HönnunarMars hefst í dag
HönnunarMars er boðberi vorsins og gróskunnar í íslenskri hönnun og lífleg bæjarhátíð. Á HönnunarMars býðst tækifæri að auðga andann og hljóta innblástur af hinni taumlausu sköpunargleði sem ríkir innan hönnunarsamfélagsins. Við hlökkum til að sjá þig á HönnunarMars 2012.
HönnunarMars fer fram í fjórða skiptið, dagana 22. - 25. mars 2012. Frá upphafi hafa það verið íslenskir hönnuðir sem bera hitann og þungann af dagskrá hátíðarinnar sem spannar langa helgi og býður til ótal viðburða, innsetninga og sýninga.
HönnunarMars er fjögurra daga hönnunarhátíð í Reykjavík þar sem dagskráin er barmafull af fjölbreyttum og spennandi viðburðum af ýmsu tagi. Hönnuðir bjóða almenningi að kynna sér heim hönnunar með áhugaverðum sýningum og fróðlegum fyrirlestrum sem endurspegla fjölbreytta flóru íslenskrar hönnunar og arkitektúrs.
Á fyrirlestradegi HönnunarMars, stíga fjórir framsæknir hönnuðir á svið í Gamla Bíó. Þeir eru Marije Vogelzang, Tuomas Toivonen, Koert van Mensvoort, og Hjalti Karlsson. Meginþema fyrirlestradagsins er samstarf - mikilvægi þess að sækja sér þekkingu úr hinum ýmsu áttum og deila sérþekkingu milli fagsviða.
Nánari upplýsingar um fyrirlestradaginn má finna hér.
Hönnun á Íslandi er ekki ný af nálinni en gríðarlegur árangur og vitundarvakning hefur átt sér stað á undanförnum árum. HönnunarMarsinn spannar vítt svið, allt frá helstu hönnuðum þjóðarinnar sem sýna hvað í þeim býr, til nýútskrifaðra hönnuða sem stíga sín fyrstu skref. Á HönnunarMars er hönnun kynnt sem atvinnugrein sem byggir á traustum grunni og gegnir veigamiklu hlutverki í samtímanum.
Aðferðafræði hönnunar býr yfir einstökum tækifærum til sköpunar og endursköpunar. HönnunarMarsinn örvar, hvetur og ýtir undir sköpun því að þar mætast hönnuðir, fyrirtæki, framleiðendur og kaupendur; nýir möguleikar og tækifæri verða til.
Hægt er að nálgast app sem Síminn hefur þróað með öllum upplýsingum hér.
Birt:
Tilvitnun:
Hönnunarmiðstöð „HönnunarMars hefst í dag“, Náttúran.is: 22. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/22/honnunarmars-hefst-i-dag/ [Skoðað:30. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 27. mars 2012