Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, kynnti í morgun í ríkisstjórn samstarf sem hafið er við bæjarstjórn Vesturbyggðar um að vinna að friðlýsingu Látrabjargs og Rauðasands. Svæðið hefur frá upphafi náttúruverndaráætlunar verið tilgreint sem eitt af þeim svæðum sem mikilvægt er að vernda sem friðland eða þjóðgarð.

Látrabjarg og Rauðasandur einkennast af mikilfenglegu og fjölbreyttu landslagi, stórbrotnu fuglabjargi ásamt minjum um búskap við sjó og sjósókn fyrri tíma. Svæðið er alþjóðlega mikilvægt vegna sjófuglabyggðar og þar er stærsta álkubyggð í heimi.

Í janúar síðastliðnum skipaði bæjarstjórn Vesturbyggðar starfshóp um framtíðarskipulag Látrabjargssvæðins en í aðalskipulagi sveitarfélagsins er gert ráð fyrir verndun svæðisins. Í framhaldinu hefur Umhverfisstofnun unnið að því að kynna hugmyndina og fá fram viðbrögð frá landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu, en forsenda friðlýsingarinnar er að samkomulag takist við alla rétthafa svæðisins.

Sem liður í þessu ferli Umhverfisstofnunar mun umhverfisráðherra heimsækja svæðið dagana 26. og 27. september til skrafs og ráðgerða við landeigendur og annað áhugafólk um framhaldið. Ráðherra mun funda með heimamönnum á alls fimm stöðum: Hvallátrum, Breiðavík, Hnjóti, Patreksfirði og Rauðasandi.

Ljósmynd: Sjór og fuglar við Látrabjarg, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
23. september 2011
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Unnið að friðlýsingu Látrabjargs og Rauðasands “, Náttúran.is: 23. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/23/unnid-ad-fridlysingu-latrabjargs-og-raudasands/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: