Um miðjan september birti Rodale-stofnunin í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum nýjar niðurstöður úr rannsókn sem stofnunin hefur unnið að samfleytt í 30 ár. Í rannsókninni var lífrænn landbúnaður borinn saman við hefðbundinn landbúnað, bæði hvað varðar afkomu bænda og umhverfisáhrif. Niðurstöðurnar eru lífræna landbúnaðinum mjög í hag hvað báða þessa þætti varðar.

Helstu niðurstöður

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þessar:

  • Lífræn ræktun skilar jafnmikilli eða meiri uppskeru en hefðbundin ræktun.
  • Í þurrkatíð er uppskera í lífrænni ræktun mun meiri en í hefðbundinni ræktun.
  • Lífrænn landbúnaður byggir upp jarðveginn og stuðlar að sjálfbærni hans.
  • Orkunotkun er um 40% meiri í hefðbundnum landbúnaði en í lífrænum landbúnaði.
  • Losun gróðurhúsalofttegunda er um 55% meiri í hefðbundnum landbúnaði en í lífrænum landbúnaði.
  • Afkoma bænda í lífrænum landbúnaði er betri en annarra bænda.

Svipuð uppskera en meira þurrkþol

Bændur sem skipta yfir í lífræna ræktun mega búast við minni uppskeru á aðlögunartímabilinu, þ.e.a.s. fyrstu þrjú árin. Að þeim tíma liðnum er uppskeran í flestum tilvikum svipuð og í hefðbundnum landbúnaði samkvæmt niðurstöðum Rodale. Hins vegar virðast akrar í lífrænni ræktun þola þurrk mun betur en akrar í hefðbundinni ræktun. Við slíkar aðstæður var uppskeran í lífrænu ræktuninni 31% meiri en í þeirri hefðbundnu. Að þessu leyti kom lífræna ræktunin einnig betur út en ræktun þar sem notuðu voru erfðabreytt þurrkþolin afbrigði. Þar var uppskerumunurinn 6,7-13,3%, lífrænu ræktuninni í hag.

Betri vatnsbúskapur

Þessi mikli uppskerumunur í þurrkum kann að tengjast getu jarðvegs til að taka við og halda í sér vatni, en rannsóknin leiddi í ljós að jarðvegur í lífrænni ræktun tekur við 15-20% meira vatni en jarðvegur í hefðbundinni ræktun. Þetta þýðir að stærri hluti regnvatns skilar sér niður í vatnsforðabúrið í grunnvatninu í stað þess að skolast út í næsta skurð eða vatnsfall með tilheyrandi vatnsrofi.

Meiri hagnaður

Þegar afkoma bænda á 30 ára tímabili var borin saman, var lífræni landbúnaðurinn í yfirburðastöðu. Meðalhagnaður þar var 558 dollarar á ekru á ári, en aðeins 190 dollarar í hefðbundinni ræktun. Þessi mikli munur skýrist að hluta til af mun hærra söluverði lífrænt vottaðra afurða, en einnig reyndist kostnaður í lífrænni ræktun lægri. Svipað var uppi á tengingnum þegar lífræn ræktun var borin saman við ræktun erfðabreyttra plantna, en þar var afkoma bænda fremur bág. Það er í samræmi við aðrar svipaðar rannsóknir sem ná yfir skemmri tíma.

Heilbrigðari jarðvegur

Jarðvegur í lífrænni ræktun reyndist heilbrigðari en í hefðbundinni ræktun, en heilbrigði jarðvegs er m.a. mælt í kolefnisinnihaldi. Kolefnisinnihaldið fór heldur lækkandi með árunum í hefðbundinni ræktun, en hækkandi í lífrænni ræktun. Þetta er mikilvægt af ýmsum ástæðum, enda gegnir kolefni margþættu hlutverki í jarðvegi. Kolefnisríkur jarðvegur er næringarríkari en annar jarðvegur, binst þéttar saman, heldur jafnara hitastigi, skapar betri lífsskilyrði fyrir örverur, heldur í sér meira vatni og tryggir betri loftun.

Hagur í heimabyggð

Auk þess sem hér hefur verið talið, benda niðurstöðurnar frá Rodale til þess að lífrænn landbúnaður skapi um 30% fleiri störf en hefðbundinn landbúnaður. Stærri hluti teknanna í greininni nýtist því viðkomandi byggðarlagi í stað þess að fara í kaup á aðföngum. Staðhæfingin um meiri hagnað í yfirskrift þessa pistils gildir því líklega ekki um þá sem selja aðföng til landbúnaðar.

Niðurstöðurnar frá Rodale eru ekki þær einu sinnar tegundar, en þær hafa þó nokkra sérstöðu vegna þess hversu langt tímabil þær spanna.

(Þessi pistill á bloggsíður Stefáns Gíslasonar er byggður á upplýsingum á heimasíðu Rodale Institute og á umfjöllun Business Wire og  The Star Phoenix).

Ljósmynd: Hvítkál ræktað með lífræntum aðferðum (eigin ræktun), Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
3. október 2011
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Lífræn ræktun skapar fleiri störf, meiri hagnað og betra umhverfi“, Náttúran.is: 3. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/03/lifraen-raektun-skapar-fleiri-storf-meiri-hagnad-o/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: