Rjúpnaveiði minnki frá fyrra ári
Umhverfisráðherra hefur fallist á ráðleggingar Náttúrufræðistofnunar um ráðlagða rjúpnaveiði árið 2011 upp á 31.000 fugla. Þetta eru ríflega helmingi færri fuglar en árið 2010, sem skýrist af verri stöðu rjúpnastofnsins. Með því að deila ráðlagðri veiði á fjölda skráðra rjúpnaveiðimanna undanfarin ár má þannig gera ráð fyrir um 6 rjúpum á hvern veiðimann.
Fyrirkomulagi rjúpnaveiða verður vegna þessa breytt frá fyrra ári, þannig að í stað átján daga veiðitímabils verður veiðisókn takmörkuð við níu daga í ár. Var þessi tillaga útfærð af sérfræðingum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, með það að markmiði að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu rjúpnastofnsins og viðhalda náttúrulegri sveiflu stofnsins.
Veiðitímabilið dreifist á fjórar helgar með eftirfarandi hætti:
- Föstudagurinn 28. október til sunnudagsins 30. október.
- Laugardagurinn 5. nóvember og sunnudagurinn 6. nóvember.
- Laugardagurinn 19. nóvember og sunnudagurinn 20. nóvember.
- Laugardagurinn 26. nóvember og sunnudagurinn 27. nóvember.
Umhverfisráðherra setti árið 2009 reglugerð um rjúpnaveiði til þriggja ára, nema að óvænt þróun yrði í rjúpnastofninum á tímabilinu. Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands hefur stofninn þróast þannig frá síðasta ári, að ákveðið hefur verið að breyta veiðifyrirkomulaginu með þessum hætti. Áætlar Náttúrufræðistofnun að veiðistofn rjúpunnar – og þar með veiðiþol stofnsins – hafi minnkað um ríflega helming frá árinu 2010, líkt og sjá má í meðfylgjandi töflu:
Stærð rjúpnastofnsins sveiflast reglubundið og hafa 10 til 12 ár verið á milli hámarksára. Um þessar mundir er stofninn í slíkri niðursveiflu, en miðað við fyrri reynslu má búast við að stofninn nái lágmarki á árabilinu 2015 til 2018. Við þessa náttúrulegu sveiflu bætist að hörð tíð í vor og fyrri hluta sumars hafði veruleg neikvæð áhrif á viðkomu rjúpunnar. Þá benda fyrirliggjandi gögn til þess að veiðar hafi þau áhrif, að afföll verði til viðbótar þeim rjúpum sem skotnar eru. Er vonast til að færri veiðidagar og lengri hlé á milli þeirra geti dregið úr slíkum viðbótarafföllum.
Áfram verður sölubann í gildi á rjúpu og rjúpnaafurðum og ákveðið svæði á Suðvesturlandi verður sömuleiðis áfram friðað fyrir veiði.
Frá því að rjúpnaveiðar hófust að nýju árið 2005 hafa rjúpnaveiðimenn verið virkir þátttakendur í að draga úr veiðum á rjúpu í því skyni að vernda stofninn. Ljóst er að á því niðursveiflutímabili sem rjúpnastofninn er í þurfa allir að leggjast á eitt, svo hægt sé að tryggja sjálfbæra nýtingu rjúpnastofnsins. Engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi veiðar á næsta ári. Á næstunni verður boðað til samstarfs sérfræðinga umhverfisráðuneytisins, stofnana þess og þeirra sem nýta rjúpnastofninn – þar sem skoðað verður hvernig best sé að haga veiðum á næstu árum.
Ljósmynd: Rjúpa í vetrarbúningi, ljósm. Jóhann Óli Hilmarsson.
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Rjúpnaveiði minnki frá fyrra ári“, Náttúran.is: 6. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/06/rjupnaveidi-minnki-fra-fyrra-ari/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.