Umhverfisvænt og sjálfbært hús í Wales
Simon Dale er fjölskyldufaðir og arkítekt frá Wales. Simon ákvað að byggja hús fyrir fjölskyldu sína og fékk hann hjálp frá tengdaföður sínum. Það tók um 4 mánuði að byggja húsið. Húsið er þó ekki eins og venjulegu húsin sem við erum svo vön að sjá í kringum okkur. Húsið minnir á lítið hobbitahús. Framkvæmdirnar kostuðu ekki nema 3.000£ eða um 550.000 kr.
Það sem er öðruvísi við þetta hús er að það var byggt með hámarks tilliti til umhverfisins og gefur fjölskyldunni tækifæri að lifa í fullkomnu jafnvægi við náttúruna. Húsið var byggt úr náttúrulegum hráefnum til að koma í veg fyrir að húsið myndi fyllast af alls konar krabbameinsvaldandi eitri sem er því miður raunin á flestum nútímaheimilum.
Nokkur atriði varðandi hönnun og byggingu hússins:
- Grafið var í hlíð svo að sjónrænu áhrifin yrðu sem minnst.
- Steinarnir og drullan sem fengust eftir að grafað var í hlíðina voru notaðir til að halda uppi veggjum og öðru.
- Viðurinn var fenginn úr skóglendi umhverfis lóðina.
- Hey er notað í gólfin, veggina og þakið fyrir einstaklega góða einangrun.
- Kalk-gifs er notað í staðinn fyrir sement þar sem það andar vel og lítil orka var notuð við framleiðslu efnisins.
- Endurunninn viður var notaður í gólfin.
- Allt sem hugsanlega gæti vantað í framkvæmdirnar er hægt að finna á ruslahaug einhversstaðar.
- Viðarofn er notaður til kyndingar.
- Ísskápurinn er kældur þannig að köldu lofti er beint upp neðanjarðar frá.
- Gluggi á þakinu gerir sólinni kleift að skína inn í húsið.
- Sólarsellur gefa húsinu rafmagn fyrir lýsingu, tónlist og tölvunotkun.
- Allt vatnið kemur frá læk sem er rétt hjá húsinu.
Í dag býr Dale fjölskyldan þó ekki í sama húsinu því þau hafa hafist handa við að byggja nýtt umhverfisvænt og sjálfbært hús á lóð fyrsta umhverfisvæna þorpsins í Wales (einnig betur þekkt sem “low impact” ecovillage). Hægt er að fá nánari upplýsingar og myndir á vef fjölskyldunnar, sem er www.simondale.net/house/index.htm
Mynd: Innan úr húsinu. Mynd tekin af vef www.simondale.net
Birt:
Tilvitnun:
Móna Róbertsdóttir Becker „Umhverfisvænt og sjálfbært hús í Wales“, Náttúran.is: 22. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/22/umhverfisvaent-og-sjalfbaert-hus-i-wales/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.