Dómnefnd hefur tilnefnt fjóra til fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins sem veitt verða í fyrsta sinn 16. september næstkomandi á Degi íslenskrar náttúru.

Tilnefnd til verðlaunanna eru:

  • Morgunblaðið fyrir upplýsandi og vandaða umfjöllun um áhrif loftslagsbreytinga á íslenska náttúru í greinarflokknum Hamskipti lífríkis og landslags. Greinarnar skrifuðu blaðamennirnir  Guðni Einarsson og Rúnar Pálmason en þeim til aðstoðar var Elín Esther Magnúsdóttir sem vann grafík, Sigurbjörg Arnarsdóttir og Ingólfur Þorsteinsson sem brutu flokkinn um og ljósmyndir tóku Ómar Óskarsson og Ragnar Axelsson.
  • Ragnar Axelsson ljósmyndari fyrir að beina sjónum að náttúruvernd og samspili manns og náttúru í verkum sínum.
  • Steinunn Harðardóttir stjórnandi þáttarins Út um græna grundu á Rás 1 fyrir umfjöllun um íslenska náttúru, umhverfið og ferðamál.
  • Svavar Hávarðsson blaðamaður Fréttablaðsins fyrir ítarlega umfjöllun um mengun sem ógnar náttúru og fólki.

Verðlaununum er ætlað er að hvetja til hverskyns umfjöllunar um íslenska náttúru, hvort heldur er í því skyni að vekja athygli á einstakri náttúru landsins eða benda á þær ógnir sem steðja að íslenskri náttúru og mikilvægi þess að varðveita hana og vernda í þágu komandi kynslóða.

Verðlaunagripurinn er listmunur hannaður af Finni Arnari Arnarsyni.
Í dómnefnd vegna verðlaunanna sitja María Ellingsen formaður, Jónatan Garðarson og Valgerður A. Jóhannsdóttir.

Birt:
8. september 2011
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Fjórir tilnefndir til fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins“, Náttúran.is: 8. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/08/fjorir-tilnefndir-til-fjolmidlaverdlauna-umhverfis/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: