Hollt nesti heiman að: Pítsa með grænmeti og klettasalati
Ef börnin mættu velja myndu þau mörg hver vilja pítsu í nestið á hverjum degi. Pítsa getur verið hollur kostur sé botninn úr grófu mjöli, sósan heimalöguð og gott grænmeti kemur í staðinn fyrir feitt kjötálegg. Það er líka óþarfi að drekkja þeim í osti. Tilvalið er að setja klettasalat ofan á.
Þessi pítsa er einkar næringarrík og bragðgóð. Grænmetispítsa býður upp á ógrynni af möguleikum þar sem allir geta sett á hana sitt uppáhaldsálegg. Heimatilbúin hvítlauksolía gerir svo gæfumuninn.
Deig
- 200 gr fínt spelt
- 150 gr gróft spelt
- 6 gr þurrger (rúmlega 1/2 þurrgersbréf)
- 1/2 tsk hunang
- 250 ml fingurvolgt vatn
- 2 msk jómfrúarólífuolía
- 1/2 tsk sjávarsalt
Leysið gerið upp ásamt hunanginu í um helmingi vatnsins. Leyfið því að standa í 10 mínútur. Setjið speltið í stóra skál, gerið góða holu í miðjuna og hellið gerblöndunni ofan í, ásamt ólífuolíu og sjávarsalti og bætið síðan við afganginum af vatninu. Hnoðið deigið lauslega í höndunum eða í hrærivél þar til það verður laust frá skálinni. Þekið með röku viskastykki og látið deigið hefast á hlýjum stað í um klukkustund, eða þar til deigið hefur tvöfaldað stærð sína. Fletjið deigið út, bætið spelti við eftir þörfum og setjið á bökunarplötu. Deigið dugar í 3 pítsur.
Pítsusósa
- 3-4 vel þroskaðir saxaðir tómatar
- 2 söxuð hvítlauksrif
- 1 rauð söxuð paprika
- 1 lítill rauðlaukur
- 2 msk ólífuolía
- 2 msk tómatpúrra
- 2 msk vatn
- sjávarsalt
Hitið olíuna við lágan hita, mýkið laukinn í 2-3 mínútur, bætið hvítlauk, tómatpúrru og papriku saman við og steikið í 3 mínútur í viðbót. Bætið við tómötum, salti og vatni og sjóðið áfram í 15 mínútur, hrærið í öðru hvoru. Ef vill þá er upplagt að mauka sósuna með töfrasprotanum.
Álegg
- paprika
- kúrbítur
- laukur
- ólífur
- þurrkað óreganó
- nýmalaður svartur pipar
- íslenskur mozzarellaostur í vatni eða ab-ostur
- klettasalat.
Kúrbíturinn er skorinn í þunnar sneiðar og brúnaður á þurru pönnunni. Paprika og laukur eru einnig skorin í þunnar sneiðar. Sósan er sett á deigbotninn, grænmetinu raðað ofan á, óreganói og slurki af svörtum pipar er stráð yfir. Að lokum er mozzarellaosturinn rifinn yfir pítsuna með fingrunum ásamt nokkrum dropum af ólífuolíu. Bakið við 220°C hita í 15-20 mínútur. Klettasalat er sett á pítsuna um leið og hún kemur út úr ofninum.
Hvítlauks- og chilíolía
- 100 ml jómfrúarólífuolía
- 1/2 ferskur rauður chilípipar, fræhreinsaður og smátt skorinn
- handfylli af saxaðri, ferskri, íslenskri steinselju
Öllu blandað saman og látið standa í klukkustund. Olían verður bara betri með hverjum deginum sem líður. Það eina sem þarf að passa er að hún standi ekki á björtum og hlýjum stað.
Uppskrift úr bókinni „Hollt nesti heiman að“ eftir Margréti Gylfadóttur, Sigurrósu Pálsdóttur og Sigurveigu Káradóttur.
Mynd: Forsíða bókarinnar. Mynd tekin af vef Bókaútgáfunnar Sölku ehf.
Birt:
Tilvitnun:
Móna Róbertsdóttir Becker „Hollt nesti heiman að: Pítsa með grænmeti og klettasalati“, Náttúran.is: 28. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/27/hollt-nesti-heiman-ad-pitsa-med-graenmeti-og-klett/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 27. september 2011
breytt: 28. september 2011