Spergilkál er meðal þess hollasta sem móðir náttúra gefur af sér. Það er ríkt af andoxunarefnum og inniheldur C, K og A vítamín, kalk og magnesíum. Þar að auki er það fallegt og börnum finnst gaman að borða það.

Í bökur er hægt að nota óendanlega mikið af hráefni til að hafa fjölbreytileikann í fyrirrúmi. Hér er ein mjög góð hugmynd að fyllingu en hægt er að nota ýmislegt annað en spergilkál þó stuðst sé við grunnuppskriftina.

Botn

  • 200 ml fínt spelt
  • 100 ml gróft spelt
  • 40-50 ml ískalt vatn
  • 1 tsk salt
  • 50 gr smjör (má vera kalt)

Setjið báðar hveititegundirnar í matvinnsluvél, bætið salti og smjöri saman við. Hnoðið deigið saman með köldu vatni. Breiðið út og setjið í bökuform. Bakið í heitum ofni við 200°C í 10 mínútur.

Fylling

Bakan passar í 20 cm form

  • 60 gr spergilkál, skorið frekar smátt
  • 30 gr laukur, sneiddur
  • 1 hvítlauksrif, kramið eða saxað örsmátt
  • 20 gr gróft rifinn parmesanostur
  • 200 gr kotasæla
  • 3 egg
  • salt og pipar eftir smekk

Skerið spergilkálið og laukinn og steikið á pönnu við háan hita þar til það fær lit. Bætið þá parmesanostinum og hvítlauknum saman við og steikið þar til osturinn hefur bráðnað og hvítlaukurinn er orðinn ljósgulinn. Blandið kotasælu og eggjum saman og saltið og piprið. Setjið þá spergilkálsblönduna saman við kotasælublönduna, hellið svo fyllingunni í forbakaðan botninn og bakið í 200°C heitum ofni í 30 mínútur. Hægt er að skera bökuna í bita og frysta í bökunarpappír og plastpoka. Geymist í allt að þrjá mánuði í frysti.

Uppskrift úr bókinni „Hollt nesti heiman“ að eftir Margréti Gylfadóttur, Sigurrósu Pálsdóttur og Sigurveigu Káradóttur.

Mynd: Forsíða bókarinnar. Mynd tekin af vef Bókaútgáfunnar Sölku ehf.

Birt:
29. september 2011
Tilvitnun:
Móna Róbertsdóttir Becker „Hollt nesti heiman að: Spergilkáls- og hvítlauksbaka“, Náttúran.is: 29. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/29/hollt-nesti-heiman-ad-spergilkals-og-hvitlauksbaka/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: