Samkomulag í Doha: Nýtt skuldbindingartímabil Kýótó samþykkt 2013-2020
- Ísland meðal 37 ríkja sem taka á sig skuldbindingar um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda
- Ísland tekur á sig sameiginlegar skuldbindingar með 28 öðrum ríkjum
- Ísland uppfyllir skuldbindingar með framkvæmd aðgerðaáætlunar og framfylgd EES-reglna
Skuldbindingar Kýótó-bókunarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda verða framlengdar til ársins 2020, samkvæmt ákvörðun 18. aðildarríkjaþings Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem lauk í dag í Doha í Katar. Fyrsta skuldbindingartímabilinu, 2008-2012, lýkur nú í árslok, en með ákvörðuninni í Doha er tryggt að takmarkanir á losun verða framlengdar á nýju tímabili, 2013-2020. Alls taka 37 ríki á sig bindandi skuldbindingar á nýju tímabili; allt Evrópuríki utan Ástralía. Samtals eru þau með um 15% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, sem er mun minna hlutfall en á 1. tímabili.
Á fundinum í Doha lauk nær 7 ára langri lotu samningafunda um framtíð Kýótó og eflingu aðgerða í loftslagsmálum. Flest ríki hafa tilkynnt um sjálfviljug markmið um minnkun losunar til 2020, en þau eru ekki lagalega bindandi eins og í Kýótó-bókuninni. Fjögur ríki sem voru með í Kýótó á 1. tímabili verða ekki með á 2. tímabili: Japan, Kanada, Nýja-Sjáland og Rússland. Í Doha komst á skrið ný lota samningaviðræðna, sem miðar að því að koma á bindandi skuldbindingum fyrir öll ríki. Stefnt er að því að ljúka samningi þess efnis árið 2015 og að hann taki gildi árið 2020.
Auk framlengingar Kýótó-bókunarinnar voru ýmsar ákvarðanir samþykktar í Doha sem lúta m.a. að því að auka loftslagstengda fjárhagsaðstoð til þróunarríkja og efla dreifingu loftslagsvænnar tækni. Fundurinn samþykkti ályktun um eflda þátttöku kvenna í starfi loftslagssamningsins, sem Ísland stóð að ásamt fjölda annarra ríkja. Ísland hefur lagt áherslu á jafnréttismál á vettvangi Loftslagssamningsins á undanförnum árum og átt þátt í að móta samningstexta og ályktanir um þau mál. Ísland stóð fyrir kynningarviðburði á Doha-fundinum um verkefni í Úganda, sem miðar að aukinni þátttöku kvenna í ákvörðunartöku og aðgerðum til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.
Ísland er meðal þeirra ríkja sem tekur á sig skuldbindingar um takmörkun á losun á 2. tímabili Kýótó. Ísland tekur á sig sameiginlega skuldbindingu með ríkjum Evrópusambandsins og Króatíu um að draga úr losun um 20% til 2020, miðað við 1990. Með þessu fyrirkomulagi nýta ríkin sér ákvæði í Kýótó-bókuninni , sem heimilar ríkjum að taka á sig sameiginlegar skuldbindingar. Þetta þýðir að ekki er gerð krafa á hvert einstakt ríki í hópnum að draga úr losun um 20%, heldur aðeins ríkjahópinn í heild, en ríkin innan hans þurfa svo að ákveða sín á milli hverjar skuldbindingar hvers og eins verður. Gengið verður frá því í kjölfar Doha-fundarins, áður en breytingar á Kýótó-bókuninni verða fullgildar.
Ísland hyggst uppfylla sínar skuldbindingar annars vegar með þátttöku í evrópsku viðskiptakerfi um losunarheimildir og hins vegar með því að framkvæma aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem samþykkt var í ríkisstjórn 2010. Áætlunin gerir ráð fyrir um 30% minnkun nettólosunar í geirum utan viðskiptakerfisins til 2020, miðað við 2005. Ísland mun taka þátt í umræðum með ríkjum ESB og Króatíu á næstunni um frekari útfærslu hinna sameiginlegu skuldbindinga á 2. tímabili Kýótó-bókunarinnar.
Ítarefni: Kaflaskil varðandi alþjóðlegar loftslagsskuldbindingar Íslands
Ísland er meðal þeirra tæplega 40 ríkja sem bera skuldbindingar um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda skv. Kýótó-bókuninni á tímabilinu 2008-2012. Nýjustu tölur um losun eru frá 2010, en flest bendir til þess að Ísland muni standa við skuldbindingar sínar á tímabilinu. Ísland ber líka skuldbindingar í loftslagsmálum í gegnum EES-samninginn og á næsta ári mun rúmlega 40% af losun Íslands falla undir evrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS). Í ljósi þess að losun Íslands mun að stórum hluta verða innan evrópsks viðskiptakerfis óskuðu íslensk stjórnvöld eftir því við Evrópusambandið að skoðað yrði hvort Ísland gæti tekið á sig sameiginleg markmið með ríkjum ESB innan Kýótó á 2. skuldbindingartímabili. Slíkt er heimilt skv. 4. grein bókunarinnar og notfærðu 15 ríki ESB sér það ákvæði á 1. tímabilinu og mynduðu ek. sameiginlegt „hvolf“ innan Kýótó, þar sem ríkin sjálf ákváðu skuldbindingar sínar innan hvolfsins. Með því að vera með í sameiginlegu hvolfi ríkja innan Kýótó er komið í veg fyrir að íslenskt atvinnulíf búi við tvöfalt kerfi fjölþjóðlegra skuldbindinga, annars vegar innan Kýótó og hins vegar skv. EES-samningnum.
Ísland og ESB gerðu með sér pólitískt samkomulag um að stefna að sameiginlegum skuldbindingum fyrir Kaupmannahafnarfundinn árið 2009. Á 17. aðildarríkjafundi Loftslagssamningsins í Durban í S-Afríku 2011 var samþykkt að Ísland yrði ásamt 27 aðildarríkjum ESB og Króatíu í sameiginlegu hvolfi á 2. skuldbindingartímabili. Í sameiningu eiga ríkin 29 að draga úr losun um 20% til 2020 miðað við 1990. Hlutur einstakra ríkja innan þess markmiðs er ekki nákvæmlega útfærður og verður ákveðinn af ríkjunum áður en breytingar á Kýótó-bókuninni verða fullgiltar. Það liggur þó nokkurn veginn fyrir hvaða skuldbindingar einstök ríki taka á sig innan hvolfsins, sem vinna öll að miklu eða öllu leyti eftir samevrópskum reglum í loftslagsmálum.
Hvað Ísland varðar þá verður losun frá stóriðju, flugi og að hluta til í fiskvinnslu og öðrum iðnaði innan viðskiptakerfis ESB, skv. ákvæðum EES-samningsins. Hinn hluti losunar Íslands – frá samgöngum, fiskveiðum, landbúnaði, úrgangi o.fl. – fellur ekki undir samevrópskar reglur, en íslensk stjórnvöld hyggjast draga úr losun nettólosun þar um rúmlega 30% til 2020, miðað við árið 2005, þegar ávinningur af bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu hefur verið tekinn með í reikninginn. Unnið er að þessu skv. aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem ríkisstjórnin samþykkti árið 2010. Ísland mun því vinna að skuldbindingum sínum innan „hvolfsins“ á 2. tímabili Kýótó á grundvelli annars vegar með framkvæmd aðgerðaáætlunar stjórnvalda og hins vegar með þátttöku í evrópsku viðskiptakerfi með losunarheimildir. Ísland mun taka þátt í vinnu við nánari útfærslu á skuldbindingum ríkja innan hvolfsins á komandi mánuðum og misserum. Losun Íslands er innan við 0,1% af heildarlosun ríkjanna 29 í hvolfinu og því lítil hætta á að hún skipti sköpum í tengslum við skuldbindingar, en hins vegar er ætlast til að ríki búi við sömu eða sambærilegar reglur og leggi með því sanngjarnan hlut til hins sameiginlega markmiðs.
Ríki í Kýótó-bókuninni verða að ná markmiðum sínum með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, binda kolefni úr andrúmsloftinu í gróðri og jarðvegi með ræktun, eða með sk. sveigjanleikaákvæðum, s.s. með því að styðja loftslagsvæn verkefni í öðrum ríkjum. Upphaflega var gert ráð fyrir því að öll ríki sem teljast þróuð yrðu innan vébanda Kýótó, en Bandaríkin fullgiltu aldrei bókunina. Í samningaviðræðunum hefur kvarnast úr ríkjahópnum innan Kýótó; Kanada, Japan og Rússland höfðu fyrir nokkru tilkynnt að þau yrðu ekki með á 2. skuldbindingartímabili og í aðdraganda Doha bættist Nýja-Sjáland í þann hóp. Þau ríki sem verða með á 2. skuldbindingartímabili eru 27 aðildarríki ESB, Noregur, Sviss, Ástralía og nokkur önnur ríki, auk Íslands
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Samkomulag í Doha: Nýtt skuldbindingartímabil Kýótó samþykkt 2013-2020“, Náttúran.is: 8. desember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/12/08/samkomulag-i-doha-nytt-skuldbindingartimabil-kyoto/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.