Samgönguvika Reykjavíkur hefst á morgun
Dagana 16.-22. september fer fram árleg Samgönguvika. Um er að ræða evrópskt átak um bættar samgöngur í borgum og bæjum. Markmið vikunnar er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja það til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga. Á meðan átakinu stendur verða stjórnvöld hvött til að stuðla að notkun þessara samgöngumáta og fjárfesta í nauðsynlegum aðbúnaði. Fleiri en 2.000 sveitarfélög taka þátt í Samgönguviku 2011. Þema vikunnar í ár er „Alternative mobility“ sem þýðist Alls konar ferðamátar fyrir alla.
Samgönguvika hefst með setningu og málþingi um hjólreiðar í Iðnó föstudaginn 16. september. Málþingið ber yfirskriftina Hjólum til framtíðar og er í umsjón Landssamtaka Hjólreiðamanna og Hjólafærni á Íslandi í samvinnu við Reykjavíkurborg, Landlæknisembættið og fleiri.
Þrír erlendir sérfræðingar í hjólaeflingu munu halda forvitnilega fyrirlestra á málþinginu þau Troels Andersen frá danska hjólasendiráðinu, Marc Van Woudenberg frá hollenska hjólasendiráðinu og Kerstin Goroncy frá Oldenburg í Þýskalandi. Þau hafa öll sérþekkingu á sviði hjólaeflingar og ætti enginn sem er áhugasamur um umhverfisvænan lífsstíl að láta þessa fyrirlestra fram hjá sér fara. Á málþinginu verða einnig flutt erindi frá Innanríkisráðuneytinu, Umferðarstofu, heimspekispjall um góðan hjóladag auk fleiri erinda.
Nánari upplýsingar um skráningu og dagskrá málþingsins er að finna á heimasíðunni www.lhm.is
Meðan á Samgönguviku stendur verður efnt til ljósmyndasamkeppni sem nefnist Ég hjóla. Þar gefst öllum færi á að senda inn mynd sem tengist hjólreiðum á Facebook síðu Reykjavíkurborgar. Sú mynd sem flestum "líkar við" á fésbókinni fær vegleg verðlaun.
Á Samgönguviku í Reykjavíkur verður boðið upp á ýmsa viðburði sem tengjast alls konar ferðamátum. Boðið verður upp á hjólatúra, opnaðir verða nýir hjólastígar, haldinn verður Strætódagur fjölskyldunnar, Bíllausi dagurinn og riðið á vaðið með stæðaæði í miðborginni en þar munu samtök um Bíllausan lífsstíl gera bílastæðum í miðborginni hátt undir höfði á óhefðbundinn hátt og lífga hressilega upp á hjarta borgarinnar í leiðinni.
Margt annað verður í boði á samgönguviku. Því er um að gera að smyrja hjólið, taka fram göngu- eða hlaupagallann, prófa að taka strætó á höfuðborgarsvæðinu eða einfaldlega setjast niður og leggja heilann í bleyti um það hvernig eigin ferðavenjum er háttað og hvernig mögulegt er að breyta til þannig að þær verði vistvænar og heilnæmar.
Dagskrá samgönguvikunnar í Reykjavík.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Samgönguvika Reykjavíkur hefst á morgun“, Náttúran.is: 15. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/15/samgonguvika-reykjavikur-hefst-morgun/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.