Hvítbók um náttúruvernd á Íslandi komin út
Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, kynnti í morgun í ríkisstjórn hvítbók sem nefnd um endurskoðun náttúruverndarlaga hefur unnið en í henni felst heildarendurskoðun og -úttekt á lagaumhverfi náttúruverndar á Íslandi.
Þetta er í fyrsta sinn sem slík hvítbók er unnin í því skyni að leggja grunn að smíði nýrrar löggjafar hér á landi en það er í samræmi við vinnubrögð sem tíðkast á Norðurlöndum. Nefndina sem vann hvítbókina skipuðu sérfræðingar á sviði náttúrufræða, stjórnsýslufræða og lögfræði og hafa margir þeirra áratuga reynslu af starfi að náttúruvernd. Lagði nefndin áherslu á að gera grein fyrir nýjum aðferðum og viðhorfum sem rutt hafa sér rúms í náttúruvernd víða um heim og rekja má til ýmissa alþjóðsamninga sem Íslendingar hafa gerst aðilar að. Þá vann nefndin tillögur um hvernig koma megi þessum aðferðum og hugmyndum inn í íslenska löggjöf á grunni núgildandi laga með áherslu á að gæta jafnvægis milli ólíkra hagsmuna.
Meginreglur umhverfisréttar útfærðar
Meðal þess sem nefndin leggur áherslu á er að gildissvið náttúrverndarlaga er varðar vernd lífríkis hafsins verði skýrt og styrkt og að hugað verði að því að lög um landgræðslu og skógrækt verði felld í náttúruverndarlög. Áhersla er lögð á að útfæra meginregur umhverfisréttar í nýjum náttúruverndarlögum, svo sem varúðarregluna, reglurnar um fyrirbyggjandi aðgerðir, samþættingu umhverfissjónarmiða og greiðsluregluna. Þá er lagt til að lögfestar verði tvær mikilvægar reglur til viðbótar, þ.e. reglan um vísindalega þekkingu sem grundvöll ákvörðunartöku og reglan um viskerfisnálgun og mat á heildarálagi.
Í hvítbókinni er m.a. fjallað ítarlega um friðlýsingar og annars konar verndaraðgerðir hér á landi, náttúruminjaskrá og náttúruverndaráætlun, framandi tegundir, vatn, almannarétt og erfðaauðlindir. Gerð er úttekt á skipulagi stjórnsýslu á sviði náttúruverndar og fjallað er sérstaklega um ýmis verkefni stjórnvalda sem varða náttúruvernd.
Loks telur nefndin mikilvægt að ný náttúruverndarlög veiti skýrar heimildir til að beita þvingunarúrræðum ef ákvæðum laganna er ekki fylgt. Að auki telur nefndin rétt að skoða hvort ástæða sé til að setja ítarlegri ákvæði um ábyrgð á umhverfistjóni í lögum um náttúruvernd.
Hvítbókin verður til umfjöllunar á Umhverfisþingi sem umhverfisráðuneytið efnir til 14. október. Í framhaldinu hefst opið umsagnarferli um bókina sem lýkur 1. desember. Að því loknu hefst vinna við gerð frumvarps um breytingar á náttúruverndarlögum þar sem umræðan á umhverfisþingi og framkomnar athugasemdir verða hafðar til hliðsjónar. Er gert ráð fyrir því að nýtt frumvarp til breytinga á náttúruverndarlögum komi til kasta Alþingis í vor.
Þegar ráðist í vissar breytingar
Samhliða því sem hvítbókin var lögð fyrir ríkisstjórn í morgun kynnti umhverfisráðherra lagafrumvarp sem felur í sér breytingar á lögum um náttúruvernd. Eru þar á ferð breytingar sem nefndinni þótti nauðsynlegt að gera strax í stað þess að láta þær bíða heildarendurskoðunar laganna. Felur frumvarpið í sér breytingar á 17. grein náttúruverndarlaga er varðar akstur utan vega og 37. grein sem tekur til sérstakrar verndar tiltekinna náttúrufyrirbæra.
Í upprunalegri útgáfu frumvarpsins, sem umhverfisráðuneytið kynnti í desember 2010 voru að auki lagðar til breytingar á 41. grein laganna þar sem fjallað er um innflutning, ræktun og dreifingu lifandi lífvera. Í ljósi fjölda athugasemda sem gerðar voru við þá tillögu var ákveðið að fella hana úr frumvarpinu en þess í stað er ítarlega fjallað um 41. greinina í hvítbókinni.
Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands (heildarrit).
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Hvítbók um náttúruvernd á Íslandi komin út“, Náttúran.is: 6. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/06/hvitbok-um-natturuvernd-islandi-komin-ut/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.