr. dýraverndarlaga.

Á það skal jafnframt bent að þrátt fyrir brotin njóta umræddir ábúendur óskertra opinberra styrkja til búrekstursins. Þannig eru skattgreiðendur látnir, á óbeinan hátt, styðja við og stuðla að áframhaldandi illri og siðlausri meðferð búfjárins.

Reykjavík, 2. október
Virðingafyllst, fh. Starfshópsins Velferð búfjár, Árni Stefán Árnason.

Birt:
4. október 2011
Tilvitnun:
Árni Stefán Árnason „Áskorun til yfirvalda, eftirlitsaðila og Héraðsdóms Austurlands m.a. vegna svonefnds Stórhólsmáls í Álftafirði“, Náttúran.is: 4. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/04/askorun-til-yfirvalda-eftirlitsadila-og-heradsdoms/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. október 2011

Skilaboð: